Þykkt, þungt og þurrt

Þorsteinn Pálsson

Fjárlagafrumvarpið er heil bók og því að jafnaði þykkasta málið, sem lagt er fyrir Alþingi. Að auki er það þungt aflestrar og fremur þurrt.

Fjárlagaumræðan tekur yfirleitt drjúgan tíma en vekur sjaldnast almennan áhuga úti í samfélaginu.

Oftast er það þannig að efnahagsleg prinsipp og kerfisleg viðfangsefni falla í skuggann af fjárveitingum til einstakra verkefna.

Ábyrgðin

Atvinnulífið og sum samtök launafólks reyna alla jafna að beina athyglinni að efnahagspólitíkinni í fjárlagafrumvarpinu. Þau hreyfa þó sjaldnast við þingmönnum og ná ekki eyrum almennings.

Þyngsta gagnrýnin á efnahagsstefnu núverandi ríkisstjórnar eins og hún birtist í fjárlagafrumvarpinu kemur frá atvinnulífinu. Forystumenn þess staðhæfa að ríkisstjórnin ýti skuldavandanum yfir á næstu ríkisstjórn og kyndi þannig undir verðbólgu. BHM hefur sett fram svipaða gagnrýni.

Á Alþingi eru það einkum þingmenn Viðreisnar sem tala fyrir meiri ábyrgð í þessum efnum. En slíkur boðskapur er ekki nógu skemmtilegur til að þykja gott fréttaefni.

Heimsmetið

Hlutfall skulda og vaxtaútgjalda eru tveir sjálfstæðir mælikvarðar. Nauðsynlegt er að lesa af þeim báðum til að sjá hvort lausung eða ábyrgð ræður för.

Daði Már Kristófersson, hagfræðiprófessor og varaformaður Viðreisnar, vakti í fjárlagaumræðunni á Alþingi í síðustu viku athygli á sérstöðu Íslands þegar kemur að hlutfalli vaxtaútgjalda ríkisins. Orðrétt sagði hann:

„Það er athyglisvert að velta fyrir sér, þó að íslensk stjórnvöld stæri sig oft af því að ríkisskuldir á Íslandi séu hóflegar, þá eru vaxtagjöld á Íslandi úr öllu hófi. Raunar er það þannig að Ísland á met innan OECD í vaxtaútgjöldum hins opinbera.

Til samanburðar getum við tekið gríska ríkið, sem fáum þykir sennilega upphefð í að bera sig saman við. Ríkisskuldir Grikklands eru þrisvar sinnum hærri en ríkisskuldir Íslands, en vaxtabyrðin er lægri.

Klípan

Það er með öðrum orðum ekki skuldahlutfallið heldur hlutfall vaxtaútgjalda, sem segir mest til um hvort ríkisfjármálastefnan telst ábyrg.

Svo fyllsta hófs sé gætt í orðavali er heimsmet í vaxtaútgjöldum þróaðra ríkja ekki beinlínis merki um ábyrga fjármálastjórn.

Klípan er svo sú að þetta heimsmet þrengir stöðu okkar til þess að veita fjármunum inn í velferðarkerfið án skattahækkana eða verðbólguáhrifa.

Einn

Einn þingmaður stjórnarflokkanna hefur rætt þennan grundvallarvanda ríkisfjármálanna. Það er Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Í vor sem leið skrifaði hann sterka pólitíska athugasemd með fjármálaáætlun til ársins 2027. Þar sagði hann:

„Á smáu myntsvæði eins og Íslandi hafa miklar vaxtahækkanir umfram stærstu hagkerfi heims einnig óæskileg hliðaráhrif í formi aukinna líkinda á innstreymi sveiflukennds skammtímafjármagns. Meðal annars af þeim ástæðum er mikilvægt að stefna í fjármálum hins opinbera sé almennt aðhaldssamari en í stærri hagkerfum.“

Hér segir fjármálaráðherra tæpitungulaust að séríslenskur kostnaður við krónuna þýði meira aðhald í ríkisfjármálum en í grannlöndunum.

Þetta aðhaldssama grundvallarviðhorf fjármálaráðherra endurspeglast hins vegar ekki í fjárlagafrumvarpinu og hann hefur ekki nefnt það í allri umræðunni á haustþinginu.

Áhrifin

Erfitt er að trúa því að fjármála­ráðherra hafi skipt um skoðun frá vori fram á haust.

Hitt er líklegra að samkvæmt eðli stjórnarsamstarfsins ráði forsætisráðherra meir um útgjöldin en fjármálaráðherra meir um tekjurnar. Þannig er stefnt í gagnstæðar áttir á tekjuhlið og útgjaldahlið. Afleiðingin er hallarekstur fram yfir mitt næsta kjörtímabil.

Á mesta hagvaxtarári í manna minnum hefðu ábyrg fjárlög átt að leiða til umtalsverðrar lækkunar skulda og minni vaxtaútgjalda. Veruleikinn fer með okkur í hina áttina.

Nýlegar tölur sýna að þrátt fyrir methagvöxt hefur framleiðni þjóðarbúsins beinlínis minnkað. Það þýðir að minna er til skipta í þjóðarbúinu, þar á meðal fyrir ríkissjóð. En þá loka þingmenn meirihlutans bara augunum.

Þörfin

Hermt er að nýir kjarasamningar séu innan verðbólguviðmiða Seðlabankans. Þá er það bara ríkisfjármálastefnan, sem rímar ekki við stöðugleikamarkmiðið.

Þessi staða sýnir að það er þörf á dýpri umræðu um prinsippin í fjárlagafrumvarpinu. Það er engin afsökun þótt það sé þykkt, þungt og þurrt.

Slík umræða er holl þótt hún sé ekki sjálfkrafa skemmtileg.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. desember 2022