31 maí Frá innri markaði til fullrar aðildar
Aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins var á sínum tíma mun stærra skref en lokaskrefið þaðan til fullrar aðildar verður. Með því að stíga þetta skref styrkjum við til muna bæði pólitíska og efnahagslega stöðu landsins á nýjum umbrotatímum.
Efnahagssamvinna með þeim þjóðum, sem byggja á sömu gildum og við, er jafn mikilvæg fyrir fullveldi landsins eins og varnarsamstarfið. Þetta tvennt verður ekki í sundur slitið.
Viðbrögð við nýrri óvissu
Skelfilegt árásarstríð Pútíns gegn Úkraínumönnum er ekki aðeins ógn við lýðræði og mannréttindi í okkar heimshluta, heldur hefur það þegar haft mjög alvarleg viðskiptaleg og efnahagsleg áhrif.
Pólitísk áhrif stríðsins hafa jafnframt aukið þá óvissu í heimsviðskiptum sem fylgt hefur vaxandi spennu milli Bandaríkjanna og Kína. Hættan er að þetta skapi enn meiri togstreitu milli lýðræðisríkja og einræðisríkja.
Flestar þjóðir hafa brugðist við þessum nýju aðstæðum með einum eða öðrum hætti. Stærstu skrefin hafa Finnar og Svíar tekið með ósk um fulla aðild að NATO. Bæði ríkin hafa lengi haft samstarfssamninga við bandalagið, en nú töldu þau pólitíska nauðsyn á að stíga lokaskrefið til fullrar aðildar.
Pólitískir fjötrar
Ég hef í flestum efnum verið ánægð með viðbrögð utanríkisráðherra. Þau hafa verið sterk og afdráttarlaus svo langt sem þau hafa náð. En við höfum ekki gert mikið meira en að fylgja lágmarksskuldbindingum við bandalagsþjóðir okkar í NATO og ESB.
En vandi utanríkisráðherra er sá að stjórnarsáttmálinn bindur hendur hennar. Af þeim sökum getur hún ekki tekið frumkvæði að neinum nýjum skrefum, hvorki varðandi varnarsamvinnuna né efnahagssamvinnuna.
Þessir pólitísku fjötrar veikja Ísland. Við ríkjandi aðstæður er óviðunandi að ríkisstjórn Íslands geti ekki vegna innri mótsagna tekið nýjar ákvarðanir til þess að styrkja stöðu landsins.
Ný skref á tveimur sviðum
Í ljósi þeirra nýju og gjörbreyttu aðstæðna sem Ísland stendur andspænis, líkt og mörg önnur ríki, lagði þingflokkur Viðreisnar í vetur fram tillögu á Alþingi, sem felur í sér að utanríkisráðherra fái umboð til þess að undirbúa margþætt viðbrögð.
Nauðsynlegt er að viðbrögðin miði að því að efla þátttöku okkar í NATO, treysta varnarsamvinnuna við Bandaríkin og undirbúa lokaskrefið frá aðild að innri markaði Evrópusambandsins til fullrar aðildar.
Við lítum svo á að hagsmunir Íslands kalli á að stjórnmálin ræði ný skref á þessum tveimur mikilvægustu sviðum utanríkisstefnunnar við fólkið í landinu.
Aukin þátttaka í varnarsamstarfi
Í varnarmálum leggjum við til að Ísland sýni enn öflugri samstöðu með bandalagsþjóðunum með því að stórauka þátttöku í borgaralegum störfum, sem tengjast sameiginlegum verkefnum NATO.
Jafnframt leggjum við til að hafnar verði viðræður við Bandaríkin um viðbót við varnarsamninginn. Þar yrði tryggt að hann næði til netárása, sem beinast að öryggi Íslands, og tæki með í reikninginn mikilvægi órofinna samgangna, birgða- og fólksflutninga, sæstrengja og orkuöryggis.
Verkferla og ábyrgð á töku ákvarðana þarf einnig að skýra komi til þess að virkja þurfi aðstoð Bandaríkjanna.
Full aðild að ESB
Undirbúningur að lokaskrefinu frá aðild að innri markaði Evrópusambandsins til fullrar aðildar tekur eðlilega nokkurn tíma. Við teljum að fela ætti utanríkisráðherra að taka fyrsta skrefið með því að skila greinargerð um kosti og galla þess að taka þetta skref.
Þetta er nauðsynlegur undanfari fyrir þá umræðu, sem þarf að fara fram innan allra stjórnmálaflokka, milli þeirra og við þjóðina. Athyglisvert er að Finnar og Svíar unnu slíkar greinargerðir um skrefið frá samstarfssamningum til fullrar aðildar að NATO á aðeins örfáum vikum.
Við viljum vandaðan undirbúning af þessu tagi. Umræðuskjalið á hins vegar ekki að vera eitthvert skúffuplagg ráðuneytanna. Það á að þjóna málefnalegum umræðum, sem eru forsenda ákvarðana, sem Alþingi þarf að hafa forystu um en þjóðin tekur á endanum.
Hugsjón og hagsmunir
Það eru þung pólitísk rök fyrir því að við hefjum þennan undirbúning núna. Við þurfum að eiga sæti við borðið með lýðræðisþjóðunum í Evrópu. Það á ekki bara við um NATO heldur einnig ESB.
Hér þurfum við að gæta að tvennu. Annars vegar að styrkja pólitíska stöðu landsins og skjóta með því styrkari stoðum undir efnahagslega og viðskiptalega hagsmuni á hverfulum tímum. Hins vegar er það skylda okkar að efla samstarf þjóða sem trúa á lýðræði, frjáls viðskipti og sömu leikreglur fyrir stórar þjóðir sem smáar. Árás á þessi sameiginlegu gildi okkar er árás á öryggi þjóðar. Þessi dýrmætu gildi þarf að verja.
Nýjar ógnir knýja okkur til að huga líka í ríkari mæli en áður að orkuöryggi sem fæðuöryggi. Við getum sjálf aukið framleiðslu landbúnaðarafurða. Um það markmið er ekki mikill ágreiningur.
Forsendan fyrir því að þetta markmið náist er hins vegar að tryggja örugg viðskipti með aðföng. Og til þess að tryggja að ný sókn á þessu sviði sé sjálfbær þarf stærra markaðssvæði. Full aðild að ESB er því mikilvægur þáttur í að þessi framtíðarsýn verði meira en orðin tóm. Öflugur stuðningur sambandsins við atvinnuháttabreytingar á jaðarsvæðum skiptir þar líka máli.
Þannig renna hugsjónir og hagsmunir saman í eitt í þessu hóflega en mikilvæga skrefi fram á við. Nú er ekki tími til að hika eða bíða.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. maí 2022