15 júl Krónan var það, heillin
Íslensk þjóðsaga segir frá samtali tveggja kerlinga þar sem önnur sagði frá fágætum fiski sem rak á fjörur. Hún mundi ekki nafnið en eftir að hin hafði romsað upp úr sér alls konar fiskheitum þekkti hún loks eitt og sagði: Ýsa var það, heillin.
Það hefur margt verið sagt og skrifað vegna vinnubragða meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis við breytingar á búvörulögum sem samþykktar voru af stjórnarmeirihlutanum í vor. Gagnrýnin hefur komið víða að; m.a. úr atvinnulífinu, frá verkalýðshreyfingunni, Neytendasamtökunum, Samkeppniseftirlitinu og matvælaráðuneytinu sem vann frumvarpið áður en stjórnarmeirihlutinn greip til sinna ráða.
Gagnrýnin snýr helst að því að kjötframleiðendum var veitt víðtæk undanþága frá samkeppnislögum og ekki er gerð krafa um eignarhald eða stjórn bænda í framleiðendafélögum líkt og í upphaflegu frumvarpi ráðuneytisins. Þannig geta fyrirtæki sem starfa á þessum markaði og stunda fjölbreytta starfsemi, til dæmis við innflutning landbúnaðarafurða og jafnvel rekstur sem ekki fellur undir landbúnað, fallið undir undanþáguna. Þá er ekki kveðið á um fjárhagslegan aðskilnað framleiðendafélaga frá annarri starfsemi.
Málið hefur vakið athygli Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, enda ekki á hverjum degi sem stjórnvöld kippa samkeppnislögum úr sambandi án haldbærra raka og án þess að framkvæmt sé mat á áhrifum breytinganna. Íslenskur landbúnaður þarf að búa við samkeppnishæft umhverfi. Líkt og víðar kallar sérstaðan á sértækan stuðning og að einhverju leyti rýmri reglur. Við sjáum hins vegar flest að órökstutt afnám frá almennum reglum samkeppnisréttar er ekki farsæl leið. Samkeppnislög gegna mikilvægu hlutverki, ekki síst á fákeppnismarkaði eins og þeim sem við búum alla jafna við hér á landi.
Síðan er hitt að ekki hefur verið sýnt fram á að skortur á heimildum til sameiningar afurðastöðva hafi verið helsti vandi landbúnaðarins. Þvert á móti voru slíkar heimildir þegar fyrir hendi gegn sambærilegum skilyrðum og eru í nágrannaríkjunum um að samkeppnisyfirvöld geti gætt að hagsmunum bænda og neytenda. Þá hefur komið fram í máli forsvarsmanna afurðastöðva að fjármagnskostnaður sé stærsta hindrunin í rekstrinum. Himinháir íslenskir vextir leggjast líka mjög þungt á bændur sem þurfa margir að taka há lán fyrir nauðsynlegum búnaði til rekstursins.
Fjármálaráðherra sagði í fjölmiðlum á dögunum að breytingarnar eigi að tryggja afurðastöðvum sambærileg rekstrarskilyrði og þekkjast á öðrum Norðurlöndum. Það er verulega illa geymt leyndarmál að þar munar mestu um margfalda vaxtabyrði hér á landi. Hvernig væri nú að viðurkenna í eitt skipti fyrir öll að fágæta fisktegundin er bara ýsa? Við þurfum ekki meiri einokun heldur bara betri gjaldmiðil.