27 júl Mikilvægi frjálslyndis
Síðasta áratug hefur ólík hugmyndafræði aftur orðið ríkur þáttur pólitískrar umræðu og pólitískra átaka.
Víða á hugmyndafræði lýðræðisskipulagsins í vök að verjast. Eins vex einangrunarhyggju ásmegin með fráhvarfi frá hugmyndafræði frjálsra viðskipta sem hafa tryggt smáum og stórum ríkjum jafna möguleika með sameiginlegum leikreglum í fjölþjóðasamvinnu.
Brexit er skýrasta dæmið. Þar fór frjálslynd hugmyndafræði halloka fyrir íhaldssemi. Reynslan sýnir nú að atvinnulífið í Bretlandi er í veikari stöðu en áður og launafólk mætir að sama skapi meiri þrengingum.
Hér heima hefur hugmyndafræði verið bannorð. En þróunin sýnir að allar þjóðir hafa þörf fyrir að líta á einstök viðfangsefni frá sjónarhorni langtíma hugmyndastefnu. Í stað tímabundinna sérhagsmuna.
Sala á eignarhlut ríkisins í bönkum er eðlileg. Og mikilvæg. En það er röng hugmyndafræði við söluna að taka hagsmuni fjárfesta fram yfir kröfur um virka samkeppni á fjármálamarkaði. Samkeppnin er mikilvægari fyrir fyrirtæki og launafólk.
Aflahlutdeildarkerfi er hagkvæmt. Hitt vinnur gegn almennri þjóðhagslegri hagkvæmni að tímabinda ekki einkaréttinn og taka ekki gjald fyrir verðmæti hans. Eins og alls staðar er gert með einkarétt til að nýta almannaeign. Einkaafnot útgerða á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar án eðlilegs auðlindagjalds leiðir síðan til mismununar á fjárfestingamarkaði.
Landbúnaður er í vörn en ekki sókn. Ástæðan er sú að hugmyndafræði skömmtunarstjórnar hefur vikið frjálslyndum hugmyndum um athafnafrelsi til hliðar.
Frjáls gjaldeyrisviðskipti eru mikilvæg. En það er bogin hugmyndafræði að tryggja þeim sterkustu rétt til að standa utan við krónuhagkerfið en njörva þá veikustu innan þess. Það skapar ójafna stöðu.
Þessi mismunun er ein ástæða þess að íslenskt atvinnulíf skrapar botninn í samanburði á samkeppnishæfni í alþjóðaviðskiptum og erlendri fjárfestingu.
Það er kominn tími á breytingar.
Frjálslynd hugmyndafræði í þágu almannahagsmuna þarf að leysa af hólmi ríkjandi stefnu íhaldssemi og sérhagsmuna. Hér fara saman heildarhagsmunir fyrirtækja og launafólks.