Fjörutíu og tvö prósent

Þorsteinn Pálsson

Hvað kemur okkur í hug þegar við sjáum töluna 42 prósent?

Árið 1974 sýndi hún hversu stór hluti landsmanna kaus Sjálfstæðisflokkinn. Árið 2024, fimmtíu árum síðar, sýnir hún hlutdeild þeirra fyrirtækja í þjóðarbúskapnum, sem kosið hafa að yfirgefa krónuna.

Fyrir fimmtíu árum teysti þetta stóra hlutfall kjósenda frambjóðendum sjálfstæðismanna betur en frambjóðendum annarra flokka. Nú treysta fyrirtæki, sem stýra þessu hlutfalli af þjóðarbúskapnum, evru og dollar betur en íslenskri krónu.

Nýjar upplýsingar

Það var þingkona Viðreisnar sem kallaði eftir upplýsingum á Alþingi um hversu stór hluti þjóðarframleiðslunnar væri á höndum fyrirtækja sem yfirgefið hafa krónuna.

Viðskiptaráðherra svaraði fyrirspurninni. Það er í fyrsta skipti sem stjórnvöld upplýsa um þetta hlutfall. Upplýsingarnar sæta því miklum tíðindum.

Það segir sína sögu þegar svo stór hluti atvinnulífsins kýs að nota ekki lögeyri landsins. Stjórnendur þessara fyrirtækja hafa greitt atkvæði með fótunum.

Ójöfn tækifæri

Í almennum kosningum sitja allir við sama borð. Hver og einn velur þann flokk sem hann treystir best. Þegar kemur að vali á gjaldmiðli geta bara sumir valið en aðrir ekki.

Hugmyndin um jöfn tækifæri allra hefur ekki verið viðurkennd þegar kemur að vali á milliliði allra milliliða.

Aðeins þau fyrirtæki, sem uppfylla ákveðin skilyrði, fá leyfi stjórnvalda til þess að velja hvort þau vilja starfa í krónuhagkerfinu eða standa utan þess.

Fyrirtækin velja besta kost

Nánast öll fyrirtæki, sem einhverju máli skipta og uppfylla skilyrðin, hafa farið út úr krónuhagkerfinu. Þeir sem geta fara.

Ástæðan er ekki óvild í garð Íslands. Stjórnendur fyrirtækjanna velja þennan kost einfaldlega af því að það er hagkvæmara. Um leið er val þeirra hagkvæmara fyrir Ísland. Samkeppnisstaða landsins batnar.

Þessi ríflegi hluti þjóðarbúskaparins býr við allt annað og varanlega hagstæðara vaxtaumhverfi en hinn hlutinn. Hann hefur gjaldmiðil, sem er raunhæfur mælikvarði á efnahagslega starfsemi,sem hinn hlutinn hefur ekki.

Með þessu vali hafa fyrirtækin, sem í hlut eiga, ekki bara styrkt samkeppnisstöðu sína á erlendum mörkuðum. Þau hafa líka styrkt samkeppnisstöðu sína í fjárfestingum innanlands gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum, sem fá ekki að velja. Það felur í sér óréttlæti og ójöfnuð.

Synjunarvaldið

Í aðdraganda kjarasamninga lögðu verkalýðsfélögin til við viðsemjendur sína að erlendir sérfræðingar yrðu fengnir til að kanna kosti og galla krónunnar. Það var þeirra fyrsta krafa.

Samtök þeirra fyrirtækja, sem stýra 42 prósentum af þjóðarbúskapnum og valið hafa að yfirgefa krónuna, höfnuðu þessari beiðni.

Árið 2017 skipaði þáverandi ríkisstjórn nefnd sérfræðinga til að gera skýrslu um framtíð íslenskrar peningastefnu. Nefndin leitaði álits tveggja sænskra sérfræðinga, sem þekktu vel aðstæður á Íslandi. Þeir lögðu ákveðið til að núverandi kerfi yrði aflagt og Ísland myndi annað hvort ganga í myntbandalag eða taka upp myntráð.

Flokkurinn, sem tryggt hafði fyrirtækjum með 42 prósent hlutdeild í þjóðarbúskapnum val um gjaldmiðlaumhverfi, nýtti ríkisstjórnarforystuna til að koma í veg fyrir að nefndin fengi umboð til að fjalla um þann hluta af tillögum sænsku sérfræðinganna, sem sneri að vali á öðrum gjaldmiðli fyrir alla Íslendinga.

Að hugsa fram í tímann

Það var eðlilegt og rétt að leyfa fyrirtækjum, sem uppfylltu ákveðin skilyrði, að velja gjaldmiðil til að bæta eigin samkeppnisstöðu og samkeppnisstöðu Íslands.

Nú hefur verið upplýst hversu stór hluti þjóðarbúskaparins hefur valið annan kost en krónuna.

Í því ljósi er með öllu óverjandi að Alþingi standi áfram í vegi þess að þjóðin sjálf fái að velja hvort aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði lokið. Það er öruggasta leiðin fyrir almenning að  stöðugu gjaldmiðilsumhverfi til frambúðar.

Fyrir Alþingi liggur tillaga þingmanna úr röðum Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata um þjóðaratkvæði fyrir árslok. Það er ekki sérlega lýðræðislegt að leyfa sumum fyrirtækjum að velja en neita öðrum fyrirtækjum og almenningi um þann rétt.

Og nú er brýnt, samhliða átaki til að lækka verðbólgu og vexti skjótt, að hugsa jafnframt lengra fram í tímann um varanlegan stöðugleika fyrir alla landsmenn.

Greinin birtist fyrst á Eyjunni 28. mars 2024