Tölfræðilegur súludans meirihlutans í Hafnarfirði

Síðasta fjárhagsáætlun meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins í bæjar­stjórn Hafnarfjarðar verður af­greidd í desember. Meiri­hlut­inn er ánægður með árangurinn og skreytir sig með einstaka tölum og frös­um. Árangur í rekstri sveitar­félags verður þó að skoða í ljósi samanburðar við ná­­granna­sveitarfélögin og þró­unar á lykiltölum á þessu kjör­tímabili.

Hér að neðan eru tvær töflur sem sýna lykiltölur úr rekstri sveitar­félaganna á Höfuðborgar­svæð­inu, reikn­aðar á hvern íbúa. Sú fyrri sýnir lokaniðurstöðu kjörtímabilsins en sú seinni sýnir stöðuna í upphafi kjör­tímabils.

Fjárhagsáætlun sveitarfélaganna fyrir árið 2022 í þúsundum á hvern íbúa

 

Lykiltölur úr ársreikningi sveitarfélaganna 2018

Hér er margt áhugavert, t.a.m. sú staðreynd að rekstr­artekjur á hvern íbúa Hafnar­fjarðar hafa aukist um 30% á kjörtíma­bilinu sem er tvöfalt meira en í Garðabæ þar sem tekjur jukust um 15%. Á sama tíma fjölgaði Garðbæ­ingum um 15% en íbúum Hafnarfjarðar aðeins um 2%.

Rekstrargjöld á hvern íbúa hækkuðu mest í Hafnarfirði á kjör­tímabilinu eða um 41% þrátt fyrir söl­una á HS Veitum. Á sama tíma jukust þau um 3% á Seltjarnarnesi. Áhugvert í ljósi þess að fjölgun íbúa er áþekk í þessum tveimur sveitarfélögum á tíma­bilinu eða tæplega 2%. Þegar við ber­um okkur saman við Kópavog, sem er kannski það sveitarfélag sem er einna líkast Hafnarfirði í stærð og umfangi, þá hækkaði rekstrarkostnaður þar helmingi minna á hvern íbúa eða um 18%. Þar hækkuðu tekjur um 19% á hvern íbúa á sama tímabili þannig að reksturinn þar er í ágætu jafnvægi.

Lesendur geta leikið sér að því að bera saman þessar tölur. Lái mér hver sem vill að ég sé rekstur Hafnar­fjarðar­bæjar alls ekki í þeim rósrauða bjarma sem meirihlutinn ítrekað teiknar upp. Ljóst er að nýjum meirihluta verður úthlutað strembnu verkefni á næsta kjörtímabili þar sem verkefnin eru nokkuð skýr; að lækka kostnað á hvern íbúa þar sem ekki verður gengið lengra í tekjuöflun á hvern íbúa.

Tölurnar sýna svo að ekki verður um villst að Hafnarfjarðarbær er eftirbátur annarra sveitarfélaga á Höfuðborgar­svæðinu þegar kemur að árangri í rekstri.

Greinin birtist fyrst í Fjarðarfréttum 25. nóvember 2021