11 nóv Þrot fjármálaráðherra
Á dögunum sagði fjármálaráðherra frá því á blaðamannafundi að Íbúðalánasjóður færi að óbreyttu í þrot eftir 12 ár og myndi við það reyna á ríkisábyrgð. Sagði hann þrjá valkosti í stöðunni; (1) að ríkið standi við skuldbindingar sínar, (2) að lífeyrissjóðir gangi til samninga við ríkið og (3) að sjóðurinn verði strax settur í þrot með lagasetningu. Fyrsti kosturinn virtist ekki ofarlega í huga ráðherra og ekki raunverulega á dagskrá. Fjármálaráðherra boðaði hins vegar „sparnað“ fyrir ríkissjóð sem vakti strax spurningar á blaðamannafundi sem varðaði mikið og langvarandi tap. Hvar liggur „sparnaður“ í slíkri stöðu? „Sparnaðurinn“ að sögn ráðherra felst í að lífeyrissjóðir eiga að gefa eftir kröfur sínar. „Sparnaðurinn“ er að aðrir eiga að taka reikninginn.
Aðgerðaleysi fjármálaráðherra
Hið mikla fjártjón Íbúðalánasjóðs á sér pólitískar rætur. Það er rækilega staðfest í skýrslu rannsóknarnefndar. Þar segir berum orðum að tveir flokkar eigi þetta klúður, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur. Lærdómurinn hlýtur að vera að stjórnvöld horfist í augu við afleiðingarnar af ábyrgðarlausum kosningaloforðum. Árið 2013 kom út skýrsla um rekstrarerfiðleika og svartar framtíðarhorfur Íbúðalánasjóðs. Aðgerðaleysi fjármálaráðherra frá útgáfu skýrslunnar vekur spurningar um ábyrgð. Ráðherrann hefur farið með yfirstjórn opinberra fjármála og efnahagsmála frá árinu 2013, þar með talið ríkisábyrgðir.
Lykilspurningum ósvarað
Fjármálaráðherra hefur látið vinna lögfræðiálit þar sem valkostur hans um að setja ÍL-sjóðinn í þrot er talinn standast lög. Þar er mikill þungi lagður í að fjalla um inntak ábyrgðar ríkissjóðs, sem er ekkert sérstakt álitaefni. Lítið sem ekkert er hins vegar vikið að grundvallaratriðum málsins; hvort lífeyrissjóðir hafi yfirleitt heimild og umboð til að gefa eftir kröfur á kostnað umbjóðenda sinna. Um heimildir ríkisins til að slíta ÍL-sjóðnum vísar lögfræðiálitið mestmegnis til neyðarlaganna sem sett voru í hruninu. Það er náttúrlega með ólíkindum að vísa til slíks þegar engar slíkar aðstæður eru nú fyrir hendi. Nema fjármálaráðherra telji raunverulega að efnahagsaðstæður á Íslandi séu sambærilegar við 2008. Það væru stór tíðindi ef svo er.
Vinstrisinnaðasta aðgerð Íslandssögunnar?
Mörgum stórum lagalegum spurningum er hins vegar ósvarað. Hver er t.d. staða þeirra sem setjast við samningaborð með fjármálaráðherra þegar lagasetning blasir við þeim ef samningar nást ekki? Hvert er umboð lífeyrissjóða til að semja um eftirgjöf á kröfum fyrir hönd skjólstæðinga sinna? Væri slík lagasetning afturvirk? Fer fjármálaráðherra fram af meðalhófi? Hverjar eru heimildir Alþingis til að setja ríkisaðila í slitameðferð? Þekkist sambærileg nálgun um skuldabréf með ríkisábyrgð? Á eignarrétturinn að víkja fyrir markmiði fjármálaráðherra um að bæta stöðu ríkissjóðs?
Þessum spurningum er ósvarað. Þess vegna hef ég óskað eftir því í fjárlaganefnd að unnið verði lögfræðiálit fyrir Alþingi og hefur sú ósk verið samþykkt. Forsenda þess að þingið geti tekið afstöðu til hugmynda ráðherrans er að þessum lykilspurningum verði svarað. Meginreglan er að samningar skulu standa. Meginreglan er að líftími skuldabréfa stendur. Í því ljósi þarf Alþingi að skoða valkosti og hugmyndir fjármálaráðherra og svara hvort þetta sé mögulegt. Hvað þarf til að koma til að hægt sé að breyta leikreglum eftir á – bara vegna þess að lánskjörin eru ríkinu óhagstæð núna?
Fjármálaráðherra segist vera boðberi frelsis og verndar eignarréttarins. Valkostur hans um að setja ÍL-sjóð í slit er hörð vinstri beygja frá því. Í því liggur mögulegt þrot hans.