04 apr Ný hugsun, nýr heimur
Heimurinn hefur skroppið saman á síðustu árum, með aðstoð tækninnar erum við ekki lengur bundin við innlendan atvinnumarkað. Margir leita í dag að tækifærum í þekkingariðnaði þvert á landamæri, landshluta og sveitarfélagamörk á sama tíma og þau kjósa að búa áfram í heimabænum. Þessi breytti veruleiki þýðir að sveitarfélög þurfa að vera leiðandi í því að búa til jarðveg og skapa aðstöðu fyrir þekkingariðnað og nýsköpun. Jafnframt þarf að vinna í því að gera bæjarrýmið aðlaðandi og áhugavert í öllum hverfum bæjarins.
Þekking og nýsköpun krefst ekki stórra innviðafjárfestinga, en geta skapað miklar tekjur og eru því að mörgu leiti ódýr fjárfesting með mikla tekjumöguleika og því það sem á ensku kallast „no-brainer“. Af hverju er þá lítið búið að hlúa að þessum málaflokki í Hafnarfirði síðustu árin? Sennilega vegna þess að þetta er flókinn málaflokkur sem passar illa inn í kerfin sem við höfum búið okkur til í dag. Kerfi sem þarf að umturna og endurskoða að öllu leiti.
Við í Viðreisn ætlum að breyta þessu og gera þekkingu og nýsköpun að helstu atvinnugrein Hafnarfjarðar. Við viljum vera í fararbroddi með því að koma á laggirnar þekkingarklasa í Hafnarfirði þar sem fyrirtæki, einstaklingar og allir þeir sem skilgreina sig sem frumkvöðla geta fengið tækifæri til að vaxa og dafna. Við viljum einnig vera í fararbroddi þegar kemur að skipulagningu á bæjarrýminu. Við viljum búa til aðlaðandi og gönguvænt umhverfi þar sem fólk fær tækifæri til að spegla vinnu sína og hugmyndir með öðrum, grípa kaffibolla, borða saman og kaupa í matinn án þess að keyra yfir í næsta bæjarfélag. Við ætlum að láta kerfin vinna fyrir okkur en ekki okkur vinna fyrir kerfin.
Meiri Viðreisn þýðir meiri tækifæri, meiri lífsgæði og meiri gleði.