17 nóv Bankasöluklambur
Salan á Íslandsbanka er annað af tveimur sér stefnumálum Sjálfstæðisflokksins, sem náð hafa fram að ganga í fimm ára stjórnarsamstarfi. Hitt er skattalækkunin, sem var hluti af kjarasamningum 2019.
Það eru bara Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn, sem fylgja ákveðið þeirri almennu grundvallarhugmyndafræði að einkaframtakið, fremur en skattborgararnir, eigi að leggja fram áhættufé til viðskiptabanka og fjárfestingabanka.
Aðrir flokkar hafa óljósar hugmyndir um eitthvert hlutverk skattpeninga í bankarekstri.
Óorð
Meirihlutastuðningur við einkabankakerfi er því ekki ótvíræður á Alþingi. Í því ljósi var mikils um vert að Sjálfstæðisflokkurinn skyldi ná bankasölunni fram í ríkisstjórn undir forystu VG.
Að sama skapi hlýtur það að vera fylgjendum þessarar hugmyndafræði í Viðreisn og Sjálfstæðisflokki mikil vonbrigði að ríkisstjórnin skuli hafa haldið þannig á málum, sem lýst er í skýrslu Ríkisendurskoðunar.
Það er sem sagt unnt að koma óorði á góða hugmyndafræði með lélegum vinnubrögðum og lausum tengslum við pólitísk siðferðileg gildi.
Klambur er sennilega mildasta orðið, sem nota má um niðurstöðu Ríkisendurskoðunar. Ríkisstjórnin hefur valdið hugmyndafræðinni umtalsverðu tjóni.
Ádeiluefni
Ádeilum á bankasöluna má skipta í tvennt: Annars vegar eru pólitískar ákvarðanir, sem ríkisstjórnin öll ber ábyrgð á og hins vegar stjórnsýsluframkvæmd, sem fjármálaráðherra er ábyrgur fyrir.
Stærstu málin eru pólitísk. Í augum flestra var siðferðilega ámælisvert að selja hlutina ekki í opnu útboði eins og í fyrra skiptið. Sama má segja um afsláttinn. Sumir kaupendur gerðu jafnvel grín að þeirri ákvörðun. Þetta er pólitískt mat. Það er hvorki hlutverk ríkisendurskoðunar né rannsóknarnefndar að fella dóma um það, heldur kjósenda. Viðskiptaráðherra gagnrýndi réttilega þessa ákvörðun samráðherra sinna.
Fjármálaráðherra ber aftur á móti ábyrgð á stjórnsýsluframkvæmdinni. Þar gerir ríkisendurskoðun fjölmargar athugasemdir. Meirihlutinn á Alþingi ákveður hvort þær hafi pólitískar afleiðingar.
Rök eru fyrir því að ríkisstjórnin beri ábyrgð í heild.
Rannsóknarnefnd
Ríkisendurskoðun birtir lista yfir álitaefni, sem falla utan við starfssvið hennar. Það var vitað fyrirfram. Það er ekki hlutverk hennar að úrskurða um lagaleg álitaefni, sem eru nokkur.
Stjórnarandstaðan væri því að bregðast eftirlitsskyldu sinni ef hún óskaði ekki eftir rannsóknarnefnd til að skoða þau mál, sem út af standa. Þau eru heldur ekki á borði fjármálaeftirlitsins. Það hefur ekki vald til að skoða hlut ráðherra og Bankasýslu.
Núna kemur það ríkisstjórninni í koll að hafa hafnað rannsóknarnefnd í vor sem leið. Þá hefði málið tekið fyrr af. En ríkisstjórnin kaus að fara þá leið, sem draga myndi á langinn að botn fengist í málið.
Þórðargleði
Þórðargleði ríkir nú í herbúðum þeirra, sem fylgjandi eru ríkisbankahugmyndafræði. Hætta er á að klambrið verði vatn á myllu þeirra.
Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að sölunni á Íslandsbanka verði lokið. Forsætisráðherra segir hins vegar að um það hafi enn ekki verið tekin endanleg ákvörðun. Ekki verður séð að sú fullyrðing standist, nema líta beri á fjárlagafrumvarpið sem þingmannafrumvarp.
Forsætisráðherra þarf að eyða þessari óvissu og svara því umbúðalaust hvort skýrsla ríkisendurskoðunar dugar til að halda áfram með söluna.
Um leið þarf ríkisstjórnin að gera grein fyrir því hvernig hún ætlar að endurvinna glatað traust. Það er óhjákvæmilegt.
Víðari forsendur
Vel gæti farið á því að forsætisráðherra kannaði hvort gerlegt er að ná með formlegum samningum breiðari samstöðu á Alþingi um framhaldið. Það myndi væntanlega kalla á nýjar og víðari málefnalegar forsendur fyrir sölu.
Í því sambandi mætti til að mynda óska eftir tillögum Samkeppniseftirlitsins um aðgerðir á fjármálamarkaði, sem líklegar væru til að auka raunverulega samkeppni í þágu almannahagsmuna.
Það væri tilraunarinnar virði að reyna að ná breiðari samstöðu með einum eða fleiri flokkum í stjórnarandstöðu þar sem söluáform væru ofin saman við samkeppnismarkmið.
Aukin samkeppni þjónar bæði hagsmunum launafólks og fyrirtækja. Skýr samkeppnismarkmið gætu breytt sterkri ímynd sérhagsmunagæslu í raunverulega varðstöðu um almannahagsmuni.
Fram til þessa hefur ríkisstjórnin ekki þorað í samvinnu við stjórnarandstöðuflokk eða flokka um veigamikil ágreiningsmál. En sennilega er það eina leið hennar út úr þessari klípu.