28 ágú Gefum framtíðinni tækifæri
Landsþing Viðreisnar var haldið í rafrænt í dag þar sem málefnavinna og breytingar á samþykktum fór fram.
Í stjórnmálaályktun flokksins er lögð áherslu á að bæta þurfi lífskjör landsmanna og rekstrarumhverfi fyrirtækja og leggur Viðreisn til að binda gengi krónunnar við Evru til að lækka vexti landsmanna. Markviss efnahagsstjórn og aukið viðskiptafrelsi er í þágu allra. Stöðugur gjaldmiðill og virk þátttaka í alþjóðlegu viðskiptalífi eru grunnforsendur fyrir sterkari stöðu heimilanna, efnahagslegum framförum, aukinni framleiðni í atvinnulífinu og varanlegri aukningu kaupmáttar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar sagði í ræðu sinni “Fáum við umboð til þess, verður okkar fyrsta verkefni að semja um gagnkvæmar gengisvarnir og tengja krónuna við Evru. Við eigum ekki að sætta okkur við meiri verðbólgu, miklu hærri vexti á húsnæðislánum eða dýrari matarkörfu en þekkist í nágrannalöndum.”
Viðreisn vill sanngjarnar leikreglur í sjávarútvegi með því að hluti kvótans verði boðinn upp á markaði á hverju ári. Í fyllingu tímans verði þannig allar veiðiheimildir bundnar slíkum samningum og útgerðin greiðir fyrir afnot af fiskimiðunum í samræmi við markaðsverðmæti aflaheimilda.
Viðreisn leggur áherslu á að heilbrigðisþjónusta á að standa öllum til boða óháð efnahag og þjónusta við fólk á að vera leiðarstefið, fremur en rekstrarform þeirra sem þjónustuna veita. Blönduð leið er best og þess vegna hafnar Viðreisn aðför núverandi ríkisstjórnar að sjálfstætt starfandi stofum og sérfræðingum. Afleiðingarnar eru óboðlegir biðlistar og aukinn kostnaður, ekki síst fyrir íbúa landsbyggðanna.
Almannahagsmunir krefjast þess að næstu ríkisstjórnir setji baráttuna við loftslagsvána í forgang. Viðreisn vill hvetjandi grænt kerfi þannig að það borgi sig að vera umhverfisvæn og að þau borgi sem menga. Sjálfbær og ábyrg umgengni við náttúruauðlindir, þar sem náttúruvernd helst í hendur við skynsamlega nýtingu er lykillinn að grænni framtíð.
Hanna Katrín Friðriksson þingmaður kynnti í dag Græna þráð Viðreisnar „ Græni þráður Viðreisnar snýst ákveðna hugmyndafræði sem liggur til grundvallar nálgun Viðreisnar í umhverfis- og loftslagsmálum. Hugmyndafræði sem felur í sér að loftslagsmál og náttúruvernd er áberandi í öllum okkar helstu stefnumálum. Græni þráðurinn er staðfesting á þeim skilningi Viðreisnar að öll mál eru umhverfismál.“
Varaformaður Viðreisnar, Daði Már Kristófersson lokaði þinginu og ræddi um hvað þessar kosningar snúast um. Þær snúast um „Hvort áfram verði samstaða um stöðnun eða hvort frjálslynd viðhorf verði ráðandi. Hvort okkar bíði fjögur ár af glötuðum tækifærum, litlum hagvexti og niðurskurði í opinberri þjónustu eða fjögur ár af umbótum, uppgangi og sköpun nýrra tækifæra. Á okkur liggur sú ábyrgð að tryggja hið síðarnefnda. Að sannfæra kjósendur um mikilvægi og skynsemi stefnu Viðreisnar. Þetta verkefni verður okkar líf fram að kosningum.“