22 mar Ísland styðji sérstaklega við rannsókn á stríðsglæpum Rússlands
Innrás Rússlands í Úkraínu hefur kallað fram sterka samstöðu í Evrópu allri og víða um heim. Sú afstaða hefur verið sýnd í verki með áður óþekktum efnahagsaðgerðum og öðrum þvingunaraðgerðum. Stríðið hefur opnað augu Evrópu á ný fyrir hörmungum stríðsreksturs og stríðsglæpa. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hefur sagt sannanir fyrir að rússneski herinn hafi beitt klasasprengjum. Notkun slíkra vopna er bönnuð samkvæmt Genfarsamningunum. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kallaði eftir því að stríðsglæpir Rússa yrðu rannsakaðir. Síðast en ekki síst hefur Karim A.A. Khan, saksóknari hjá Alþjóðlega sakamáladómstólnum, sagt ástæðu til að ætla að stríðsglæpir hafi verið framdir af hálfu rússneska hersins í Úkraínu. Hinn 28. febrúar lýsti saksóknarinn því svo yfir að rannsókn vegna stöðunnar í Úkraínu væri hafin. Á fyrstu dögum marsmánaðar höfðu 39 aðildarríki vísað aðstæðum í Úkraínu til saksóknara og óskað eftir að saksóknari hæfi rannsókn og gagnaöflun þá þegar. Ísland var þar á meðal. Þessi samstaða er án fordæma af hálfu aðildarríkja dómstólsins.
Sérstakt fjárframlag Íslands
Litháen hefur lýst yfir að ríkið ætli að leggja til sérstakt fjárframlag í þágu þessarar rannsóknar sem nemur um 15 milljónum króna. Samhliða hefur Litháen biðlað til annarra ríkja um að gera slíkt hið sama. Ráðamenn í Bretlandi hafa gefið vilyrði fyrir sérstökum fjárframlögum og öðrum stuðningi við rannsókn dómstólsins. Ljóst er að frjáls framlög ríkja í þágu þessa verkefnis eru liður í stuðningi við Úkraínu sem og til marks um þá afstöðu að þeir sem fremja stríðsglæpi sæti ábyrgð. Saksóknari við dómstólinn hefur jafnframt biðlað til aðildarríkja að styðja rannsóknina með fjárframlögum. Saksóknari hefur lagt áherslu á þau augljósu sannindi og reglur að sé árásum vísvitandi beint að óbreyttum borgurum þá sé það glæpur.
Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu um að Alþingi feli utanríkisráðherra að veita 10 milljón króna sérstakt viðbótarframlag til Alþjóðlega sakamáladómstólsins í Haag vegna innrásar Rússlands í Úkraínu. Þannig geta íslensk stjórnvöld sýnt stuðning við þau gildi sem dómstóllinn stendur fyrir og einarða afstöðu sína gegn stríðsglæpum. Allur þingflokkur Viðreisnar er að baki tillögunni. Í 116. gr. Rómarsamþykktarinnar segir að dómstóllinn geti tekið við og notað sem viðbótarsjóði frjáls framlög frá ríkisstjórnum, alþjóðastofnunum, einstaklingum, fyrirtækjum og öðrum aðilum. Dómstóllinn er fjármagnaður bæði af aðildarríkjum stofnsamningsins og frjálsum framlögum frá ríkjum, alþjóðastofnunum, einstaklingum, fyrirtækjum og öðrum aðilum. Þetta viðbótarframlag Ísland myndi rúmast innan þess ramma sem ætlaður er ráðuneytinu í fjárlögum.
Þeir sem fremja stríðsglæpi sæti ábyrgð
Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn (e. International Criminal Court – ICC) er fyrsti varanlegi alþjóðlegi sakamáladómstóllinn sem stofnaður var til þess að taka á alvarlegum brotum sem varða alþjóðasamfélagið. Dómstóllinn rekur upphaf sitt til 7. júlí 1998 þegar samkomulag 120 ríkja náðist um Rómarsamþykktina svokölluðu, sem er stofnskjal Alþjóðlega sakamáladómstólsins. Rómarsamþykktin tók gildi 1. júlí 2002 þegar 60 ríki höfðu fullgilt hana. Ísland varð tíunda ríkið til þess að fullgilda samþykktina.
Eitt meginmarkmið dómstólsins er að þeir aðilar sem gerast sekir um alvarlegustu glæpina gegn almennum borgurum sæti ábyrgð. Samkvæmt ákvæðum Rómarsamþykktarinnar falla undir lögsögu dómstólsins stríðsglæpir, hópmorð, glæpir gegn mannúð og glæpir gegn friði.
Mikilvægur og táknrænn stuðningur
Núna er ríkt tilefni fyrir Ísland til að stíga mikilvægt og um leið táknrænt skref með sérstöku fjárframlagi til að styðja rannsókn á ætluðum brotum rússneska hersins í Úkraínu. Með því getur fámenn þjóð sýnt sterka afstöðu með grundvallarréttindum hins almenna borgara á stríðstímum. Framlagið felur í sér stuðning við þá hugmyndafræði að þeir sem fremja stríðsglæpi sæti ábyrgð af hálfu alþjóðasamfélagsins.
Óskandi er að fleiri ríki sýni þennan stuðning núna. Það er mikilvægt á tímum sem þessum að afstaða ríkja sé skýr og birtist alls staðar þar sem ætla má að boðskapurinn heyrist og skiljist. Efnahagsaðgerðir og aðrar þvingunaraðgerðir hafa sýnt áður óþekkta samstöðu. Ísland getur að sama skapi svarað ákalli Karims A.A. Khans, saksóknara hjá Alþjóðlega sakamáladómstólnum, með viðbótarframlagi til dómstólsins. Dómstóllinn hefur þýðingarmiklu hlutverki að gegna núna og til framtíðar. Rannsókn á stríðsglæpum rússneska hersins í Úkraínu gefur til kynna að alþjóðasamfélagið ætli sér ekki aðeins að fordæma stríðsglæpi heldur að slík brot hafi afleiðingar af hálfu alþjóðasamfélagsins. Fámenn þjóð eins og Ísland getur með framlagi lagt lóð á vogarskálarnar. Ég hef óskað eftir meðflutningi þingmanna úr öllum flokkum og það er von mín að þingheimur allur geti sameinast að baki þessari tillögu.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. mars 2022