22 mar Velsæld barna í forgang
Eitt stærsta verkefni sveitarfélaga er að sinna börnum. Í Reykjavík eru börn sett í forgang og við sjáum það á þeim verkefnum sem Viðreisn og núverandi meirihluti hefur lagt áherslu á.
Bilið brúað
Eitt helsta kosningamál Viðreisnar var að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Það á að veita barnafólki góða þjónustu. Það er ekki nóg að vera með ódýrustu leikskólagjöldin meðal stærstu sveitarfélaga landsins. Til að ná þessu takmarki hefur starfsfólki á leikskólum þegar verið fjölgað um 350 á kjörtímabilinu. En við þurfum að gera betur. Við höfum tímasettar áætlanir um að opna 850 ný leikskólarými í ár, m.a. með því að opna sjö nýja leikskóla. Þannig munum við ná að bjóða öllum 12 mánaðar börnum leikskólapláss strax í haust og lækka meðalaldur barna við inntöku úr 19 mánuðum í 15 mánaða.
Á kjörtímabilinu hefur fjölgað um 133 leikskólarými í sjálfstætt starfandi leikskólum. Viðreisn styður sjálfstæða skóla og vill gjarnan að þeim fjölgi. Því á Reykjavík nú við viðræðum við þessa leikskóla um að fjölga leikskólaplássum enn frekar.
Betri borg fyrir börn
Verið er að stórefla grunnskóla borgarinnar til að taka betur utan um börnin. Með betri borg fyrir börn er verið að færa þjónustu við börn nær börnunum sjálfum og inn í skólana. Við erum líka að gera skólunum betur kleift að auka þjónustu sína og takast á við fjölbreytileikann meðal nemendahópsins. Á sama tíma fá skólastjórnendur aukið faglegt frelsi og ábyrgð til að mæta þessum fjölbreytileika með auknu teymisstarfi fagfólks á sviðum velferðar, heilbrigðis og skóla. Þetta aukna utanumhald um börnin okkar mun kosta meiri pening og við erum þegar búin að tryggja skólum það fjármagn.
Betra skólahúsnæði
Í gangi er eitt stærsta viðhaldsátak sem sést hefur. Of mikil viðhaldsskuld safnaðist saman í kjölfar efnahagshrunsins og það er komið að skuldadögum. Það er búið að meta ástand allra skólabygginga í borginni, hvort sem það eru leikskólar, grunnskólar eða frístund og greina hvar viðhalds er þörf. Þar sem þetta er risaframkvæmdaverkefni mun það taka um fimm ár að ná að klára
öll útistandandi viðhaldsverkefni. En að þeim tíma loknum vonumst við til að vera búin að ná í skottið á viðhaldsskuldinni sem fékk því miður að safnast allt of lengi upp. Börnin okkar munu þá búa við meira öryggi og heilnæmara húsnæði. Fyrsta skrefið var að taka upp mun skýrari verklagsferla þegar grunur um myglu í húsnæði kemur upp. Það hefur leitt til þess að í dag er meira rask á
skólastarfi en áður en kosturinn er að börnin og starfsfólk er strax tekið út úr óheilnæmum raka og farið er strax í viðgerðir.
Á komandi kjörtímabili þurfum við að halda áfram á þessari stefnu. Að fjölga starfsmönnum leikskóla, og leikskólaplássum hjá sjálfstætt starfandi skólum, auka sjálfstæði skólastjórnenda og færa þjónustuna við börn til þeirra og stuðla þannig að enn betri borg fyrir börn.
Greinin birtist fyrst í hverfisblöðum Reykjavíkur í mars 2022.