11 des Heilræði eldra fólks
Þegar ég stýrði öldrunarþjónustu í Reykjavík voru margir, líkt og nú, sem vildu reglulega gefa mér góð ráð. Sérstaklega þótti mér vænt um fyrstu heilræðin sem eldri íbúi veitti mér af þeirri visku sem hún hafði safnað í gegn um árin. Þau voru að passa að vera alltaf að hreyfa mig, safna peningum og aldrei gleyma að halda áfram að læra og sérstaklega viðhalda tækniþekkingu minni, því það myndi skipta sköpum í öllum samskiptum til framtíðar.
Ég hef reynt að fylgja þessum þremur heilræðum í eigin lífi, en þau nýtast mér einnig til að hugsa hvernig sveitarfélög geta sem best hugað að sínu eldra fólki. Ísland er að eldast og við erum í meira mæli að gera okkur grein fyrir að þarfir eldri borgara eru mjög mismunandi. Við því þarf að bregðast.
Hreyfum okkur
Sveitarfélög eru mjög dugleg að hvetja ungt fólk til íþróttaiðkunar. En hreyfing er mikilvæg alla ævi, líka þegar komið er á efri ár. Íþróttafélög, líkamsræktarmiðstöðvar og félagsmiðstöðvar borgarinnar bjóða upp á skipulagða hreyfingu fyrir eldra fólk. En við þurfum að ná til enn fleiri og finna nýjar leiðir til að hvetja fólk á öllum aldri til virkni og hreyfingar. Nýtt lýðheilsumat í Reykjavík sýnir að með Covid dró úr líkamsþjálfun eldra fólks. Það er þróun sem þarf að snúa við.
Söfnum peningum
Hvað varðar annað heilræðið, að safna peningum, þá vitum við að ýmis áföll geta komið upp á í lífinu og ekki allt eldra fólk sem hefur getað safnað sjóðum. Þetta þurfum við sérstaklega að hafa í huga þegar við skipuleggjum fjölbreytt búsetuúrræði. Fjölmargir vilja vera áfram í eigin húsnæði en aðrir vilja minnka við sig eða flytja úr húsnæði til að losna við stiga. Þá eru aðrir sem vilja eða þurfa að flytja í húsnæði í nálægð við meiri sérhæfða þjónustu. Hér þarf að tryggja gott úrval leiguhúsnæðis fyrir eldra fólk, sem getur t.d. verið byggt upp af stéttarfélögum eða búsetufélögum.
Lærum alla ævi
Það hefur orðið mikil þróun í velferðartækni í borginni fyrir eldra fólk, ekki síst með Covid. Meðal nýjunga eru skjáheimsóknir heimaþjónustunnar, þar sem spjaldtölvur standa öllum notendum til boða. Tryggt er að lítillar sem engrar tæknikunnáttu er krafist til að nýta sér tæknina, en á félagsmiðstöðvum borgarinnar hefur verið boðið upp á tölvufærninámskeið, til að allir geti nýtt sér þá snjalltækni sem er að ryðja sér til rúms. Með aukinni stafrænni þróun verður enn mikilvægara að tryggja að enginn sitji þar eftir.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. desember 2021