25 nóv Opnum faðminn
Ég hef aldrei verið á flótta. Ég skil hins vegar vel hvað það hefur mikil áhrif þegar fótunum er kippt undan manni og framtíð fjölskyldunnar er í uppnámi. Forfeður mínir flúðu vosbúð, fátækt og takmörkuð tækifæri á Ísland yfir til Kanada. Ég á fjölskyldu frá Ekvador sem hefur flúið heimalandið yfir til Bandaríkjanna af sömu ástæðu og margir flýja nú Venesúela. Á sitthvorri öldinni flúðu þessir hópar til landa sem tóku þeim með opnum faðmi, sköpuðu þeim tækifæri og gáfu þeim nýtt tungumál.
Flóttafólk er frábært fólk, rétt eins og við
Hér búum við á þessari friðsælu og fallegu eyju, með nóg af endurnýjanlegri orku til að halda á okkur hita og lýsa okkur leið. Strjálbýlið hefur reynst okkur áskorun og áratuga umræða hefur verið um byggðaþróun. Nú stöndum við frammi fyrir nýjum veruleika, stríði í Evrópu og fjöldi flóttafólks sem vill koma til Íslands og taka hér þátt í samfélaginu aldrei verið fleiri. Flóttafólk er upp til hópa alveg frábært fólk, fólk sem hefur bjargir og getu til að fara af stað. Fólk sem treystir sér til að aðlagast nýjum tungumálum, siðum og venjum. Þessu fólki eigum við að taka opnum örmum því í þeirra löngun til að verða partur af íslenskri þjóð felst okkar framtíðarauður.
Stefnulaus þjóð
Í öllu þessu ölduróti dregst skýrt fram að við erum ekki með stefnu í innflytjendamálum. Við búum okkur til lög og reglur sem við þrefum stöðugt um en erum ekki með grundvallarstefnu sem lýsir okkur leið. Nú er sannarlega komin tími til að vinna langtímastefnu um hvernig íslensk þjóð ætlar að stækka og þróast á næstu áratugum. Stefnu sem þjóðin kemur að því að semja. Stefnuvinnu þar sem við horfumst í augu við ólík sjónarmið sem með okkur bærast, stefnu sem byggir á sannreyndum gögnum, rannsóknum og lærdómi frá nágrannalöndum okkar til vesturs og austurs.
Reykjavík opnar faðminn
Reykjavíkurborg mun nú í samstarfi við ríkið taka á móti allt að 1.500 flóttamönnum fram til desember 2023. Markmiðið er að tryggja flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur. Við viljum tryggja nauðsynlega aðstoð til að vinna úr áföllum og að tækifæri séu til staðar til þátttöku í samfélaginu. Við í Reykjavík sjáum það alla daga hvað fjölbreytileiki og mannréttindi hafa mikið að segja við þróun borgar og þess vegna opnum við faðminn.