07 sep Göngugata verður til
Síðan í vor er Laugavegurinn formlega orðinn að göngugötu alla leið upp að Frakkastíg. Stefnan er að lengja göngugötuna enn frekar á næstu misserum. Þó búið sé að setja upp göngugötuskilti er verkefninu auðvitað ekki lokið. Það eru miklar breytingar fram undan!
Það var strax farið í glæða götuna lífi. Á Laugaveginum má finna hlaupabraut og landsins lengsta París. Nú er hins vegar komið að varanlegri umbreytingu Laugavegs í göngusvæði, malbikið verður látið víkja fyrir samfelldu yfirborði og hugað að aðgengi allra notendahópa.
Þrjú teymi voru valin til að hanna útfærslu á Laugavegi milli Bankastrætis og Klapparstígs. Niðurstaða þeirrar forhönnunar liggur fyrir. Sjón er sögu ríkari og ég hvet fólk til að skoða hugmyndirnar á vef Reykjavíkurborgar.Meðal annars má finna tillögur að litríkum borgargarði upp eftir Skólavörðustíg þar sem árstíðirnar fjórar verða í aðalhlutverkum.
Með mögulegri stöllun götunnar í Bankastræti og á Skólavörðustíg skapast enn meiri tækifæri til að nýta svæðið betur til veitingareksturs á sólríkum dögum. Mikil áhersla er lögð á frumlega lýsingu enda þarf göngugatan að vera aðlaðandi jafnt á aðventu sem í sumarsól.
Frá því að tillögurnar hafa verið kynntar hafa eðlilega vaknað upp spurningar varðandi hvað verður um regnbogann á Skólavörðustíg sem svo ótal mörgum er kær. Við heyrum þær sterku raddir. Ég er sannfærður að við munum finna góðar lausnir á því máli í góðu samtali við samfélag hinsegin fólks.
Fram undan er endanleg hönnun og geta framkvæmdir á hluta svæðisins vonandi hafist á næsta ári. Það er gleðilegt að sjá Laugaveg verða að varanlegri göngugötu – allt árið um kring. Ég spái því að fáir muni vilja snúa til baka þegar þessari umbreytingu er lokið.