Misráðin stefnubreyting

Þorsteinn Pálsson

Íslenskt atvinnulíf þarf að hlaupa hraðar og skapa miklu meiri verðmæti. Þetta var kjarninn í máli þeirra sem ræddu efnahagsvandann og skuldir ríkissjóðs á eldhússdeginum fyrr í vikunni.

Ríkisstjórnin segir að við séum vel í stakk búin. Hún styður það með tvennu: Annars vegar góðum hagvexti árin fyrir kreppuna. Hins vegar lágu skuldahlutfalli ríkissjóðs.

Þetta er rétt svo langt sem það nær. Vandinn er að þetta er ekki heildarmyndin, sem er forsendan fyrir raunsæju mati á stöðunni og lykillinn að réttum ákvörðunum þegar velja þarf leiðir að markinu.

Sannleikurinn um vextina

Sannleikurinn er sá að vextir af lánum ríkissjóðs skipta meira máli en heildarskuldin við mat á því hvort hún er sjálfbær. Nafnvextir þurfa að vera lægri en hagvöxturinn til þess að skuldirnar leiði ekki til skerðingar á velferðarkerfinu eða hækkunar skatta.

Fyrr á þessu ári birtu Samtök atvinnulífsins álit sitt á þessu. Þau sögðu einfaldlega að ekkert benti til þess að þetta yrði raunin. Ríkisstjórnin hefur ekki hrakið þetta mat.

Til skýringar má minna á að eftir hrun skuldaði ríkissjóður Íslands hlutfallslega helmingi minna en ríkissjóður Grikklands. Vaxtagreiðslur íslenska ríkisins voru hins vegar tvöfalt meiri en gríska ríkisins.

Tímabundin vaxtalækkun á húsnæðismarkaði breytti ekki þessari mynd. Og nú fara vextir aftur hækkandi og gengisáhætta ríkissjóðs er veruleg.

Sannleikurinn um hagvöxtinn

Allra síðustu ár bjó skyndivöxtur í ferðaþjónustu til dágóðan hagvöxt. Fyrir veirufaraldurinn var þó kominn kengur í þann uppgang.

Þegar við náum fyrra hagvaxtarstigi erum við ekki að hlaupa hraðar, aðeins jafn hratt og áður. Það er ekki nóg.

Raunsærra mat á styrkleika hagkerfisins er samanburður á hagvexti hér og á öðrum Norðurlöndum yfir lengri tíma.

Frá 1990 höfum við vaxið að meðaltali um 2,6% á ári í íslenskum krónum. Hin löndin hafa hins vegar vaxið um 1,8% á sama mælikvarða. Þessar tölur segja hins vegar ekkert um það hver hljóp hraðast í raun og veru.

Það kemur í ljós þegar við gerum samanburðinn í dollurum. Árið 1989 var landsframleiðsla á hvern mann á Íslandi 17% hærri en á öðrum Norðurlöndum að meðaltali. Í dag er hún 3,5% lægri.

Við sjáum ekki heildarmyndina nema hafa þessar tölur með.

Stefnubreyting

Heildarmyndin sýnir að það er ekki nóg að hlaupa hraðar. Við þurfum að hlaupa hraðar en önnur Norðurlönd til þess að vinna upp þann spöl sem þau hafa dregið á okkur.

Við komumst heldur ekki hjá því að tryggja að ríkissjóður Íslands geti notið sambærilegra vaxtakjara og önnur Norðurlönd og þurfi ekki að taka meiri gengisáhættu en þau.

Hvorugt þetta gerist af sjálfu sér. Aðgerðaleysi er því ekki kostur.

Gengisstöðugleiki á sennilega mestan þátt í því að lyfta Dönum úr neðsta sæti Norðurlanda upp í annað. Til þess að tryggja gengisstöðugleika og auka líkurnar á að ná Dönum aftur var stefnubreyting nauðsynleg.

Frekar höft en frelsi

Ríkisstjórnin kynnti þá grundvallar stefnubreytingu í byrjun árs að gefa Seðlabankanum með nýjum lagaheimildum ótakmarkað vald til þess að beita gjaldeyrishöftum til að varðveita stöðugleika krónunnar.

Stefnubreytingin bíður nú samþykkis á Alþingi. Hún mun vafalaust leiða til stöðugra gengis. Enginn talsmaður ríkisstjórnarflokkanna ræddi hana þó á eldhússdeginum. Kannski er það vegna þess að hér fylgir böggull skammrifi.

Haftaheimildin ein og sér mun fæla erlenda fjárfesta frá þátttöku í nýsköpun og þekkingariðnaði, einmitt þegar við þurfum mest á þeim að halda. Beiting heimildanna mun svo þrengja samkeppnishæfni Íslands.

Við hlaupum ekki hraðar með höftum. Og það eru bara tvær leiðir færar.

Hinn kosturinn er að halda viðskiptafrelsinu með því að gera stöðugleikasamkomulag innan EES-samningsins til að verja krónuna líkt og Danir hafa gert.

Ríkisstjórnin vill hins vegar heldur höft en frelsi á þeim grundvelli. Hún hefur því ekki enn sýnt fram á hvernig atvinnulífið á að hlaupa hraðar undir hennar forystu næsta áratug.

Stefnubreyting var nauðsynleg, en valið á leið var misráðið.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. júní 2021