07 sep Hver er rétti afrakstur sjávarauðlindarinnar?
Eftir að hafa verið í forystu í kjarabaráttu vélstjóra á fiskiskipum í tíu ár, þá er tvennt sem stendur upp úr, það er hvort okkur er sýnt rétt afurðarverð sem sjávarauðlindin gefur af sér og hvort afraksturinn skili sér allur til landsins.
Laun sjómanna byggjast á fiskverði sem ákveðið er af úrskurðarnefnd þegar útgerð kaupir fisk af eigin skipum. Til að ákveða það er miðað við hlutfall af afurðaverði sem fæst fyrir útfluttar sjávarafurðir. Í uppsjávarveiðum er fiskverð einhliða ákvörðun útgerðarinnar. Eitt af mörgum ágreiningsmálum sjómanna við útgerðina í áratugi hefur verið að fá afgerandi fullvissu um að það afurðaverð sem gefið er upp sé rétt.
Það er ekki bara hagsmunamál sjómanna að vita hvort afurðaverð sé rétt heldur allrar þjóðarinnar. Hvað sjávarauðlindin gefur af sér er ekki einkamál þeirra sem fengið hafa þau forréttindi að hafa aflaheimildir til að nýta í takmarkaðri auðlind.
Það verður að taka af allan vafa um hvort rétt afurðaverð sé að skila sér til landsins. Að hafa allt á einni hendi, veiðar, vinnslu og sölu á erlenda markaði er vandmeðfarið og kallar á gagnsæi.
Réttlát skipting hagnaðarins
Þó að margoft hafi komið fram ásakanir um tvöfalda verðlagningu á útfluttum sjávarafurðum hafa þeir stjórnmálaflokkar sem stýrt hafa landinu ekki viljað koma á eftirliti með því hvort afurðaverð sé rétt enda væru þeir þá að styggja sérhagsmunahópinn í sjávarútvegi.
Í komandi kosningum er tækifæri til að taka á þessu máli með því að kjósa Viðreisn.
Þetta er eitt af stóru málunum sem þarf að koma í ásættanlegan farveg ef ná á sátt um nýtingu sjávarauðlindarinnar og um leið að koma á eðlilegri skiptingu hagnaðarins á milli eigandans og þeirra sem hafa nýtingarréttinn. Koma verður inn í stjórnarskrána ákvæði um óskoraðan eignarrétt þjóðarinnar á auðlindum sínum og afnotin séu í tímabundnum samningum.
Eigandinn ákveði leikreglurnar
Eigandinn hefur fullan rétt á að hafa yfirsýn yfir hvað sjávarauðlindin er í raun að gefa af sér. Verktakinn á ekki að koma með þær upplýsingar inn í þjóðarbúskapinn. Það eru fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi sem eiga að setja leikreglurnar en ekki verktakarnir.
Það er mikilvægur hluti af sáttinni að sett verði upp eftirlit með því að það afurðaverð sem skilar sér til Íslands sé rétt. Sjómenn geta þá líka verið öruggir um að laun þeirra séu reiknuð út frá réttu afurðaverði. Sveitarfélögin og landsbyggðin munu einnig njóta góðs af þessu.
Verðlagsstofa skiptaverðs á að taka þetta verkefni að sér og það á að efla hana eins og þarf. Stofnun sem hagsmunagæsluflokkarnir hafa passað mjög vel upp á að halda í fjársvelti til að hún geti ekki starfað eðlilega.
Verðum að ná sátt um sjávarauðlindina
Þau fyrirtæki sem nýta sjávarauðlindina og eru vel rekin eiga að fá að halda eftir eðlilegum hagnaði til að halda áfram að byggja sig upp.
Það mun enginn rústa atvinnugreininni eins og fulltrúar útgerðanna halda fram í hvert sinn sem einhverju á að breyta. Enginn mun eyðileggja vel rekin og framsækin fyrirtæki sem sum hver eru í fremstu röð í heiminum.
Fyrirkomulagið eins og það er í dag er hinsvegar algjörlega óásættanlegt.
Sjávarútvegsfyrirtækin verða að átta sig á stöðunni, að það þjónar best hagsmunum þeirra að koma að borðinu og búa til sátt um atvinnugreinina, það mun verða fyrirtækjunum og atvinnugreininni til heilla. Með hroka sínum og áhrifum inn í stjórnmálaflokka eru sjávarútvegsfyrirtækin búin að koma þessum málum í algert óefni og ef svo heldur fram sem horfir skapast engin sátt. Við verðum að losa okkur við þá miklu spennu sem er í samfélaginu um atvinnugreinina.
Veitið okkur sem viljum tryggja eignarrétt þjóðarinnar og réttlátan arð þjóðarinnar af sjávarauðlindinni brautargengi í komandi þingkosningum. Ekki viljum við hafa við völd stjórnmálaflokka sem hugsa meira um hagsmuni sérhagsmunahópa en hagmuni þjóðarinnar.
Búum til sátt um nýtingu sjávarauðlindirnar og kjósum Viðreisn.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. september 2021