19 feb Bákn og biðlistar
Um tvo milljarða króna mun uppstokkun stjórnarráðsins og fjölgun ráðherra kosta ríkissjóð.
Eftir metmeðgöngu stjórnarmyndunarviðræðna flokkanna sem voru að koma úr fjögurra ára ríkisstjórnarsamstarfi varð það niðurstaðan. Til að hægt yrði að halda samvinnunni áfram yrði að gera breytingar. Aðspurð orðaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra það einhvern veginn svo að eftir fjögurra ára farsælt samstarf vissi forsvarsfólks stjórnarflokkanna vel hverju þyrfti að breyta og hvar þyrfti að gera betur.
Samkvæmt fjárlögum er gert ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn með um 170 milljarða kr. halla í ár. Heimili og fyrirtæki í landinu herða nú sultarólina vegna vaxandi verðbólgu og hækkandi vaxta. Kjarasamningsviðræður munu að öllum líkindum taka mið af þeim veruleika. Í hvaða veruleika býr þá ríkisstjórn sem skutlar 2 milljörðum í óundirbúna illa skipulagða uppstokkun ráðuneyta og fjölgun ráðherra?
Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar forystufólks ríkisstjórnarinnar um að þau þori að vera breytingarafl framtíðar þá er birtingarmyndin sem blasir við öllum almenningi sú að þessar breytingar hafi átt sér stað með hraði á lokametrum stjórnarmyndunarviðræðnanna. Til að leysa innanbúðarágreining stjórnarflokkanna um hver fengi hvað og hver réði hverju. Og líklega líka um hver fengi ekki að ráða sumu.
Upp að vissu marki er þetta auðvitað bara hluti af því að skipta með sér völdum. En þessi vinnubrögð sýna enn og aftur að þrátt fyrir tal um mikilvægi ábyrgs ríkisrekstrar þá vinnur ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar einfaldlega eftir allt annarri hugmyndafræði.
Það svíður hvað forgangsröðunin sem þarna birtist í áherslum ríkisstjórnarinnar er í hróplegu ósamræmi við hin raunverulegu viðfangsefni sem blasa við í samfélaginu. Samkvæmt nýrri samantekt umboðsmanns barna bíða nú sautján hundruð börn á biðlistum eftir þjónustu í heilbrigðiskerfinu og hjá félagsmálastofnunum. Eitt þúsund og sjö hundruð börn. Meðalbiðtíminn er frá einu og upp í tvö ár eftir þeirri þjónustu sem um ræðir. Þetta eru skelfilegar tölur.
Fullorðið fólk, margt orðið ófært um helstu verkefni daglegs lífs vegna verkja, bíður svo mánuðum og jafnvel árum skiptir eftir bót meina sinna. Hvar er áhersla ríkisstjórnarinnar á lausn þessa mála? Á tímasetta áætlun um styttingu biðlista? Á að ná samningum við sérfræðilækna? Við sjúkraþjálfara, talmeinafræðinga og sálfræðinga? Á að tryggja jafnt aðgengi íbúa landsins að mikilvægri þjónustu? Á að tryggja að þúsundir barna eyði ekki stórum hluta æskunnar á biðlistum? Af hverju var ekki dreginn sá lærdómur af stjórnarsamstarfinu á síðasta kjörtímabili að þetta yrði í forgangi núna?
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. febrúar 2022