15 sep Ferð án fyrirheits
Ríkisstjórnin hóf sjötta þingvetur sinn í vikunni. Af því tilefni hafa stjórnmálafræðingar látið í ljós það álit að næsta ár geti reynst henni þungt í skauti.
Snúin úrlausnarefni blasa við. Svo hafa flokkarnir í vaxandi mæli látið sérskoðanir sínar í ljós þvert á sameiginlega niðurstöðu í málum.
Þetta tvennt er oft vísir að brestum í samstarfi. Þessi stjórn er hins vegar byggð á sérstökum forsendum. Hefðbundin viðmið eiga því ekki endilega við.
Sérstakar forsendur
Guðmundur Ingi Guðbrandsson varaformaður VG lýsti þessum sérstöku forsendum vel á flokksráðsfundi á Ísafirði í lok ágúst. Þar sagði hann það sem lengi verður í minnum haft að ekki mætti gleyma því að til samstarfsins hefði verið stofnað til þess að koma í veg fyrir að hlutir gerðust.
Þessi sérstaki grundvöllur samstarfsins var flestum ljós frá byrjun. En engum forystumanna stjórnarflokkanna hafði fram að þessu dottið í hug að segja það upphátt.
Í þessu ljósi hefur vegferðin frá upphafi verið án annars fyrirheits en þess að koma í veg fyrir að samstarfsflokkarnir kæmu stefnumálum sínum fram með öðrum flokkum á Alþingi.
Býsna ójafnt gengi
Þegar samstarf flokkanna þriggja hefur nú staðið í fimm ár verður ekki annað sagt en að þessi grundvallarforsenda hafi verið traust og skilað því sem til stóð. Þrátt fyrir sérskoðanir upp á síðkastið bendir ekkert til að þessi trausta undirstaða bresti.
Hreinskilni varaformanns forystuflokksins í ríkisstjórninni á ugglaust rætur að rekja til þess að VG hefur einn stjórnarflokkanna tapað verulegu fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn stendur nokkurn veginn í stað. En Framsókn hefur unnið verulega á.
Gengi flokkanna er þannig býsna ójafnt.
Ástæðan
Ástæðan kanna að vera sú að VG hafði í upphafi vegferðarinnar stór orð um algjör umskipti í heilbrigðismálum og umhverfis- og loftslagsmálum. Ráðherrar beggja sviða þurftu síðan að yfirgefa þau ráðuneyti án þess að hafa markað nokkur þáttaskil og jafnvel með pólitískar hrakfallasögur á bakinu.
Vera má að það hafi komið forystu VG í opna skjöldu að samstarfsflokkarnir skyldu á þessum sviðum beita grundvelli samstarfsins um stöðvun stefnumála hvert annars.
Mögulegur viðsnúningur
Helstu möguleikar VG til að snúa taflstöðunni sér í hag núna liggja í væntanlegum viðræðum við aðila vinnumarkaðarins.
Verkalýðsfélögin hafa sett fram fjallháar kröfur um aukin útgjöld og meiri samneyslu.
Þó að ríkisstjórnin fallist aðeins á hluta af efnahags- og ríkisfjármálastefnu verkalýðsfélaganna gæti það dugað VG til að draga kjósendur til baka. Slík stefnubreyting gæti á hinn bóginn veikt Sjálfstæðisflokkinn.
Af því að ríkisstjórnin hefur ekki lýst neinni stefnu af sinni hálfu í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins eru þessir möguleikar þó mikilli óvissu undirorpnir. Enginn veit til að mynda hvort þetta stefnuleysi þýðir að fjárlögin séu opin til breytinga.
Besti vinur ríkissjóðs
Ísland er eitt af fáum löndum sem græðir á tá og fingri á þeim áföllum, sem umbrotin í heiminum hafa valdið öðrum þjóðum. Þannig seljum við sjávarafurðir og framleiðslu stóriðju á hærra verði en nokkru sinni. Og ferðaþjónustan bólgnar eins og verðbólgan hafi engin áhrif.
Þrátt fyrir þennan gífurlega uppgang er kominn mikill og alvarlegur halli á viðskipti við útlönd. Það er svo ein af öfugmælavísunum í þjóðarbúskapnum að viðskiptahallinn er jafnan besti vinur ríkissjóðs.
Hann græðir á því þegar við eyðum um efni fram. Vandinn er að þær tekjur eru að mestu froða, sem hverfur þegar hallinn jafnast, en útgjöldin standa.
Skortur á forsjálni
Viðskiptahallinn fyrir krónuhrunið var reyndar miklu meiri. En þá var hluti tekjuaukans eða froðunnar notaður til að greiða niður skuldir. Sagan hefur svo kennt okkur að það hefði átt að gera í stærri stíl.
En nú er engu af froðutekjunum varið til að greiða niður skuldir. Sá skortur á forsjálni þýðir að vandinn sem ákveðið var að setja á næstu ríkisstjórn stækkar.
Þetta jafnvægisleysi í þjóðarbúskapnum þrátt fyrir dæmalausa velgengni útflutningsatvinnuveganna er önnur birtingarmynd þess hvernig ferðir án fyrirheits geta endað.