25 feb Fjölgum skurðlæknunum
Þegar ég var kúasmali á Fossi spurði ég Bjarna bónda einu sinni hvers vegna hann væri að láta grafa alla þessa skurði. Ég benti honum á að það væri nóg af túnum til að heyja og engin þörf á f leiri engjum. Ég man að það var fátt um svör en síðar sá ég að skýringin var sú að skurðgröfturinn var greiddur af ríkinu.
Framræsluskurðir eru einhver furðulegustu mannvirki á Íslandi. Grafnir hafa verið um 30 þúsund kílómetrar af skurðum en aðeins um 4 þúsund nýtast bændum. Hinir 26.000 kílómetrarnir sem samsvara næstum 20 sinnum lengd hringvegarins losa koldíoxíð sem nemur um 65 prósentum af kolefnisspori Íslands. Áætluð árleg losun frá framræstu og röskuðu votlendi sem hægt er að draga úr er 6,6 milljónir tonna af CO2-ígildum.
Þessir óþarfa skurðir losa koldíoxíð sem samsvarar mengun af brennslu á um 3 milljónum lítra af jarðefnaeldsneyti á ári en við notum „aðeins“ um eina milljón lítra á ári. Þessi mengandi skurðgröftur hefur leitt til þess að landið okkar „umhverfisvæna“ er í dag með stærsta kolefnisspor í Evrópu miðað við höfðatölu en við losum um 44 tonn á mann, næst á undan Lúxemborg sem er með um 17 tonn samkvæmt nýlegri rannsókn. Ég hvet til þjóðarátaks í að „lækna“ þessa skurði.
Ég er viss um að flestir bændur eru umhverfissinnar og legg ég til að þeir hefji skurðaðgerðir í stórum mæli. Þannig lækni þeir þetta þjóðarmein með því að moka ofan í skurðina og loka sárinu sem þeir bjuggu til. Ég bendi á að enn í dag eru skurðirnir á Fossi opnir og hafa aldrei nýst til beitar eða sláttu.