12 maí Misgóð fjármálastjórn
Undir lok síðasta árs var tilfinning margra sú að borgarstjórnarmeirihlutinn sigldi mótbyr inn í kosningabaráttuna. Nú sjást aftur á móti vísbendingar um að hann geti haldið velli á laugardaginn.
Meirihlutinn gerði sáttmála við ríkisstjórnina um helsta stefnumál sitt um almenningssamgöngur, sem eru hin hliðin á stefnu hans um þéttari, hagkvæmari og umhverfisvænni byggð.
Stærsti minnihlutaflokkurinn í borgarstjórn fer með fjármálin í ríkisstjórn og stýrir þaðan sérstöku félagi, sem sér um framkvæmd á samgöngustefnu meirihlutans í borgarstjórn.
Meirihlutinn og stærsti minnihlutaflokkurinn í borgarstjórn eru því í bandalagi um stóru línurnar í borgarpólitíkinni.
Andsvar frá Selfossi
Andbyr meirihlutans átti fyrst og fremst rætur að rekja til afar harðrar gagnrýni á fjármálastjórn borgarinnar. Sú gagnrýni byggðist á talpunktum, sem menn fengu með lestri Morgunblaðsins.
Niðurstaða talpunktanna var sú að óráðsía og skuldasöfnun einkenndu fjármálastjórn Reykjavíkur og greiðsluþrot væri fyrirsjáanlegt.
Borgarstjóri virðist vera meira fyrir að gera sáttmála við andstæðinga sína en að munnhöggvast við þá. Það kann að vera ástæðan fyrir því að margir voru farnir að trúa því að talpunktarnir hermdu rétta sögu.
Þá flaug vel metnum og reyndum fyrrverandi sveitarstjórnarmanni austur á Selfossi, Þorvarði Hjaltasyni, í hug að fletta upp í hagtölum á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann birti niðurstöðu þeirrar skoðunar í grein á vefritinu Kjarnanum.
Grannarnir lakari en Reykjavík
Tölurnar í andsvarinu frá Selfossi sögðu allt aðra sögu en talpunktarnir úr Hádegismóum.
Í samanburði við sveitarfélögin fimm umhverfis Reykjavík var hlutfall skulda af tekjum lægst í höfuðborginni. Skuldir á hvern íbúa voru lægstar í Reykjavík. Og hlutfall veltufjár var sterkast í Reykjavík.
Þessar niðurstöður segja hins vegar fátt um það hvort borgarstjóri og formaður borgarráðs séu góðir fjármálastjórnendur. Þær segja bara að þau hafi náð betri árangri en allir bæjarstjórarnir í nágrannabæjunum. Eða hitt: Bæjarstjórarnir fimm eru lakari en stjórnendur Reykjavíkur.
Hlédrægni
Ég minnist þess ekki á síðari árum að kosningamál eins og fyrirsjáanlegt greiðsluþrot Reykjavíkurborgar hafi verið blásið jafn mikið upp og svo orðið að tómri blöðru í einni svipan. Það mál, sem sýndist ætla að verða borgarstjórnarmeirihlutanum mótdrægt, er ekki nefnt á nafn á lokametrum kosningabaráttunnar.
Leiðtogi stærsta minnihlutaflokksins í borgarstjórn sneri hesti sínum við í miðju straumvatni prófkjörsbaráttunnar og hætti við framboð. Nýi leiðtoginn ákvað svo að mæta ekki á borgarstjórnarfundi þrjá síðustu mánuði kjörtímabilsins.
Sannfærandi skýringar hafa ekki verið gefnar á þessari hlédrægni. En nærlægt er að ætla að þau hafi þá þegar séð að talpunktarnir geymdu ekki fóður í sterkt kosningamál.
Vextir og verðbólga
Hér eins og í flestum öðrum löndum hafa landsmálin jafnan nokkuð að segja í sveitarstjórnarkosningum.
Bankasalan og mál, sem innviðaráðherra á óuppgert við Alþingi, eru enn hitamál. En áhrif ríkisfjármálastefnunnar á verðbólgu og vaxtahækkanir, sem eru miklu skarpari hér en annars staðar, eru kannski þyngri og veigameiri.
Svo vill til að fjármál ríkisins eru á hendi sama flokks og fer með stjórn bæjanna fimm umhverfis Reykjavík.
Í talpunktum fjármálaráðuneytisins á undanförnum árum hefur mátt lesa staðhæfingar um svo góða fjármálastjórn að ekkert annað ríki standi betur að vígi til að mæta áföllum en Ísland.
Önnur saga
Nýlega gaf fjármálaráð út það álit að frá því fyrir Covid hafi verið viðvarandi halli á venjubundnum rekstri ríkissjóðs. Til viðbótar komi skuldasöfnun vegna faraldursins. Og að öllu óbreyttu muni kerfislægur halli aukast og skuldirnar vaxa en ekki minnka á þessu kjörtímabili.
Fjármálaráð notar ekki stóryrði um þessa alvarlegu staðreynd. En þetta er ástæðan fyrir því að viðskiptalífið segir að ríkissjóður kyndi nú undir verðbólgu og ætli næstu ríkisstjórn að leysa skuldavandann.
Kjarni málsins er að álit fjármálaráðs segir allt aðra sögu en talpunktar fjármálaráðuneytisins.
Að réttu lagi ætti ríkisstjórnin að bregðast við. Fyrir fólk og fyrirtæki væri betra að hún mótaði ábyrga efnahagsstefnu fremur en að taka sér til fyrirmyndar hlédrægni leiðtoga stærsta minnihlutaflokksins í Reykjavík.