Öflugri og sjálfbærari landbúnaður

Viðreisn leggur áherslu á að endurskoða styrkjakerfi landbúnaðarins til að efla greinina og gera hana sjálfbærari. Mikilvægt er að ýta undir aukna fjölbreytni og nýsköpun með stuðningi við verkefni á borð við skógrækt, lífrænan landbúnað, landgræðslu, vöruþróun, endurheimt votlendis, smávirkjanir og ferðaþjónustu.

Lestu atvinnustefnu Viðreisnar hér

 

Skógrækt til að binda kolefni

Draga þarf almennt úr losun frá landi og stórauka bindingu í jarðvegi og gróðri. Takmarka þarf rask á vistkerfum vegna ágengra tegunda og samhliða vernda og efla líffræðilega fjölbreytni með stóraukinni endurheimt raskaðra vistkerfa. Ásamt því að auka rannsóknir á áhrifum landgræðslu og skógræktar á líffræðilega fjölbreytni. Sérstök áhersla ætti að vera á að stöðva losun frá framræstu votlendi og hnignuðu mólendi og að auka útbreiðslu náttúruskóga (s.s. birkiskóga og víðikjarrs). Auk þess nytjaskóga í samræmi við almannahagsmuni. Markmið verði sett um að endurheimta yfir helming þess framræsta votlendis, sem ekki er í notkun, fyrir 2030 og að endurheimt verði hafin á að lágmarki 4000 km2 raskaðra þurrlendisvistkerfa, til viðbótar við það sem þegar hefur verið framkvæmt.

 

Endurskoða þarf styrkjakerfi landbúnaðar og auðvelda bændum framleiðslu heilnæmra og fjölbreyttra landbúnaðarafurða, í sátt við umhverfið. Að endurskoðuninni þurfa allir að koma sem á einhvern hátt tengjast landbúnaði og annarri landnýtingu. Beit á mjög viðkvæmum gróðursvæðum verði stöðvuð sem fyrst og skynsamleg takmörk sett á lausagöngu búfjár. Styrkjakerfi landbúnaðar verði umhverfismiðað fremur en framleiðslutengt, t.d. þannig að bændur geti gerst vistbændur og hafi ávinning af því. Því ætti sérstaklega að styðja við rekstur sem stuðlar að bindingu kolefnis og dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landi, t.d. með skógrækt, endurheimt votlendis og hnignaðs mólendis. Kerfið styðji fjölbreytta og umhverfisvæna framleiðslu með áherslu á aukið frelsi, taki tillit til breyttra neysluvenja, stuðli að bættum hag bænda og neytanda og ýti undir nýliðun í röðum bænda.

Lestu umhverfis- og auðlindastefnu Viðreisnar hér