Samkeppni, sjálfbærni, jafnrétti og nýsköpun eru leiðarstef sem eiga að ríkja í öllum atvinnurekstri. Viðreisn treystir frjálsum markaði almennt til að skila bestum ábata fyrir fólkið í landinu. Stjórnvöld skulu búa fyrirtækjum hagstæð rekstrarskilyrði og draga úr efnahagssveiflum. Í því ljósi þarf að einfalda regluverk og minnka flækjustig í leyfisveitingum á vegum hins opinbera. Tryggja þarf góðar samgöngur, öfluga nettengingu og öruggt rafmagn um allt land. Það er forsenda fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar og fjölgunar tækifæra á Íslandi. Samkeppnishæfur gjaldmiðill er forsenda samkeppnishæfs atvinnulífs.

 

Fjölbreytt atvinnutækifæri um allt land

Blómleg og öflug byggð landið um kring er forsenda velsældar í íslensku samfélagi. Nýsköpun í þágu sjálfbærni, fæðuöryggis og umhverfisverndar mun stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum. Stjórnvöld verða að tryggja jöfn skilyrði um allt land til vaxtamöguleika til atvinnusköpunar. Rafræn stjórnsýsla bætir aðgengi að þjónustu og skapar tækifæri til hagræðingar og framleiðniaukningar í opinberum rekstri. Stuðla ætti að auknum sveigjanleika á vinnumarkaði með því að byggja frekar undir möguleika á fjarvinnu.
 
Bæta þarf samgöngur til að stækka atvinnusvæði og draga þannig úr áhrifum breyttra atvinnuhátta. Fiskeldi er gífurleg lyftistöng og mikilvægt að byggja það áfram upp sem sterka atvinnugrein á þeim svæðum sem nú þegar hafa fengið tilskilin leyfi. Huga verður að umhverfisáhrifum, læra af reynslu annarra þjóða og móta skýrt og sterkt regluverk í kringum starfsemina.
 
Uppbygging ferðaþjónustunnar að nýju verður að byggja á faglegum grunni og skýrri framtíðarsýn til að tryggja sjálfbærni greinarinnar til lengri tíma. Fjárfesta þarf í innviðum á ferðamannastöðum um allt land til verndar umhverfi og náttúru og tryggja jafnari dreifingu ferðamanna um landið. Á svæðum sem heyra undir hið opinbera verði innheimta gjalda samræmd. Ríkisstjórnin skal setja heildstæða ferðaþjónustustefnu til 5 ára í senn.

 

Viðreisn vill að litið sé til nýrra og nútímalegra lausna við að skapa ný störf og tækifæri. Uppbygging fjarvinnukjarna víða um land leikur þar lykilhlutverk. Hið opinbera á að styðja við þá um allt land og tryggja að þeir skili störfum til byggðanna en verði ekki til þess að þau glatist. Samstarf ríkis og sveitarfélaga ásamt öflugri grunnþjónusta í heimabyggð skipta þar höfuðmáli. Síðast en ekki síst þarf að huga sérstaklega að stuðningi við menningartengda starfsemi um allt land.

 

Fjölgum kjölfestugreinum útflutningstekna

Uppbygging alþjóðlegs þekkingariðnaðar og atvinnulífs er leiðin að aukinni hagsæld. Móta þarf atvinnu- og iðnaðarstefnu til lengri tíma þar sem skýrt kemur fram í hvaða atvinnu og grænum iðnaði sækja skal fram og hvernig verður stutt við þá sókn af hinu opinbera. Við getum ekki verið með öll eggin áfram í sömu körfu. Þær kjölfestugreinar sem við höfum treyst hvað mest á eiga það allar sammerkt að vera háðar ytri áhrifum og því áhætta fólgin í því að leggja allt okkar traust á þær. Þekking og hugvit eru vannýttar auðlindir sem þarf að virkja betur til framtíðar. Nýsköpun á ekki, og má ekki, eingöngu vera kreppuviðbragð sem er vanrækt þegar uppsveifla hefst á ný. Uppbygging þekkingar- og hugvitsgreina þarf að vera stöðugt viðfangsefni með það fyrir augum að búa til umhverfi þar sem þær geta blómstrað til frambúðar.

 

Öflugri og sjálfbærari landbúnaður

Viðreisn leggur áherslu á að endurskoða styrkjakerfi landbúnaðarins til að að efla greinina og gera hana sjálfbærari. Mikilvægt er að ýta undir aukna fjölbreytni og nýsköpun með stuðningi við verkefni á borð við skógrækt, lífrænan landbúnað, landgræðslu, vöruþróun, endurheimt votlendis, smávirkjanir og ferðaþjónustu. Þriggja fasa línur auka orkugæði og skapa möguleika á smávirkjunum sem væri nýr atvinnumöguleiki í sveitum. Við viljum tryggja aukið frelsi, bæði fyrir neytendur og bændur. Og að bændur fái sjálfir ráðið hvernig þeir rækta sína jörð, í sátt við fólk og náttúru. Styrkjakerfi landbúnaðar verði umhverfismiðað fremur en framleiðslutengd, t.d. þannig að bændur geti gerst vistbændur og hafi ávinning af því. Þess verði gætt að markmið byggðastefnu séu skýr og þau þjóni almannahagsmunum. Opinber fjárframlög eiga að stuðla sem best að settum markmiðum. Bændur eiga að fá frelsi til  að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir og stuðla að innri samkeppni í greininni. Einfalda þarf löggjöf og eftirlit með matvælum í því skyni að styðja við frumkvöðlastarf og nýsköpun í landbúnaði. Líta skal til nágrannalandanna í þessu tilliti.
 

Nýsköpun er forsenda framfara

Viðreisn vill koma á mælaborði nýsköpunar sem mælir árangur af nýsköpunarstarfi. Ekki einungis endurgreiðslu vegna rannsókna og þróunar heldur einnig afrakstur starfsemi nýsköpunarfyrirtækja á borð við fjölda starfa, fjárfestingar (erlendar og innlendar), veltu og tekjur. Við veitingu styrkja skal gæta jafnræðis og stuðla að samkeppni. Styðja á við sprotastarfsemi frá hugmynd til markaðsvöru, með áherslu á sjálfbærni. Samkeppnishæfur gjaldmiðill er forsenda samkeppnishæfs atvinnulífs, byggða, verðmætasköpunar, kaupmáttar og lífskjara. Sprotafyrirtæki treysta á fjármagn frá erlendum fjárfestum sem vilja ekki fjárfesta í krónuhagkerfi. Mikilvægt er að nýta krafta nýsköpunar til þess að finna lausnir til að draga úr loftslagsvanda og öðrum umhverfisvanda. Nota skal hagræna hvata til að umbuna þeim fyrirtækjum sem eru græn í sínum rekstri.
 

Sátt um sjávarútveginn

Viðreisn vill tryggja sátt um sjávarútveginn til framtíðar. Við viljum að sanngjarnt verð sé greitt fyrir aðgang að auðlindunum okkar og að samningar um auðlindanýtingu séu tímabundnir. Í stað veiðileyfagjalds verði ákveðinn hluti kvótans settur á markað á hverju ári og seldur sem nýtingarsamningar til ákveðins tíma. Með samningum til 20-30 ára sé pólitískri óvissu eytt og eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni staðfest. Með þessu fyrirkomulagi fæst sanngjarnt markaðsverð sem ræðst hverju sinni af framboði og eftirspurn innan greinarinnar, og umgjörð sjávarútvegs verður skýr, gagnsæ og stöðug til frambúðar. Það er vont fyrir útgerðina að búa við stöðuga pólitíska óvissu. Grundvallarhlutverk fiskveiðistjórnunarkerfis er að koma í veg fyrir ofveiði og tryggja þannig að nýting auðlindarinnar sé sjálfbær. Því hlutverki sinnir kvótakerfið vel. Innheimta veiðigjalda er hins vegar of flókin og ógagnsæ. Viðreisn leggur áherslu á dreifða eignaraðild í sjávarútvegi og auka gagnsæi með kröfum um skráningu á skipulögðum hlutabréfamarkaði fyrir fyrirtæki af ákveðinni stærð. Tryggja að vilji löggjafans um hámarkskvótaeign ráðandi aðila í sjávarútvegi sé virkur.

Lestu atvinnustefnu Viðreisnar hér

 

Aukið viðskiptafrelsi, markviss efnahagsstjórn, einfaldara reglugerða- og skattaumhverfi, öflug samkeppni, stöðugur gjaldmiðill og virk þátttaka í alþjóðlegu viðskiptalífi eru grunnforsendur fyrir efnahagslegum framförum, aukinni framleiðni og varanlegri aukningu kaupmáttar. Þannig má koma framleiðni á Íslandi í fremstu röð. Markaðslausnir verði nýttar þar sem þeim verður við komið.
 

Virk þátttaka í alþjóðlegu samstarfi, m.a. með uppbyggingu alþjóðlegra atvinnugreina

Lykill að bættum lífskjörum á Íslandi er aukin alþjóðleg samvinna, aukið frelsi í viðskiptum og stöðugt efnahagslíf. Framtíðarvöxtur atvinnulífs þarf að verða í vel launuðum alþjóðlegum þekkingar- og tæknigreinum til að unnt sé að auka framleiðni, verðmætasköpun, kaupmátt og bæta lífskjör.
 
Viðskipta- og atvinnufrelsi þarf að ríkja á öllum mörkuðum fyrir vöru og þjónustu. Búa þarf atvinnurekstri stöðugt viðskiptaumhverfi, með stöðugan gjaldmiðil, til að tryggja samkeppnishæfni, verðmætasköpun og hagvöxt. Með því móti verður til nýsköpun og þróttmikið atvinnulíf sem skapar ný og fjölbreytt störf.  Einhæfni í atvinnulífi skapar hættu á sveiflum og gerir hagkerfið viðkvæmara fyrir áföllum. Margs konar tækifæri eru til nýsköpunar á Íslandi. Stuðla þarf að því að þau verði gripin. Stöðugleiki skiptir þar mestu máli, en einnig stuðningur við nýsköpun með styrkjum og hvötum til fjárfestinga í nýsköpun.
 

Aðild að ESB og evru, til að auka verðmætasköpun, kaupmátt og bæta lífskjör

Margháttaður ávinningur er nú þegar af samstarfi við Evrópuþjóðir með EES samningnum. Allt bendir til þess að stórauka mætti þann ábata með því að ganga að fullu inn í Evrópusambandið. Með því væri tryggður ytri stöðugleiki, lægri vextir, bætt markaðsaðgengi og aukið frelsi í viðskiptum, þjóðinni til hagsbóta. Aðild að ESB og upptaka evru skapar nýja möguleika í nýsköpun atvinnulífsins og veitir möguleika að betri aðgengi að styrkjum úr byggða- og landbúnaðarsjóðum ESB, sem munu efla byggðir og landbúnað. Aðild að ESB mun auka samkeppnishæfni fjármálafyrirtækja og atvinnulífs, efla  útflutning, hagvöxt og framleiðni og lækka matvælaverð vegna lækkunar tolla. Öll þessi breyting mun skapa forsendur  fyrir auknum kaupmætti launafólks og bættum lífskjörum til lengri tíma.
 

Markaðslausnir sem treysta hagsmuni almennings

Lög og reglur skulu stuðla að samkeppni, aukinni nýsköpun og öflugu atvinnulífi. Hið opinbera dragi sig út úr samkeppnisrekstri og gefi einkaaðilum kost á að starfa samhliða hinu opinbera, til að ná fram hagræðingu til að tryggja góða og aðgengilega þjónustu fyrir almenning með sem lægstum tilkostnaði.
  
Markaðir er það fyrirkomulag sem við notum við að tryggja hagkvæma framleiðslu stærsta hluta þess sem framleitt er, öllum til hagsbóta. Þung rök þurfa að vera til staðar ef víkja á frá þessari meginreglu. Viðreisn berst gegn kreddum og hagsmunagæslu sem vill draga úr hlutverki markaðslausna. Einfalda skal rekstrarumhverfi fyrirtækja og auka samkeppni og fjölbreytni eins og kostur er. Miklu hagræði má ná í opinberri þjónustu með auknum útboðum verkefna, einkarekstri og markaðslausnum, þó að opinberir aðilar kosti þjónustuna.
 

Hagstjórn og fjármálastjórn sem treystir stöðugleika og kjör almennings

Efnahagslegur stöðugleiki er forgangsmál. Megináhersla þarf að vera á stöðug ytri skilyrði og ábyrgan rekstur hins opinbera. Með stöðugleika skapast tækifæri fyrir langtíma uppbyggingu hagsældar og fjölbreytts atvinnulífs sem býður sem flestum tækifæri þar sem hæfileikar þeirra nýtast.
 
Tekjuöflun ríkissjóðs á að byggja á réttlátri og hóflegri skattlagningu þar sem allir bera réttlátar byrðar. Unnið skal markvisst gegn skattaundanskotum, bæði innanlands og gegn notkun á erlendum skattaskjólum. Efla þarf skattrannsóknir og styðja alþjóðlegt samstarf til að tryggja að einstaklingar og fyrirtæki greiði sanngjarna skatta þar sem tekjur verða til.
 

Hagvaxtar- og atvinnustefna sem eflir samkeppnishæfni atvinnulífs, byggða og lífskjara

Viðreisn vill að skapaður verði grundvöllur fyrir uppbyggingu samkeppnishæfs atvinnulífs sem skapar samfélaginu ábata til lengri tíma og býr til tækifæri fyrir sem flest okkar til að lifa og starfa við sem best skilyrði í öllum landsbyggðum. Leggja skal áherslu á vöxt atvinnulífs og svæða, m.a. með uppbyggingu klasa, aðstöðu fyrir háskóla og rannsóknarstarf og samstarf við atvinnulíf, þar sem lögð er áhersla á sérstöðu og styrkleika hvers svæðis fyrir sig.

Lestu efnahagsstefnu Viðreisnar hér

 

Atvinnulíf, menntun og raunfærnimat

Viðreisn leggur jafnt vægi á bók-, verk-, iðn- og listnám á öllum skólastigum með fjölbreyttu rekstrarformi og sveigjanlegu þrepaskiptu námi sem leiðir til viðurkenningar á vinnumarkaði þar sem þörfum einstaklinga er mætt.
 
Menntastefna allra skólastiga þarf að endurspegla mikilvægi stafrænnar færni og þekkingu til að búa og starfa í nútímasamfélagi. Aðgengi að stafrænni tækni er brýnt jafnréttismál og grunnur þess að öll hafi jafnt aðgengi að þjónustu. Stafræn færni í sí- og endurmenntun er lykill umbreytingar starfa með fjórðu iðnbyltingunni.
 
Viðreisn leggur áherslu á að efla raunfærnimat á framhalds- og háskólastigi, á móti viðmiðum atvinnulífsins. Skilgreina þarf námslok innan framhaldsfræðslunnar líkt og á öðrum skólastigum og efla enn frekar framhaldsfræðslu til að koma til móts við einstaklinga sem hafa ekki lokið formlegu námi.

Lestu mennta-, menningar-, félags-, og tómstundastefnu Viðreisnar hér

 

Efnahagslegt jafnvægi

Viðreisn vill frjálsan og opinn markað sem veitir fólki og fyrirtækjum raunveruleg tækifæri og býr til jarðveg nýrra hugmynda og nýsköpunar.
 
Viðreisn hafnar einokun og fákeppni sem takmarkar frelsi og stríðir gegn jafnrétti.
 
Sköpun verðmæta með hugviti og skynsamlegri nýtingu auðlinda til framtíðar eru nauðsynleg forsenda efnahagslegs stöðugleika, samkeppnishæfni og lífskjara sem skulu vera að minnsta kosti jafngóð og í nágrannalöndum Íslands. Efnahagslegu jafnvægi verður aðeins náð með stöðugum gjaldmiðli.
 
Frjáls samkeppni stuðlar að aukinni hagsæld almennings með nýsköpun, auknu framboði og lægra vöruverði. Samkeppnishindrunum verði rutt úr vegi í innlendum sem alþjóðlegum samkeppnisgreinum.
 
Frjáls markaður og gott viðskiptasiðferði veita aðhald og stuðla að efnahagslegum framförum. Skýr löggjöf móti umgjörð um efnahagslífið með stöðugleika og þjóðhagsleg varúðarsjónarmið að leiðarljósi.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar hér