02 júl Er óhagkvæmt að menga?
Mengun er mesta umhverfisvandamál heimsins í dag, vandamál sem veldur sjúkdómum og ótímabærum dauðsföllum. Samkvæmt samantektargrein The Lancet Commission létust níu milljónir manna árið 2015 vegna sjúkdóma af völdum mengunar. Það gera um 16% allra dauðsfalla á heimsvísu á því ári.
Aukning gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti leiðir ekki aðeins af sér fleiri dauðsföll heldur einnig tíðari náttúruhamfarir á borð við flóð, þurrka og hitabylgjur ásamt umtalsverðu tapi á líffræðilegum fjölbreytileika. Öllu þessu fylgir efnahagslegt tjón sem ekki er skynsamlegt að virða að vettugi.
Við þurfum að taka höndum saman strax og tryggja að kerfi mannsins leiði ekki til áþekkrar stöðu um ókominn tíma. Við þurfum kraftmiklar aðgerðir.
Fjárhagslegir hvatar eru ein leið að því markmiði að draga verulega úr mengun. Til þess að skapa slíka hvata er stuðst við svokallaða mengunarbótareglu. Reglan felur í sér þá sanngjörnu kröfu að sá sem mengar bæti það umhverfistjón og mun bera þann kostnað sem af menguninni hlýst.
Á meðan mengunarbótareglan er hins vegar ekki virt þá er óvíst að það skapist nægur hvati, annar en sá siðferðislegi, til þess að draga úr losun mengunar.
Forsenda fyrir því að geta framfylgt mengunarbótareglunni eru skýrar upplýsingar um það magn mengunar sem fylgir því sem við notum og framleiðum. Þá þurfum við einnig að verðleggja mengunina rétt en í fullkomnum heimi myndi verðið endurspegla þann skaða sem mengunin veldur.
Það er ærið verkefni að tryggja réttar upplýsingar þannig að auðvelt sé fyrir okkur að framfylgja mengunarbótareglunni. Ef tekið er mið af verðþróun á losunarheimildum og hún borin saman við tæknilausnir sem draga úr losun, er margt sem bendir til þess að það sé hagkvæmara að draga úr losun fremur en að halda ótrauð áfram.
Markaðsvirði eins tonns af koltvísýringi innan viðskiptakerfis Evrópusambandsins með losunarheimildir (EU ETS) er í kringum 50 evrur. Það verð endurspeglar hins vegar fremur skort á losunarheimildum en skaðann af losun gróðurhúsalofttegunda. Afar mikilvægt er að hafa viðmið um verð á mengun þegar kemur að því að bera saman kostnað og ábata aðgerða í þágu loftslagsins.
Nýsköpun í orku- og loftslagstengdum greinum á síðustu árum gefur okkur vísbendingu um að ef til vill sé hagkvæmara að binda losun fremur en að kaupa losunarheimildir. Til að mynda kostar um 21 – 27 evrur að dæla niður einu tonni af koltvísýringi með CarbFix-tækninni þar sem hún er starfrækt núna.
Þessa vegferð þarf að greiða, bæði með því að skjóta styrkum stoðum undir nýsköpun en einnig að setja kraft í greiningar á því vistspori sem fylgir vörum og þjónustu.
Með þeim upplýsingum getum við tekið heildstæðari ákvarðanir um kostnað og ábata, sem tekur mið af þeim samfélagslega kostnaði sem hlýst af mengun ásamt þeim ábata sem yrði af samdrætti í losun.
Telja má líklegra en hitt að það komi í ljós þegar við höfum nægar upplýsingar í höndunum að það sé hagkvæmara fyrir samfélagið í heild að vera umhverfisvænt.
Höfundur er umhverfis- og auðlindafræðingur, ritari stjórnar Ungra umhverfissinna og skipar 6. sæti á lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi í komandi þingkosningum.