20 okt Bensínbrúsi og bjargbrún
Það er erfitt að finna orð sem lýsa óförum ríkisstjórnar breska Íhaldsflokksins. Óhætt er þó að fullyrða að stutt tilkynning um fjáraukalög eins ríkis hafi ekki í annan tíma valdið jafn miklu uppnámi.
Kúvending ríkisfjármálastefnu með ábyrgðarlausum ákvörðunum um skattalækkanir og aukin útgjöld komu fjármálakerfi Bretlands á nokkrum klukkustundum fram á bjargbrúnina.
Síðan var öllu kúvent á ný. Fyrir vikið eru fjármálamarkaðir ekki lengur í yfirvofandi hraphættu. En sögulega stór þingmeirihluti er aftur á móti orðinn að mesta pólitíska viðundri síðari ára.
Verðbólgubálið
Umsagnir um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Íslands hafa fallið í skuggann af frásögnum um þessar bresku hamfarir. Það hefur að vísu ekki komið Íslandi á bjargbrúnina eins og sakir standa.
Eigi að síður bregða sumir aðilar vinnumarkaðarins breiðu spjótunum á loft í umsögnum sínum.
Viðskiptaráð gengur lengst. Það segir að Seðlabankinn sprauti vatni á verðbólgubálið en ríkisstjórnin standi við hlið hans með bensínbrúsa og skvetti.
Eftir að ASÍ fór í heilsvetrarfrí er BHM orðið áhrifaríkast launþegamegin á vinnumarkaðnum. Það er hófsamara en fyrirtækjahliðin en lýsir samt áhyggjum af því að ríkisfjármálin vinni ekki nægjanlega gegn verðbólgu.
Ástandið er alvarlegt þegar launþegasamtök skrifa þannig umsögn.
Í Viðskiptablaðinu var fjárlagafrumvarpinu lýst undir fyrirsögninni: „Sturlun í stjórnarráðinu.“
Ísland og Bretland
Í umsögn Samtaka atvinnulífsins kemur fram að langtímavextir ríkissjóðs eru nú tvöfalt hærri en í fyrra og þrefalt hærri en fyrir tveimur árum. Ávöxtunarkrafan er komin yfir 6%.
Tímaritið Economist lýsir afleiðingum glæfraleiks bresku ríkisstjórnarinnar í lok síðasta mánaðar. Þar kemur fram að hann hafi keyrt ávöxtunarkröfu breskra ríkisskuldabréfa frá 4% upp í 5%.
Á bjargbrúninni var ávöxtunarkrafan í Bretlandi lægri en hér heima. Í þessum samanburði er skiljanlegra að traustustu bakhjarlar fjármálaráðherrans í atvinnulífinu taki stórt upp í sig í gagnrýni á fjárlagafrumvarpið.
Ísland og Ítalía
Það eru vextirnir sem ráða mest um það hvort ríkisskuldir eru sjálfbærar. Fjármálaráðherrar allra landa hafa því jafnan meiri áhyggjur af vaxtakostnaði en heildarskuldum.
Grikkland og Ítalía eru þekkt fyrir slæma stöðu opinberra fjármála. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins kemur fram að þau sitja á botninum í Evrópu með vaxtakostnað sem er 3,5% af landsframleiðslu. Ísland kemur svo næst með 3% vaxtakostnaðarhlutfall þótt opinberu skuldirnar séu miklu lægri.
Vaxtakostnaðarhlutfallið er þriðjungi hærra hér en í Bretlandi og ríflega sexfalt hærra en á öðrum Norðurlöndum. Tölurnar eru frá 2020. Síðan þá hafa vextir hækkað meira hér en í þessum samanburðarlöndum.
Kannski er groddaleg fyrirsögn Viðskiptablaðsins ekki alveg út í hött í ljósi þess að stjórnvöld vilja ekki tala um þessa vaxtakostnaðarkreppu ríkissjóðs.
Ísland og Norðurlönd
Á næsta ári fara 66 milljarðar króna af peningum skattborgaranna í vaxtagreiðslur ríkissjóðs. Nærri lætur að það sé tvöfalt hærri upphæð en fer til Vegagerðarinnar, sem glímir við eitt af stærstu innviðaverkefnum þjóðarinnar.
Eins og Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað bent á ákvað ríkisstjórnin að fela næstu ríkisstjórn að leysa skuldavandann. Ef ný ríkisstjórn ætti að koma vaxtagreiðslum niður á sama stig og á öðrum Norðurlöndum þyrfti að hækka skatta eða skera niður um að minnsta kosti 50 milljarða króna.
Það er ekkert smáræði í húfi. Klípan er bara sú að afar ólíklegt er að hér verði mynduð ríkisstjórn sem geti framkvæmt svo róttækar ráðstafanir í ríkisfjármálum.
Til varnar fjármálaráðherra
Vaxtabyrði Grikkja og Ítala skrifast fyrst og fremst á reikning lélegrar fjármálastjórnar.
Hér hefur vissulega skort á aðhald. En til varnar fjármálaráðherra verður hins vegar að segja að vaxtakreppa ríkissjóðs liggur í ríkara mæli í lélegum gjaldmiðli en lélegri fjármálastjórn.
Ríkisstjórnin hefur fyrst og fremst brugðist með því að loka augunum fyrir þessari staðreynd. Hún beinlínis afneitar þeirri kerfislegu sjálfheldu, sem Ísland er í með vaxtakreppuna.
Það er líka svolítið holur hljómur í stóru orðum Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins eftir að þau settu pottlok á umræðu um kerfisbreytingu til að bæta samkeppnisstöðu landsins og leysa hluta af vanda ríkissjóðs.