05 júl Alþjóðlegt samhengi
Í byrjun síðustu aldar var Háskóli Íslands stofnaður á fæðingardegi Jóns Sigurðssonar. Það var ekki tilviljun.
Lokaskrefið í fullveldisbaráttunni var ekki langt undan. Eigin háskóli var vissulega ekki lögformlegt skilyrði fyrir fullveldi. En hann var hluti af þeirri sjálfsímynd sem við þurftum á að halda til þess að stíga fram sem þjóð, sem bæði gat og vildi standa á eigin fótum í samfélagi þjóðanna. Að þessu leyti var Háskóli Íslands þjóðleg stofnun. En þekkingin lýtur ekki neinum landamærum. Hún er alþjóðleg. Þannig hefur það frá upphafi legið í eðli þessarar þjóðlegu stofnunar að gera Ísland að lifandi landi í alþjóðasamfélaginu.
Ræða Jóns Atla Benediktssonar háskólarektors við brautskráningu kandídata á dögunum var skörp brýning um þetta sígilda hlutverk Háskólans. Rektor sagði þar:
„Afleiðingar stríðsins í Úkraínu hafa þannig minnt okkur á hve lítill heimur okkar er þrátt fyrir allt. Við sem deilum þessum hnetti erum í reynd ein stór fjölskylda svo mjög sem örlög okkar eru tvinnuð saman á ótal vegu. Við þurfum að huga að hinu alþjóðlega samhengi á öllum sviðum atvinnu- og þjóðlífs á Íslandi, um leið og við ræktum menningararfleifð okkar.“
Þegar stofnun Háskóla Íslands var ákveðin ríkti frelsi í alþjóðlegum viðskiptum, erlend fjárfesting var frjáls og Ísland var hluti af norræna myntbandalaginu. Einmitt úr þessu var grunnurinn að upphafi mestu atvinnubyltingar í sögu landsins gerður. Þetta var umgjörðin sem fóstraði hugmyndina um eigin íslenskan háskóla.
Nú meira en öld síðar erum við minnt á hversu mikilvægt það er að huga að hinu alþjóðlega samhengi á öllum sviðum atvinnu- og þjóðlífs. Innan ramma fjölþjóðlegrar samvinnu þurfum við að verja frelsi í viðskiptum og draga til okkar eðlilega og nauðsynlega erlenda fjárfestingu. Þetta gerum við að hluta með aðild að innri markaði Evrópusambandsins. Við eigum líka að ræða lokaskrefið til fullrar aðildar. Hún myndi aftur tengja okkur inn í alþjóðlegt myntsamstarf. Það yrði mikill styrkur fyrir grænu iðnbyltinguna, sem við horfum til, rétt eins og norræna myntsamstarfið reyndist fótfesta atvinnubyltingar í upphafi síðustu aldar.
Þannig styrkjum við fullveldið.