10 nóv ESB og velferðarkerfið
Það hefur ekki farið fram hjá mér fremur en öðrum að innan Samfylkingarinnar jafnt sem utan eru skiptar skoðanir um það hvort aðild að Evrópusambandinu er enn á dagskrá flokksins.
Óvissan stafar af því að í samþykktum landsfundar Samfylkingarinnar er ítrekuð sterk og afdráttarlaus afstaða með aðild og þjóðaratkvæði, en nýr formaður hefur hins vegar tilkynnt að hún muni ekki flytja það mál. Velferðarmálin, sem lítill ágreiningur er um, munu taka allan umræðutíma Samfylkingarinnar næstu árin.
Ég á erfitt með að sjá að Samfylkingin hafi breytt um stefnu. Helsta breytingin er sú að við myndun næstu stjórnar verður Viðreisn eini flokkurinn, sem setur aðild á dagskrá slíkra viðræðna. Til að styrkja þá málefnastöðu bjóðum við Evrópusinna í öllum flokkum velkomna.
Við stjórnarmyndun 2017 fengum við, ásamt Bjartri framtíð, Sjálfstæðisflokkinn til þess að fallast á að undir lok þess kjörtímabils gæti Alþingi tekið afstöðu um aðildartillögu. Stjórnin sprakk áður en til þess kom. En þetta sýnir að Viðreisn hefur náð árangri í erfiðum stjórnarmyndunarviðræðum með þetta stóra hagsmunamál þjóðarinnar.
Við erum þegar aðilar að stórum hluta ESB. Umbrotin í heiminum hafa hins vegar gert það að verkum að aldrei hefur verið brýnna fyrir Ísland að styrkja pólitíska stöðu sína með fullri aðild, jafnt með tilliti til öryggis, efnahags sem loftslags.
Það eru engar trúverðugar skyndilausnir í boði. Við þurfum að hafa langtímahugsun að leiðarljósi. Velferðarkerfið þarfnast bæði skipulagsbreytinga og aukins fjármagns. Almennar skattahækkanir eru aftur á móti ekki lausnin að mínu mati.
Ríkissjóður eyðir tvöfalt hærra hlutfalli útgjalda sinna í vexti en grannþjóðirnar verja til varnarmála. Vaxtagjöld eru þriðji stærsti fjárlagaliðurinn. Lítil von er til þess að við getum aukið svigrúm velferðarkerfisins nema að ná þessu hlutfalli niður á sama stig og á öðrum Norðurlöndum. Það kallar á langtímahugsun og nauðsynlega kerfisbreytingu í gjaldmiðilsmálum.
Aðild að ESB er þannig veigamikill þáttur í lausninni á vanda velferðarkerfisins næsta áratug.