12 ágú Rjúfum þögnina
Þegar þing kom saman að afloknum kosningum í fyrra flutti ég ásamt öðrum þingmönnum Viðreisnar tillögu á Alþingi um að fela utanríkisráðherra að meta stöðu Íslands í fjölþjóðasamvinnu í ljósi umróts í heiminum og þeirra miklu breytinga sem orðið hafa í alþjóðamálum.
Í kjölfarið á innrás Rússa í Úkraínu lögðum við svo fram tillögu um að fela utanríkisráðherra að undirbúa fjórþætt viðbrögð af hálfu Íslands til að styrkja varnir og öryggi landsins, auka borgaralega þátttöku í NATO og efla efnahagslega samvinnu.
Skemmst er frá því að segja að þögnin var eina viðbragð ríkisstjórnarflokkanna.
Þörf brýning
Að fenginni þessari reynslu fannst mér ánægjulegt að lesa brýningu Björns Bjarnasonar fyrrverandi ráðherra á heimasíðu hans 6. ágúst. Þar sagði hann: „Þögnin um utanríkis- og varnarmál er meiri hér en í nokkru nágrannalandi.“
Tilefni þessara ummæla er ný grundvallarstefna NATO og nýtt frumvarp sem lagt var fram í öldungadeild Bandaríkjaþings í byrjun þessa mánaðar um víðtæka sókn á norðurslóðum á sviði þjóðaröryggis, siglinga, rannsókna og viðskipta. Þar er meðal annars gert ráð fyrir að komið verði til móts við óskir Íslands um víðtækan fríverslunarsamning.“
Í grein sinni gagnrýnir Björn Bjarnason að þeir ráðherrar og embættismenn sem sátu leiðtogafund NATO í júní hafi ekki skýrt frá áhrifum hinnar nýju grundvallarstefnu bandalagsins á stefnu ríkisstjórnarinnar eða þjóðaröryggisstefnuna. Síðan segir hann:
„Nú þegar stjórnmálamenn hefja fundi að nýju, ríkisstjórnin hélt fyrsta fund sinn eftir sumarleyfi í gær (5. ágúst), hljóta þeir að taka stöðu Íslands í umheiminum til umræðu. Ekki veitir af að gera þjóðinni grein fyrir því sem gerst hefur og hvert stefnir. Hljóta að verða sérstakar umræður um þessi mál strax og þing kemur saman síðsumars, hjá því verður ekki komist.“
Þögnin er pólitík
Ég hygg að við Björn Bjarnason séum á einu máli um flest sem snýr að utanríkis- og varnarmálum nema spurninguna um að stíga lokaskrefið frá aðild að innri markaði Evrópusambandsins til fullrar aðildar.
Alveg sérstaklega erum við sammála um mikilvægi umræðunnar á þessum örlagatímum.
Í þessu sambandi er nauðsynlegt að átta sig á hvers vegna þessi stóru hagsmunamál þjóðarinnar eru sveipuð þögn. Ástæðan er hvorki skilningsleysi né kæruleysi. Rætur þagnarinnar liggja í hugmyndafræðilegum grundvelli meirihlutasamstarfsins á Alþingi. Þögnin er pólitík.
Andstæðingar NATO setja mörkin
Þó að forsætisráðherra hafi lítið sagt um nýja grundvallarstefnu NATO hefur ráðherrann eigi að síður staðhæft að stefnan taki fyrst og fremst til austurhluta bandalagsins en ekki til Íslands og Norðurslóða.
Ég er sannfærð um að utanríkisráðherra sér þetta frá víðara sjónarhorni.
Vandinn er að stjórnarsamstarfið byggist á því að eini flokkurinn á Alþingi sem er andvígur aðild að NATO setur mörkin og ræður í raun viðbrögðum við breyttum aðstæðum og hversu langt Ísland gengur. Þegar svona háttar til er þögnin létt leið og ljúf.
Þetta er hins vegar ekki skammtímapólitískt ástand. Meirihlutinn á Alþingi telur að langtímahagsmunir Íslands í utanríkis- og varnarmálum séu best tryggðir með samstarfi sem byggist á þessum grunni.
Það þarf að byrja á að rjúfa þögnina um þennan veikleika ríkisstjórnarinnar.
Samvinna um efnahag og varnir
Við í Viðreisn höfum litið svo á að efnahags- og viðskiptasamvinna sé jafn mikilvæg og varnar- og öryggissamvinnan. Þess vegna höfum við talað fyrir því að stíga lokaskrefið frá aðild að innri markaði Evrópusambandsins til fullrar aðildar.
Að sama skapi höfum við heilshugar stutt að Ísland leitaði eftir nánara viðskiptasamstarfi við Bandaríkin.
Við þurfum að dýpka varnar- og öryggissamvinnu við bandalagsþjóðir okkar bæði í Ameríku og Evrópu. Það sama gildir um efnahags- og viðskiptasamstarfið beggja vegna Atlantshafsins.
Það er því ekki beint rökrétt að segja að frekara efnahagssamstarf við bandalagsþjóðir í Ameríku sé af hinu góða en af hinu illa við bandalagsþjóðir í Evrópu.
Kynna þarf samningsmarkmið
Mikilvægt er að ríkisstjórnin kynni fljótlega samningsmarkmið varðandi fríverslunarsamning við Bandaríkin.
Þeir víðtæku fríverslunarsamningar sem Bandaríkin gera fela jafnan í sér hindrunarlausa verslun með landbúnaðarafurðir. Það er fagnaðarefni ef stjórnarflokkarnir eru í alvöru tilbúnir í slíkar viðræður.
Þetta er mikilvæg stefnubreyting. Eftir hana eru ekki lengur gild rök gegn opnun heimamarkaðar með landbúnaðarvörur frá Evrópu.
En hér er að ýmsu að hyggja. Við sjáum að Bretar eru í klípu með þessi mál. Breskir bændur og neytendur eru til að mynda á varðbergi gagnvart bandarískum reglum um heilbrigðiskröfur og neytendavernd.
Þetta sýnir aðeins að samningsmarkmiðin þurfa að vera skýr frá upphafi. Og þau þarf að ræða.
Aðskildar viðræður
Veruleikinn er sá að varnarsamvinna við bandalagsþjóðir okkar í NATO nær ekki fullum tilgangi nema viðskipta- og efnahagssamvinnan sé víðtæk og sterk.
Það breytir ekki hinu að við þurfum að halda samningum um varnir annars vegar og viðskipti hins vegar aðskildum. Varnarþörf verður ekki metin út frá viðskiptum. Í samtölum við Bandaríkin þarf það að vera skýrt.
Í Evrópu gerir stofnanaskipulagið sjálfkrafa ráð fyrir þessum aðskilnaði. Hann getur hins vegar reynst flóknari gagnvart Bandaríkjunum. Við þurfum bara að gæta að þessum þætti.
Viðreisn er vel nestuð
Ísland á meira undir fjölþjóðasamvinnu í varnar- og öryggismálum og á sviði efnahags- og viðskiptamála en grannríkin. Samt ræðum við þessi mál minna; nánast ekkert eins og sakir standa.
Viðreisn hefur einn flokka á Alþingi lagt fram ítarlegar tillögur um undirbúning að nýrri stefnumörkun á þessum sviðum. Þeim fylgir vandaður rökstuðningur í greinargerðum. Við komum því vel nestuð til þeirrar umræðu sem Björn Bjarnason kallar nú réttilega eftir.
Rjúfum þögnina.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. ágúst 2022