22 feb Þegar ríkisstjórnin yfirgaf krónuna
Í lok síðasta árs ákvað ríkisstjórnin að yfirgefa krónuna og færa sig yfir í evrur til þess að fjármagna halla ríkissjóðs. Þessi kúvending hefur hins vegar ekkert verið rædd á Alþingi.
Þegar kórónuveirukreppan skall á lýsti ríkisstjórnin því yfir að hún ætlaði að byggja á stuðningi Seðlabankans og fjármagna halla ríkissjóðs á lágum vöxtum og án gengisáhættu í íslenskum krónum. Viðreisn studdi þá ábyrgu ákvörðun.
Afleiðingar nýrrar lántökustefnu
Þeir sem vilja halda í krónuna sem gjaldmiðil hafa helst bent á að við sérstakar aðstæður geti verið gott að grípa til peningaprentunar. Og vera þannig án gengisáhættu innan eigin gjaldmiðils. Það ætlaði ríkisstjórnin að gera, en áður en til þess kom ákvað hún að snúa við blaðinu og taka lán í evrum með hóflegri ávöxtunarkröfu en augljósri gengisáhættu. Þrátt fyrir að sporin ættu að hræða. Engu að síður tekur ríkisstjórnin lán í erlendum gjaldmiðlum meðan tekjur eru í íslenskum krónum. Og vonar hið besta. Þetta er risaákvörðun sem ríkisstjórnin hefur ekki gert Alþingi grein fyrir.
Á dögunum freistaði ég þess að eiga orðastað við forsætisráðherra um ástæður þess að ríkisstjórnin ákvað að yfirgefa krónuna við fjármögnun á hallanum og fá fram mat á því hvaða afleiðingar það gæti haft. Fyrir heimili, fyrirtæki og velferðina.
Þjóðleg og ópólitísk afstaða
Forsætisráðherra hafði tvennt fram að færa:
Annars vegar sagði hún að fyrirspurn mín sýndi að ég væri í pólitík. Þar hitti hún vissulega naglann á höfuðið. Þótt ég telji það alla jafna ekki undrunarefni að þingmenn séu í pólitík. En það má gagnálykta út frá þessari athugasemd.
Þannig virðist forsætisráðherra, sem forðast umræðu um stefnubreytingu í jafn stóru máli, ekki vera að gegna pólitísku hlutverki sínu. Þegar svo miklir hagsmunir eru í húfi fyrir almannahag lýsir ópólitísk afstaða ekki mikilli pólitískri ábyrgð.
Hins vegar sagði forsætisráðherra að ég væri að tala krónuna niður og gaf um leið í skyn að slíkt athæfi væri óþjóðlegt.
Að tala krónuna niður
Skoðum þessa staðhæfingu aðeins:
- Þegar ríkisstjórn hverfur frá því að taka lán í krónum og ákveður að taka lán í evrum er hún sjálf að lýsa því yfir að það sé ekki hægt að nota gjaldmiðilinn okkar. Það vantraust er ekki ópólitískt en kann að vera raunsætt. Verðgildi krónunnar verður hins vegar ekki haldið uppi á sjálfbæran hátt með erlendum lánum ríkissjóðs.
- Stundum er sagt að áhrifamesti seðlabankastjóri í heimi geti talað dollarann upp eða niður. Flestir efast þó um að orð hans eða hennar dugi ein og sér. En geti formaður í stjórnarandstöðuflokki talað krónuna niður ber það vott um annað tveggja; einstaklega mikil pólitísk áhrif eða afar veikan gjaldmiðil.
- Fyrir tveimur árum ákvað ríkisstjórnin að gjöld vegna fiskeldis í sjó skyldu vera ákveðinn hundraðshluti af kílóverði í evrum. Ríkisstjórn, sem notar erlendan gjaldmiðil í íslenskri löggjöf, er ekki að tala krónuna niður með lagaboði. Hún er einfaldlega raunsæ á veikleika krónunnar og fjarri því að vera óþjóðleg.
- Forsætisráðherra sat í ríkisstjórn, sem samþykkti í júlí 2012 að Ísland stefndi að upptöku evru. Samþykktin um það samningsmarkmið var send öllum ríkisstjórnum aðildarríkja Evrópusambandsins. Ekki er vitað til þess að hún hafi formlega verið afturkölluð. En vissulega er þjóðlegt að þeir sletti skyri sem eiga það.
Atvinnulífið kallar á ábyrgð
Stefnubreyting ríkisstjórnarinnar er alvarlegra og stærra mál en svo að það sé ekki rætt málefnalega á Alþingi. Gengisáhættan er gríðarleg. Bara á síðasta ári jukust skuldir ríkissjóðs um 45 milljarða vegna gengisbreytinga. Að svara með innantómum útúrsnúningum er ekki boðlegt.
Það er alla jafna ólíkt forsætisráðherra að ræða mál á Alþingi með þeim hætti. Þessi undantekning gæti bent til þess að stefnubreytingin hafi ekki verið rædd í þaula eða hugsuð til enda.
Samtök atvinnulífsins vara við óábyrgri afstöðu til lánamála ríkisins. Lántökurnar hafa þó fyrst og fremst farið til að hjálpa skjólstæðingum þeirra. Þær voru óhjákvæmilegar. En það er rétt hjá Samtökum atvinnulífsins að öllu máli skiptir hvernig á er haldið.
Rússnesk rúlletta
Skuldirnar geta ekki orðið sjálfbærar nema vextirnir og gengisáhættan verði lægri en nafnvöxtur þjóðarframleiðslunnar. Annars þarf niðurskurð eða skattahækkanir. Það þarf að segja hreint út.
Hvarvetna er litið svo á að ríkisstjórnir verði að fjármagna halla vegna kreppunnar í eigin gjaldmiðli. Gengisáhættan af svo stórtækum erlendum lánum er almennt talin of mikil til að vera ábyrg. Hún getur virkað eins og rússnesk rúlletta.
Vel má vera að ríkisstjórnin telji sig yfir það hafna að svara stjórnarandstöðunni á Alþingi. En ætlar hún að láta vera að skýra út fyrir Samtökum atvinnulífsins, sem nú kalla á ábyrgð í ríkisfjármálum, hvers vegna áhættusamari lántaka var valin en upphaflega var ráðgert?
Hvað með verkalýðshreyfinguna? Mun hún kalla eftir útskýringu á hvers vegna stjórnvöld fara í þessa áhættutöku með velferðarkerfið að veði fyrir erlendum lánum? Eða verða það á endanum heimilin í landinu sem borga brúsann, ef illa fer?
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. febrúar 2021