22 maí Tækifærið sem glataðist
Flest vonuðumst við til þess að fjármálaáætlun fjármálaráðherra tæki mið af því að hér er 10 prósent verðbólga og af þeirri staðreynd að Seðlabankinn hefur séð sig knúinn til að hækka stýrivexti tólf sinnum í röð. En því miður tekur áætlunin ekkert á þeim vanda sem blasir við okkur, ekki frekar en fjárlög ársins 2023 gerðu. Fjárlögin höfðu mesta þýðingu enda taka þau til ársins í ár en fjármálaáætlunin varðar stefnu fyrir 2024-2028. Dýrmætt tækifæri til að verja lífskjör almennings fór þar af leiðandi forgörðum með samþykkt síðustu fjárlaga.
Þrátt fyrir viðvaranir valdi fjármálaráðherra að skila fjárlögum fyrir 2023 með 120 milljarða króna halla. Og í nýrri fjármálaáætlun fyrir 2024-2028 er engar raunverulegar aðgerðir til hagræðingar að finna. Útgjaldapólitíkin er að mestu hin sama. Ekkert er talað um hvernig eigi að flýta því að greiða niður skuldir sem myndi hjálpa við að ná niður verðbólgu. Það er einfaldlega ekki verið að bregðast við stöðunni eins og hún er í dag. Um þetta eru allir umsagnaraðilar sem komið hafa fyrir fjárlaganefnd sammála.
Markvissar tillögur til hagræðingar
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa aðallega svarað þungri gagnrýni á aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar með því að segja að stjórnarandstaðan hafi ekki lagt fram tillögur. Það er í sjálfu sér heiðarleg viðurkenning ríkisstjórnarinnar á því að hún standi ráðþrota frammi fyrir vandanum að kvarta undan því að minnihlutinn hafi ekki unnið vinnuna fyrir hana. En þessir sömu þingmenn virðast hins vegar alveg hafa gleymt því að þeir mættu samviskulega í atkvæðagreiðslur fyrir jól þar sem þeir felldu hverja einustu hagræðingartillögu Viðreisnar.
Viðreisn talaði þá rétt eins og nú fyrir mikilvægi aðhalds í ríkisrekstri til þess að styðja Seðlabankann í því verkefni að ná niður verðbólgu. Þannig lögðum við fram markvissar hagræðingaraðgerðir, m.a. um að draga til baka fjölgun ráðuneyta og ráðherrastóla frá upphafi kjörtímabils og um lækkun skulda ríkisins um 20 milljarða strax á þessu ári. Helsta gagnrýnin á fjármálaáætlun er hversu óábyrgt það er að reka ríkið á lánum í miklu verðbólgufári. Fjármálaráð bendir vinsamlega á að aðhald í opinberum fjármálum dragi úr þörf á að beita vöxtum í eins miklum mæli. Ráðið segir jafnframt að við þenslu sé erfitt að rökstyðja að hið opinbera sé rekið með halla. En stefnan er sú að reka ríkissjóð með halla samfleytt í næstum áratug. Hallarekstur ríkisstjórnarinnar hófst árið 2019, áður en heimsfaraldur skall á, og nú liggur fyrir að stefnt er að því að ríkissjóður verði rekinn með halla út árið 2027. Engu skiptir því hvort aðstæður séu góðar eða erfiðar, ríkisstjórnin skilar bókhaldinu í mínus. Vaxtakostnaður er þriðji stærsti fjárlagaliður ríkisins. Ekkert annað OECD-ríki býr við eins há vaxtagjöld og Ísland. Það kostar að skulda, fyrir ríkið rétt eins og heimilin, og vaxtabyrði íslenska ríkisins er þung. Þess vegna gengur ekki upp í umræðu um fjármál ríkisins að ræða aldrei um skuldirnar og kostnaðinn af þeim.
Skynsamleg tekjuöflun
Samhliða tillögum um hagræðingu lögðum við fram tillögur um tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Við lögðum fram breytingartillögu um að veiðigjöld yrðu hækkuð um sex milljarða. Viðreisn hefur ítrekað lagt fram tillögur um að veiðigjöld endurspegli markaðsvirði veiðiréttinda. Önnur tillaga til tekjuöflunar laut að því að nýta græna skatta og hvata og að kolefnisgjöld yrðu lögð á stóriðju, sem hingað til hefur verið undanþegin slíkum gjöldum þrátt fyrir að vera ein stærsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Þá lagði Viðreisn til að Íslandsbanki yrði seldur að fullu árið 2023 og aðferðin við sölu yrði opin og gagnsæ. Söluandvirðið færi í að greiða niður skuldir en svo virðist sem fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um frekari sölu bankans hafi siglt í strand fyrst og fremst vegna þátta sem varða fjármálaráðherra.
Stuðningur við barnafjölskyldur
Það er skemmst frá því að segja að allar þessar tillögur Viðreisnar voru felldar, þrátt fyrir að þessar aðgerðir hefðu strax dregið úr halla ríkissjóðs og lækkað þar með svimandi há vaxtagjöld ríkisins. Tillögur Viðreisnar um stuðning við þá hópa sem verst verða fyrir barðinu á vaxtahækkununum í formi vaxtabóta, húsnæðisbóta og barnabóta voru sömuleiðis felldar. Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lagði á dögunum áherslu á að hugað yrði að þeim sem höllum fæti standa í þessu verðbólguástandi. Það gengur einfaldlega ekki upp að láta barnafjölskyldur og ungt fólk á húsnæðismarkaði ein um það að bera þyngstar byrðar af verðbólgu og vaxtahækkunum.
Í staðinn kaus ríkisstjórnin að láta tækifærið sér úr greipum ganga, með tilheyrandi kostnaði fyrir heimilin og fyrirtæki landsins. Fjármálaáætlunin lofar fyrirtækjum nú raunar auk þess 1% skattahækkun. Fjárlög yfirstandandi árs einkennast af meiri lánum og sömu útgjaldapólitík.
Þess vegna er ekki annars að vænta en að Seðlabankinn hækki stýrivexti 13. skiptið í röð, því á meðan ríkisstjórnin gerir ekkert mun Seðlabankinn halda áfram að hækka vexti. Svo einfalt er það.