09 mar Öryggi Íslands og framtíðin
Blóðug innrás Rússa í Úkraínu er hryllingur. Hún er mannlegur harmleikur. Á þessari stundu er hugur okkar fyrst og fremst bundinn við örlög fólksins, sem þarf að þola hörmungar stríðsátaka og lúta í lægra haldi fyrir ofríki.
Grimmilegt ofríki Rússa gagnvart þessari grannþjóð á fyrst og fremst rætur í því að alræðisstjórnin hræðist það mest að sjá lýðræði dafna handan landamæranna.
Rússlandi stendur ekki hernaðarleg ógn af Úkraínu eða öðrum grannríkjum. En lýðræðisáhrifin eru smitandi.
Alræði gegn lýðræði
Í raun og veru er þetta hernaður alræðisins gegn lýðræðinu. Þess vegna snertir hann okkur ekki bara tilfinningalega. Þetta er hernaður gegn sérhverju lýðræðisríki í Evrópu. Samstaðan með Úkraínu er ekki aðeins samkennd með fólki í fjarlægu landi. Hún er líka nauðsynleg vegna okkar eigin hagsmuna og gilda.
Við stöndum frammi fyrir þeim veruleika að það er ekki kostnaðarlaust að verja fullveldi landsins. Og fáar þjóðir eiga meir undir öðrum í því efni en við. Að sama skapi eru skyldur okkar til samstöðu meiri en annarra.
Mikilvægt er að líta ekki á stríðið í Úkraínu sem einangrað fyrirbæri. Þetta er ekki einn af þessum atburðum sem fanga hug okkar í nokkra daga eða vikur og heyrir svo gleymskunni til. Úkraínustríðið skrifast heldur ekki á einn vitstola mann.
Valdajafnvægið hefur raskast
Við erum að horfa á langtímaþróun. Ekki bara þróun í samskiptum Rússa og NATO. Þessi átök eru hluti af spennu milli alræðisstjórna í heiminum og lýðræðisríkjanna. Og lýðræðisríkin hafa verið að veikjast. Nærtækasta dæmið eru vaxandi áhrif Kína og þverrandi áhrif Bandaríkjanna.
Í þessu samhengi þurfum við líka að hafa í huga að friður og öryggi ráðast ekki bara af vopnavaldi. Viðskipti og efnahagsleg samvinna eru grundvallarþáttur þegar kemur að því að treysta og varðveita frið þjóða í milli.
Á tímum kalda stríðsins ríkti ákveðið valdajafnvægi. Sú heimsmynd breyttist við fall Berlínarmúrsins. Á síðustu árum hefur spennan vaxið og jafnvægið raskast. Þetta er sú breiða mynd sem við þurfum að horfa á.
Kjarnorkuógnin
Tengslin milli Úkraínustríðsins og Íslands snúast ekki um augnabliksviðhorf. Pútín var að hagnýta sér veikleika lýðræðisþjóðanna í nýrri heimsmynd.
Framtíðarsýn hans er að halda áfram svo lengi sem hann telur að lýðræðisríkin standi verr að vígi en alræðisríkin.
Í Kúbudeilunni stóðu þjóðir heims á barmi kjarnorkuátaka. Í þessari deilu hafa Rússar beinlínis hótað að beita kjarnavopnum.
Það hefur ekki gerst áður á mínu æviskeiði. Fyrir mér sýnir það djúpa alvöru þessa máls.
Þjóðaröryggi
Eftir síðari heimsstyrjöld höfðu Bandaríkin forystu um stofnun Atlantshafsbandalagsins. Það er varnarbandalag þjóða í Norður-Ameríku og Evrópu. Íslandi var boðin stofnaðild að bandalaginu vegna hernaðarlegrar þýðingar landsins.
Í þjóðaröryggisstefnu Íslands, sem samþykkt var samhljóða á Alþingi 2016, eru aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin sérstaklega tilgreind meðal þeirra atriða sem helst tryggja sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands.
Hafi einhver haldið að aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfið við Bandaríkin væri bókstafur á blaði, aðeins til marks um gamla sögu, hefur Úkraínustríðið gjörbreytt þeirri ímynd. Þessi hornsteinn vestrænnar samvinnu hefur ekki verið meira lifandi veruleiki í áratugi en einmitt nú.
Á dögunum tók ég þátt í þingmannafundi NATO- og Evrópusambandsríkja í París um öryggismál. Það var ánægjulegt að finna þá miklu samstöðu, sem þar ríkti. Fulltrúar ólíkra þjóða og alls litrófsins í pólitíkinni sýndu þar þá samstöðu, sem úrslitum ræður þegar alræðisöflin ráðast gegn lýðræðinu.
En við skulum líka viðurkenna að velsæld og langvarandi friður í Evrópu hafði slævt varðstöðuna. Þessir atburðir hafa þétt raðirnar á ný.
Samstarf um hervarnir og viðskiptafrelsi
En við skulum ekki gleyma því að stofnun Atlantshafsbandalagsins var ekki eina viðbragð vestrænna ríkja eftir síðari heimsstyrjöld. Bandaríkin ákváðu að veita stríðshrjáðum Evrópuríkjum gífurlega efnahagsaðstoð, sem kennd var við Marshall hershöfðingja og utanríkisráðherra.
Samhliða þessari efnahagsaðstoð lögðu Bandaríkin fast að Evrópuþjóðunum að bindast samtökum um aukna samvinnu á sviði viðskipta og efnahagsmála. Evrópusambandið er sprottið úr þeim jarðvegi.
Lýðræðisþjóðirnar gerðu sér grein fyrir því að útilokað var að tryggja frið og öryggi með hervörnum einum saman. Aukið viðskiptafrelsi, vaxandi hagsæld og sömu leikreglur fyrir alla hafði jafn mikla þýðingu til að ná því markmiði.
Hervarnir og viðskiptafrelsi voru þannig frá upphafi tvær hliðar á sama peningi. Og eru enn.
Viðskiptafrelsi og friður
Það hefur verið gæfa Íslands að eiga fulla aðild að Atlantshafsbandalaginu og aðild að kjarna Evrópusambandsins, innri markaðnum, í gegnum EES-samninginn. Hvort tveggja hefur þjónað heildarhagsmunum landsins.
Andstæðingar fullrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu hafa stundum á undanförnum árum reynt að rökstyðja málstað sinn með því að benda á að það hafi verið stofnað til að stuðla að friði eins og einhver önnur lögmál gildi um Ísland í þeim efnum.
Veruleikinn er auðvitað sá, að einmitt þessi tilgangur Evrópusambandsins styrkir röksemdirnar fyrir því að við stígum lokaskrefið til fullrar aðildar.
Síðustu atburðir sýna, svo ekki verður um villst, að bandalag um varnir og efnahag verður ekki í sundur slitið.
Engir aukaaðilar
Algjör einhugur hefur verið um að fylgja Evrópusambandinu í efnahagsþvingunum gegn Rússum. Þar höfum við ekki verið neinir aukaaðilar.
Enginn hefur efast um að hagsmunir Íslands felast í fullri aðild að þeim ráðstöfunum.
Að sama skapi ætti öllum að vera ljóst að full aðild að allri efnahags- og viðskiptasamvinnu þjóðanna er ekki síður mikilvæg.
Með því færum við út fullveldi landsins og aukum viðskiptafrelsi einstaklinga og fyrirtækja. Togstreita Bandaríkjanna og Kína mun að auki hafa áhrif á frjáls heimsviðskipti. Þá er mikilvægt að eiga skjól á stórum markaði sem tryggir viðskiptafrelsi í ríkari og öruggari mæli en við njótum nú þegar.
Framtíðin
Þátttaka okkar í fjölþjóðasamstarfi mótaðist á tíma kalda stríðsins. Heimsmyndin er nú gjörbreytt. Við stöndum andspænis nýjum áskorunum, annars konar valdahlutföllum í heiminum og vaxandi þörf lýðræðisþjóðanna fyrir samvinnu, ekki bara um hervarnir heldur einnig um grunngildi, menningu, viðskipti og efnahag.
Viðbrögð okkar við stríðinu í Úkraínu eiga því ekki að einskorðast við daginn í dag. Við þurfum að horfa fram í tímann. Við þurfum að meta stöðu Íslands í nýju ljósi og tryggja framtíðarhagsmuni landsins á öllum sviðum.
Það gerum við með aukinni áherslu á aðild að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfið við Bandaríkin. En um leið þurfum við að dýpka samstarfið við Evrópusambandsþjóðirnar með fullri aðild Íslands. Hún hefur sjaldan verið brýnni.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. mars 2022