03 mar Stærsti minni hluti ræður
Skoðanakannanir hafa í gegnum tíðina sýnt mikla óánægju með stjórnkerfi fiskveiða. Afgerandi meirihluti er yfirleitt á móti.
Við fyrstu sýn lýsa skoðanakannanir því mjög eindreginni afstöðu alls almennings.
Einföld spurning en flókinn veruleiki
Frá því að fyrstu kvótalögin voru sett fyrir nærri fjórum áratugum hefur þjóðin gengið ellefu sinnum til alþingiskosninga. Þessi afdráttarlausa afstaða í skoðanakönnunum hefur hins vegar aldrei skilað sér inn í stjórnarsáttmála að kosningum loknum.
Hvers vegna í ósköpunum er þetta svona?
Svarið er: Veruleikinn er flóknari en einfaldar spurningar í skoðanakönnunum. Það kemur til að mynda fram í því að innan margra stjórnmálaflokka eru afar skiptar skoðanir á málinu.
Þótt mikill meirihluti þjóðarinnar lýsi óánægju með kerfið í könnunum eru skoðanir kjósenda jafn skiptar og flokkanna á því hverju eigi að breyta eða hvað eigi að koma í staðinn.
Afleiðing sundrungar
Afleiðingin af þessari sundrungu er sem sagt þessi: Stærsti minnihluti á Alþingi hefur frá fyrsta degi ráðið ferðinni.
Þegar margar ólíkar skoðanir eru innan sama flokks leiðir það einnig til þess að forystumenn hans setja ekki fram kröfur um breytingar þegar þeir fá tækifæri til að semja um aðild að ríkisstjórn. Stærsti minnihlutinn heldur þá stöðu sinni.
Litlu minnihlutarnir verða svo áhrifalausir. Þannig er staðan enn í dag.
Helstu ágreiningsefnin eru þessi: 1. Gjaldtaka. 2. Tímamörk veiðiréttar. 3. Framsal. 4. Veðsetning. 5. Úthlutun eftir veiðireynslu, með uppboði eða samkvæmt pólitísku mati.
Þjóðareign eða séreign
Breið samstaða hefur verið um að líta á fiskimiðin sem þjóðareign. Innan Sjálfstæðisflokksins heyrðist þó nýlega það sjónarmið að breytingar jafngiltu þjóðnýtingu.
Forsætisráðherra kom ekki fram stjórnarskrártillögu um þjóðareign í fyrra þó að afgerandi meirihluti sé fyrir henni á Alþingi.
Þetta kann að skýrast af því að innan stærsta stjórnarflokksins líti sumir á veiðiréttinn sem séreign útgerðarinnar.
Tímamörk veiðiréttar
Viðreisn, Samfylking, Framsókn, VG, Píratar, Flokkur fólksins og hluti Sjálfstæðisflokks vilja tímabundinn veiðirétt. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Miðflokkur eru á móti.
Ríflegur meirihluti er því á Alþingi fyrir þessari mikilvægu breytingu.
Hún nær hins vegar ekki fram að ganga vegna þess að Framsókn hefur fallið frá þessu grundvallarstefnumáli í fimm ríkisstjórnum frá aldamótum, VG í þremur og Samfylking í tveimur.
Framsal og veðsetning
Frjálst framsal nýtur stuðnings Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Framsóknar, Miðflokks og hluta VG. Öruggur meirihluti er þannig fyrir því á Alþingi.
Veðsetning skipa hefur alltaf náð til aflaheimilda þeirra. Ef lánastofnanir fengju ekki veð í aflahæfi skipa fengi enginn lán. Ríki eða sveitarfélög yrðu því að gera út flest öll skip, þar á meðal smábáta.
Ótvíræður meirihluti er fyrir veðsetningu en Samfylking, Píratar og Flokkur fólksins eru á móti. Hluti VG er einnig á móti.
Úthlutunarreglur
Viðreisn og Samfylking styðja uppboð á veiðiheimildum. Hluti Sjálfstæðismanna og fylgjenda Pírata eru einnig þeirrar skoðunar.
Framsókn, Miðflokkur, hluti VG og meirihluti Sjálfstæðisflokks styðja óbreytt ástand.
Hluti Pírata og hluti VG vilja pólitíska úthlutun út frá byggðasjónarmiðum.
Auðlindagjald
Ekkert raunverulegt auðlindagjald er greitt í dag. Í þess stað greiða útgerðir mjög lágan viðbótartekjuskatt, sem kallast veiðigjald.
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og Miðflokkur vilja óbreytt ástand. VG vilja óbreytt ástand þegar þau eiga aðild að ríkisstjórn.
Viðreisn, Samfylking, Píratar og Flokkur fólksins vilja hærri greiðslur fyrir veiðirétt. Það gerir einnig hluti Sjálfstæðisflokks, hluti Framsóknarflokks og hluti VG þegar þau eru í stjórnarandstöðu.
Grundvöllur sáttar
Þetta er grautarleg mynd. En meðan þeir flokkar, sem fara í samstarf með stærsta minnihlutanum, sætta sig við óbreytt ástand heldur það áfram.
Verði á hinn bóginn unnt að knýja fram breiðari málamiðlun er líklegast, samkvæmt þessari greiningu, að áfram verði byggt á aflahlutdeildarkerfi með framsali. Breytingarnar fælust aftur á móti í tímabindingu veiðiréttar og hærra gjaldi, sem mögulega fengist með uppboði á litlum hluta aflahlutdeilda á hverju ári.
Sátt með þessum breytingum myndi viðhalda þjóðhagslegri hagkvæmni en gera þjóðareignina virka.
Hvað er að óttast?