14 maí Skýr sýn Viðreisnar um ábyrga stjórn
Viðreisn er flokkur, sem leggur upp úr því að vandað sé til verka og að almannahagsmunir séu settir í fyrsta sæti. Viðreisn er flokkur á miðjunni, sem getur unnið bæði til hægri og vinstri. Það sem skiptir mestu máli er að vinna að raunhæfum lausnum að vandamálum til að borgarbúar geti gengið að þjónustu borgarinnar vísri, þegar á þarf að halda. Viðreisn er mikilvæg rödd í borgarstjórn Reykjavík, sem talar fyrir frjálslyndi, jafnrétti og ábyrgð í fjármálum. Eftir því höfum við starfað og munum gera það áfram.
Viðreisn stendur við loforðin
Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, þá sögðumst við ætla að lækka fasteignaskatta á fyrirtæki. Við stóðum við það ári áður en áætlað var. Á næsta kjörtímabili ætlum við að ganga lengra og lækka fasteignaskattana enn meira. Með Viðreisn í meirihluta borgarstjórnar verður hægt að treysta á að við loforðin verður staðið.
Kjörnum fulltrúum ber að fara vel með almannafé og sýna ábyrgð í rekstri. Það höfum við gert með þeim árangri að skuldahlutfall borgarsjóðs er það lægsta af öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Heimsfaraldur setti aðeins strik í reikninginn hjá Reykjavík eins og hjá ríkinu og öllum öðrum sveitarfélögum. En styrkur borgarinnar kom þá berlega í ljós þegar farið var í stórátak í framkvæmdum og innviðauppbyggingu til að styðja við efnahagslífið. Á sama tíma drógu önnur sveitarfélög saman í framkvæmdum.
Viðreisn stóð fyrir því að gera fyrstu fjármálstefnu borgarinnar. Hún sýnir skýrt hvert við erum að stefna. Við viljum að innan tveggja ára verði rekstur borgarsjóðs hallalaus eftir áfall síðustu ára. Til samanburðar gerir formaður Sjálfstæðisflokksins ráð fyrir að ríkið safni skuldum til ársins 2026 hið minnsta.
Reykjavíkurborg á að hvetja til heilbrigðrar samkeppni og halda að sér höndum varðandi verkefni sem einkaframtakið getur sinnt. Hún á ekki að standa í samkeppnisrekstri. Við viljum skoða betur hvaða rekstur borgarinnar eigi betur heima hjá einkaaðilum. Þar hef ég t.a.m. nefnt bílastæðahús borgarinnar. Að eiga þau og reka fellur ekki undir grunnþjónustu.
Reykjavík sem dafnar
Undanfarin þrjú ár hefur átt sér stað metuppbygging íbúða í Reykjavík. Tölurnar tala þar sínu máli. Við vitum hins vegar að það þarf að gera meira og halda áfram. Við viljum skipuleggja lóðir fyrir 2.000 íbúðir á ári. Við viljum jafnframt að Reykjavík stuðli að því að það verði bæði fljótlegra og ódýrara að byggja í Reykjavík. Þess vegna viljum við að farið sé að ráðleggingum OECD til að einfalda umgjörð byggingamála. Þar þurfum við innviðaráðherra með okkur í lið.
Þess vegna á að kjósa Viðreisn
Í kosningum er ekki síst kosið um traust. Traust og ábyrgð helst í hendur þegar kjörnir fulltrúar fara með sameiginlega hagsmuni borgarbúa og fjármuni þeirra. Fólk sem vinnur í þágu allra borgarbúa á að bera virðingu fyrir því að það er að vinna í umboði fólks og bera virðingu fyrir fjármunum sem þeim er treyst fyrir. Í Reykjavík skiptir þess vegna máli að kjósa fólk sem stendur fyrir skýra hugmyndafræði og ákveðin vinnubrögð. Fólk sem getur sagt skýrum orðum fyrir hvað það stendur.
Undanfarið kjörtímabil höfum við starfað í meirihluta nokkurra flokka. Þar höfum við talað fyrir okkar stefnumálum og náð mörgum þeirra fram en vitaskuld ekki öllum. Ég er stolt af því að borgarfulltrúar Viðreisnar hafa verið rödd skynsamrar meðferðar á fjármunum borgarbúa, skýrrar hugmyndafræði í skipulagsmálum í þágu borgarbúa, verið rödd nýsköpunar, fyrirtækja og atvinnulífsins. Talað fyrir jafnrétti og frjálslyndi. Það skiptir máli að kjósa fólk sem hefur skýra sýn fyrir Reykjavík. Það er af þessari ástæðu sem kjósa á Viðreisn í Reykjavík.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. maí 2022