Prófkjör Viðreisnar í Reykjavík

Kjörstjórn í prófkjöri Viðreisnar fyrir borgarstjórnarkosningar í Reykjavík boðar til prófkjörs dagana 4.-5. mars 2022 þar sem kosið verður um 4 efstu sætin á framboðslista flokksins.

Kjörstjórn auglýsir hér með eftir frambjóðendum í prófkjörið. Tilkynningar skulu berast á tölvupóstfangið kjorstjornrvk@vidreisn.is og innihalda fullt nafn, kennitölu og símanúmer frambjóðanda, ásamt að hámarki 400 orða kynningartexta og mynd á rafrænu formi. Í tilkynningunni skal jafnframt tilgreint hvaða listasæti frambjóðandi stefnir að. Framboðsfrestur rennur út á hádegi 17. febrúar 2022.

Kjörgeng eru hver þau sem hafa náð 18 ára aldri á kjördegi sveitarstjórnarkosninga þann 14. maí 2022 og hafa lögheimili í Reykjavík. Rétt til atkvæðagreiðslu í prófkjörinu hafa 16 ára og eldri sem eiga lögheimili í Reykjavík og hafa verið skráð félagar Viðreisnar í a.m.k. 3 daga fyrir prófkjörsdag.

Framboð telst ekki endanlega staðfest fyrr en kjörstjórn hefur staðfest kjörgengi, sbr. gr. 7.5. reglna um röðun á framboðslista Viðreisnar.

Kjörstjórn hefur ákveðið að nýta heimild 17. gr. reglnanna til rafrænna lausna við prófkjör en jafnframt verður þeim sem kjósa að greiða atkvæði með prentuðum kjörseðlum gefinn kostur á því. Nánar verður tilkynnt um fyrirkomulag atkvæðagreiðslu og framkvæmd kosninganna þegar nær dregur.

Að atkvæðagreiðslu lokinni mun kjörstjórn birta niðurstöður prófkjörsins og afhenda þær síðan uppstillingarnefnd, sem ber ábyrgð á uppröðun framboðslista að teknu tilliti til niðurstaðna prófkjörsins og ákvæða 19. gr. framangreindra reglna.

Fólk sem hefur áhuga á framboði er hvatt til að kynna sér reglur um röðun á framboðslista Viðreisnar sem nálgast má hér: https://vidreisn.is/reglur-um-rodun-a-lista/