Lokuð augu ráða för

Þorsteinn Pálsson

„Því að metnaður hvers manns og hverrar þjóðar, sem nokkuð er í spunnið, er að eiga eitthvað, sem er svo gott, að bestu menn, hverrar þjóðar sem er, vilji njóta þess líka. Æðsta markmið er sálufélag við þá, sem bestir eru. En til sálufélags eru þeir líklegastir, sem skyldastir eru. Drekkum skál frænda vorra á Norðurlöndum!“

Þetta er tilvitnun í ræðu Guðmundar Finnbogasonar prófessors frá 1931.

Norðurlönd

Í dag tölum við meir um sameiginleg gildi þjóða en sálufélag þeirra. En það breytir ekki hinu að norræn samvinna er lifandi og mikilvægur veruleiki. Undirstaðan er sameiginlegur menningararfur, frelsi og lýðræði.

Þrátt fyrir dýptina hefur sálufélag Norðurlanda hins vegar ekki nema að mjög takmörkuðu leyti náð til efnahagssamvinnu og varnarmála. Smæðarinnar vegna hafa öll löndin kosið að gæta hagsmuna sinna á þessum lykilsviðum í stærri og öflugri fjölþjóðasamtökum.

Þrjú Norðurlönd hafa átt fulla aðild að NATO, en Svíþjóð og Finnland hafa til þessa tryggt hagsmuni sína með sérstökum samstarfssamningi. Eins hafa þrjú Norðurlönd átt fulla aðild að ESB en Ísland og Noregur átt aðild að innri markaði þess með sérstökum samningi.

Aðstæður breytast

Nú hafa straumhvörf í alþjóðamálum leitt til þess að bæði Svíþjóð og Finnland hafa sótt um fulla aðild að NATO.

Flestir eru á einu máli um að það muni styrkja norræna samvinnu bæði á þessu sviði og í stærra samhengi.

Kjell Magne Bondevik fyrrum forsætisráðherra Noregs er í hópi reyndustu forystumanna borgaraflokkanna í Noregi. Í þjóðaratkvæðagreiðslunum 1972 og 1994 greiddi hann atkvæði gegn aðild að ESB.

Í grein sem hann skrifar á vefritið Altinget fyrr í þessum mánuði segir hann: „Evrópa breytist. Norðurlönd breytast. Noregur tengist ESB með EES-samningnum, sem reynst hefur vel. En þegar aðstæður breytast í umhverfi okkar eigum við að ræða hvort samband okkar við ESB þurfi líka að breytast.“

Endurmat

Forsætisráðherrann fyrrverandi er ekki þeirrar skoðunar að efnahagslegar aðstæður kalli á endurmat að því er Noreg varðar. Hann dregur hins vegar fram mikilvæg pólitísk rök.

  1. Bondevik bendir á að aðild Finna og Svía að NATO muni styrkja norrænt samstarf og gefa því aukið vægi innan bandalagsins. Þetta sé mikilvægt fyrir þá sem hlynntir eru norrænni samvinnu. Síðan spyr hann hvort norræna velferðarkerfið muni ekki að sama skapi fá meira vægi í ESB ef öll Norðurlönd eigi þar aðild.
  2. Hann segir að aðild geti haft mikilvæga öryggispólitíska vídd. Í því sambandi nefnir hann aukið samráð um stórpólitísk mál eins og efnahagsþvinganir þar sem betra gæti verið að eiga sæti við borðið.
  3. Hann nefnir nýjar aðstæður í heimspólitíkinni, klofninginn í Bandaríkjunum og aukin áhrif Kína í öllum heimsálfum, og spyr: Hver verður afstaða stórveldanna til Evrópu í framtíðinni?
  4. Hann bendir á ný viðfangsefni eins og umhverfis- og loftslagsmál og spyr hvort ekki sé betra að taka virkan þátt í mótun stefnunnar.
  5. Hann segir að endurmeta þurfi mótrökin frá í þjóðaratkvæðagreiðslunum út frá reynslu og nýjum aðstæðum.

Hindranir

Flest þessara sjónarmiða hafa komið fram áður bæði í Noregi og hér heima. Margir munu til að mynda sjá hliðstæðu við þau rök, sem tillögur Viðreisnar á Alþingi um ný skref á þessum sviðum byggja á.

Það merkilega er að gamall áhrifamaður í norskum stjórnmálum, sem fram til þessa hefur talið EES samninginn duga, talar nú fyrir endurmati og nýjum skrefum.

Að réttu lagi ættu íslensk stjórnvöld að fá fræðasamfélagið til að vinna málefnalegan umræðugrundvöll fyrir slíkt endurmat. Síðan mætti ákveða framhaldið með opnum augum.

Bondevik telur að vinstri stjórnin í Noregi sé nú ófær um að setja þessa umræðu á dagskrá. Hér eru það tveir borgaralegir flokkar með tögl og hagldir í ríkisstjórn, sem vilja ekki einu sinni skoða hvort Norðurlönd geti orðið sterkari saman í sálufélagi Evrópu.

Skoðanakannanir sýna að þjóðin vill umræðu, en lokuð augu ráða för.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. október 2022