28 okt Enn betri skólar í Reykjavík
Reykjavíkurborg stendur nú í miklu átaki fyrir betri grunnskóla í borginni. Í september samþykkti borgarstjórn nýtt úthlutunarlíkan fyrir grunnskóla Reykjavíkur. Það kallast Edda og mun skapa forsendur fyrir raunhæfari og betri fjármögnun fyrir hvern grunnskóla borgarinnar.
Reykjavíkurborg hefur allt of lengi búið við plástrað líkan, sem ekki mætir þörfum skólanna. Skólarnir eru mismunandi og samsetning nemenda er líka misjöfn. Við því þurfti að bregðast og því var farið í það átak að þróa nýtt úthlutunarlíkan með aðkomu skóla- og fjármálasérfræðinga ásamt fulltrúum frá skólastjórnendum.
Aukið fjármagn í skólana
Þegar úthlutunarlíkanið var klárt var ljóst að rekstur grunnskóla þarf í heild aukið fjármagn. Við því þarf að bregðast í fjárhagsáætlun borgarinnar og í september samþykkti borgarráð að vísa því til fjárhagsáætlunar að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs hækki um rúmlega 1,5 milljarða.
Það þarf bæði að huga að öllu umhverfi skólastarfsins, en verið er að ljúka við heildarúttekt á viðhaldsþörf grunnskóla í borginni. Þegar sú mynd liggur fyrir þarf að forgangsraða framkvæmdum en fyrir liggur að fjárveitingar til endurnýjunar eldra skólahúsnæði verða stórhækkaðar. Í fjárfestingaráætlun þessa árs var gert ráð fyrir 3,085 milljörðum í fjárfestingar vegna skóla, þar af 2,1 milljarði vegna viðhalds á húsnæði. Áætlunin gerir ráð fyrir að þær upphæðir muni hækka, bæði á næsta og þar næsta ári.
Aukið faglegt frelsi
Við viljum treysta skólastjórnendum til að þekkja sitt nærumhverfi og hvernig best sé að skipuleggja starf skólanna miðað við þarfir nemenda. Á því byggist úthlutunarlíkanið, sem mun efla faglegt frelsi og ábyrgð skólastjórnenda. Líkanið mun einnig auka gagnsæi, fyrirsjáanleika og jafnræði á milli skóla og hverfa borgarinnar.
Í úthlutunarlíkaninu er tekið tillit til mismunandi félagslegra og lýðfræðilegra þátta hvers skóla við úthlutun fjármagns. Með því drögum við úr aðstöðumun á milli skóla. Dregið er úr áherslu á formlegar greiningar og lagður til stuðningur við börn eftir þörfum þeirra. Á því munu börnin okkar græða.
Látum skólastjórnendur ráða hvaða fagfólk þarf
Þverfaglegt samstarf innan skóla er stefna Viðreisnar í menntamálum. Við viljum mæta fjölbreyttum þörfum nemenda með teymisstarfi fagfólks á sviðum velferðar, heilbrigðis og skóla eða því sem þurfa þykir.
Grunnskólar Reykjavíkur munu fá aukið rými til að ráða fagfólk, sem ekki er kennarar, til að styðja við skólastarfið. Fagfólkið getur verið sálfræðingar, þroskaþjálfar, félagsráðgjafar, iðjuþjálfar eða aðrir sérfræðingar. Allt eftir áherslum og þörfum hvers skóla. Eftir því sem fleiri börn þurfa stuðning í skólanum, því fleiri fagaðila verður hægt að ráða.
Frelsi fylgir ábyrgð
Líkaninu fylgir líka aukin ábyrgð skólastjórnenda um að starf skólans sé innan fjárheimilda hverju sinni. Til þess munu skólastjórar fá stuðning frá rekstrarstjóra og ef þörf krefur fjármálaráðgjöfum og fjármálastjóra skóla- og frístundasviðs. Fylgst verður með því ef rekstur fer umfram fjárheimildir og skólar krafðir um tímasettar úrbætur.
Þó svo að líkanið hafi verið unnið í góðu samstarfi við skólastjóra í borginni, þá getur ýmislegt komið í ljós þegar það er komið í notkun og vel getur verið að það þurfi að sníða af því vankanta. Þá þurfum við að gæta þess að búa ekki til sama plástraða og flókna kerfi og við erum nú að hverfa frá.
Vinnan við úthlutunarlíkanið var góð. Næsta skref þarf að vera álíka líkan sem unnið er fyrir leikskóla borgarinnar, þar sem horfið verður frá flóknu kerfi og úthlutun úr pottum.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. október 2021