29 nóv Aukahæðin borgar lyftu
Á þeim tíma sem Breiðholtið byggðist upp var í gildi byggingarreglugerð sem gerði kröfu um lyftur í þeim fjölbýlishúsum sem voru fimm hæðir eða fleiri. Niðurstaðan? Flest fjölbýlishús urðu akkúrat fjórar hæðir. Þannig mátti spara byggingarkostnað og ungir íbúar húsanna létu sig hafa stigann.
Nú, áratugum síðar, búa þúsundir Reykvíkinga í lyftulausum fjögurra hæða fjölbýlishúsum. Fólk eldist og stiginn orðinn að hindrun. Margir komast ekki auðveldlega leiðar sinnar og þurfa að flytja af heimilum sínum fyrr en þeir hefðu annars þurft.
Þetta birtist líka í verðmæti íbúðanna. Út frá formúlu fyrir fasteignamat má sjá að reiknað verðmæti íbúðar á 2. hæð eykst um 7% með aðgangi að lyftu. Á 3. hæð er hækkunin orðin 15% og 23% á þeirri fjórðu. Og þótt það sé kannski ekkert sérstakt kappsmál að hækka íbúðaverð þá endurspeglar þessi verðmunur einfaldlega þann mun á gæðum sem kaupendur telja að felist í aðgangi að lyftu.
Með hverfisskipulaginu sem hefur þegar verið samþykkt í Árbæ og er að klárast í Breiðholti eru veittar heimildir til að bæta lyftum við fjölbýlishús og fyrir því að bæta við inndregnum hæðum ofan á blokkirnar sem leið til að borga gerð lyftunnar og mögulega gott betur.
Margt þarf auðvitað að ganga upp til að þetta geti gengið upp. Íbúarnir þurfa að sammælast um slíkar viðbætur og mögulega semja sín á milli um ýmislegt. Augljóst er til dæmis að þótt raskið af framkvæmdunum geti verið svipað fyrir alla er ávinningurinn mjög misjafn eftir því hve hátt fólk býr. Síðan þarf auðvitað að hanna, fjármagna og framkvæma verkið sem getur allt verið flókið. En ef vel gengur munu verða til sérhæfðir aðilar sem öðlast reynslu af svona verkefnum og munu bjóða húsfélögum þjónustu sína.
Bætt aðgengi að fleiri íbúðum er markmið sem Reykjavík vill vinna að. Á endanum verður frumkvæðið og áhuginn auðvitað að koma frá sjálfum íbúunum, án þeirra áhuga gerist ekkert. En borgin mun sjá til þess að þar sem sá áhugi er fyrir hendi muni fólk ekki þurfa að ráðast í dýrar breytingar á deiliskipulagi til að koma fyrir lyftu eða aukahæð til að greiða fyrir hana. Heimildin fyrir hvoru tveggja verður þegar komin í hverfisskipulaginu.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. nóvember 2021