15 feb Það er ekki jafnt gefið
Núverandi ríkisstjórn hefur setið við stjórnvölinn í tæp sex ár. Sjálfskipuð einkennisorð hennar hafa verið efnahagslegur stöðugleiki og pólitískur friður.
Á landsþingi Viðreisnar nú um helgina kom saman öflugur hópur fólks sem hafnar þessari skapandi túlkun ráðherranna á eigin stjórnartíð – og réttnefnir meintan frið kyrrstöðu. Kyrrstaða sem á endanum er svikalogn.
Efnahagsvandinn er marglaga. Það logar einfaldlega allt stafnanna á milli í deilum. Vart skiptir máli hvar gripið er niður.
Kjaradeilur eru orðnar að dómsmálum, vantraustsyfirlýsingar daglegt brauð. Ráðherrar einstakra málaflokka eru einspilarar á velli, þar sem ekkert leikskipulag virðist ríkja.
Seðlabankastjóri bendir ítrekað á það ófremdarástand sem skapast hefur í ríkisfjármálunum og á vinnumarkaði. Það þó að sjómenn og útgerðin skrifuðu undir samning til næstu tíu ára. Sem er fagnaðarefni.
En stöldrum við, hvernig verða svona 10 ára samningar til á Íslandi? Á því er einföld skýring. Viðsemjendur sjómanna, útgerðirnar, eru nefnilega fyrirtæki í forréttindaheimi 300 stærstu fyrirtækja landsins, sem gera upp í stöðugum gjaldmiðli – og geta leyft sér að gera áætlanir fram í tímann. Skúringafólk, kennarar, strætóbílstjórar og skrifstofufólk er á sama tíma neytt til að gera upp í íslenskum krónum.
Ríkir einhver sérstakur friður um það að venjuleg, íslensk heimili séu neydd í hlutverk spákaupmanna á gjaldeyrismarkaði til að verða ekki undir? Er friður um það að þeir sem eiga mest, tapa minnst þegar á móti blæs?
Viðreisn vill að fólkið sem ákveður nú hvort það taki yfirdrátt til að borga af óverðtryggðu lánunum sínum eða breyti þeim í verðtryggð, hvar eignamyndun er nánast engin – fái líka að ákveða hvort þau vilji yfir höfuð áfram vera föst í krónuhagkerfi.
Atkvæði greitt Viðreisn er skref í þá átt.
Og þá fyrst stefnum við í átt pólitísks friðar og efnahagslegs stöðugleika til framtíðar á Íslandi.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. febrúar