31 ágú Pólitík fyrir eldhúsið
Pólitík snýst um að auðvelda líf og heimilisrekstur fólksins í landinu. Gera stritið fyrir hinu daglega brauði léttara. Sterkari samkeppnishæfni fyrirtækja skiptir líka máli fyrir hag heimila.
Í nútímanum þurfa pólitískar ákvarðanir að fara um langan veg í misflóknum kerfum áður en þær skila sér heim í eldhús til fólks. Fyrir vikið þarf stjórnmálafólk stundum að hafa fyrir því að skýra tengslin milli stefnumála þeirra og eldhússins.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las á dögunum grein eftir Friðrik Jónsson, formann BHM. Þar segir hann þetta um tengslin milli sjávarútvegsstefnunnar og kjarasamninga en þeir eru eldhúspólitík fyrir alla:
„Ólíklegt er að varanleg sátt náist á vinnumarkaði fyrr en sátt næst um gjaldtöku af auðlindum. Mun það taka áratugi nema áherslubreyting verði á vettvangi stjórnmálanna en þangað til þarf að leitast við að skapa tímabundna sátt.“
Þetta sýnir vel að sjávarútvegsmálin fjalla ekki bara um afmarkaðan hluta í þjóðarbúskapnum heldur tengjast stærri málum samfélagsins. Þau eru hvorki einkamál sérfræðinga né einkamál þeirra sem eiga beinna hagsmuna að gæta. Hún varðar alla þjóðina og er stórt hagsmunamál fólksins heima við eldhúsborðið.
Gjaldmiðlamál eru fyrir mörgum frekar óspennandi viðfangsefni. Samt hefur fátt annað meiri áhrif á hversdagslífið: á pólitíkina við eldhúsborðið, vinnuna fyrir hinu daglega brauði og starfsemi fyrirtækja.
Þegar við kölluðum fyrst eftir þjóðaratkvæði um aðild að Evrópusambandinu var viðkvæði margra: „Þetta má nú bíða. Gerum bara það sem þarf. Því ef við fáum að ráða verður krónan eins og hver annar gjaldmiðill.“ Nú hafa þeir stjórnað í allmörg ár. Spyrjum af því tilefni við eldhúsborðið: Hvers vegna þurfa fjölskyldur og lítil og meðalstór fyrirtæki í íslenska krónuhagkerfinu að borga tíu sinnum hærri vexti en vinir okkar í danska krónuhagkerfinu. Til þess að glíma við sömu verðbólgu?
Þetta er hin sanna eldhúspólitík sem snertir hið daglega líf fólks. Er einhver ástæða til að bíða lengur? Eigum við ekki skilið sömu kjör?