08 okt Ný verkefni á gömlum grunni
Verkefnin sem bíða að loknum kosningum eru mörg og mismunandi. Nær öll voru þó fyrirsjáanleg. Eitt var það alls ekki. Fordæmalaus staða kom upp þegar landskjörstjórn gaf út kjörbréf 63 þingmanna eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að óvíst væri að meðferð kjörgagna og endurtalning atkvæða í Norðvesturkjördæmi hefði verið samkvæmt lögum.
Þingmanna bíður nú það vandasama verkefni að taka afstöðu til þess hverjir úr þeirra röðum séu réttkjörnir. Sú staða hlýtur að leiða til þess að löngu tímabærar breytingar verði gerðar á því fyrirkomulagi að þingmenn sitji þar beggja vegna borðs.
Fram hefur komið að þingmannanefndin sem nú er með málið þurfi einhverjar vikur í að meta lagarök málsaðila; þeirra sem bera ábyrgð á framkvæmd kosninganna og þeirra sem hafa kært endurtalningu atkvæða.
Það er grundvallaratriði að ekki leiki vafi á því hverjir eru réttkjörnir fulltrúar þjóðarinnar. Kerfið okkar þarf að virka og það þarf að birtast fólki þannig að það skapi traust. Verði niðurstaðan sú að verulegir annmarkar hafi verið á framkvæmd kosninganna er það einfaldlega forsenda ógildingar.
Viðreisn efnahagsins
Á meðan þingmenn reyna að finna út úr því hverjir þeirra eru réttkjörnir gengur lífið sinn vanagang. Þar með talið efnahagslífið. Þótt vonir standi til að bein áhrif af Covid-faraldrinum fari þverrandi sýna kannanir vaxandi svartsýni um þróun efnahagsmála. Almennt er nú talið að neikvæð langtímaáhrif faraldursins verði meiri en útlit var fyrir fyrr á þessu ári þegar gríðarlegt framlag stjórnvalda á heimsvísu til efnahagsaðgerða og tilkoma bóluefna keyrði upp hraðari hagvöxt en vænta mátti. Þegar hægir á hagvextinum en verðlag heldur áfram að rísa sjáum við fram á ástand sem skerðir verðmætasköpun og lífsgæði.
„The economy, stupid“ er ódauðlegt slagorð úr smiðju kosningastjórnar Bills Clintons frá 1992. Þessi skilaboð eiga við nú sem aldrei fyrr þegar formenn stjórnmálaflokkanna vinna í að koma saman ríkisstjórn sem er best til þess fallin að stýra landi og þjóð út úr Covid-brimsköflunum. Hvernig við reisum efnahaginn við í kjölfar heimsfaraldursins hlýtur að vera fyrsta forgangsmálið í viðræðum formannanna, hvar í flokki sem þeir standa. Hvernig við tryggjum samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, hvernig við verjum hag heimila, hvernig við mætum áskorunum í loftslagsmálum.
Við mættum líka líta til annars slagorðs úr sömu kosningabaráttu: „Breytingar eða meira af hinu sama.“ Heimfært á aðstæður okkar er svarið ekki annaðhvort eða, heldur nýjar lausnir sem byggjast á rótgróinni þekkingu. Stöðugleiki í stað stöðnunar.
Þriðja slagorðið var síðan: „Ekki gleyma heilbrigðiskerfinu.“ Getum við ekki öll verið sammála um gildi þess?
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. október 2021