19 nóv Bætum þjónustu við aldraða
Áttatíu og níu ára gamall faðir minn er svo lánsamur að hafa fengið pláss á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ og þar nýtur hann bestu þjónustu sem hægt er að hugsa sér. Fyrir rúmu ári var hann ekki svo heppinn en þá veiktist hann á eigin heimili og var fluttur á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi. Hann fékk yndislegar móttökur og náði ótrúlegum bata en þá tók við erfið og annars konar barátta. Dvaldi hann samanlagt í fjóra mánuði á bráðamóttöku og langlegudeild spítalans en þrátt fyrir að hafa náð sér fljótt af sjálfum veikindunum var hann ekki nægilega vel á sig kominn til að eiga afturkvæmt heim. Engu að síður átti hann engan rétt á að fá inni á hjúkrunarheimili því hann hafði ekki notið neinnar þjónustu frá heimahjúkrun eða heimaþjónustu áður en hann veiktist. Hann sat því fastur á sjúkrahúsinu, var orðinn hluti af fráflæðisvanda kerfisins og tók legupláss frá veiku fólki. Níu mánuðum síðar og eftir að hafa verið í biðrými á Vífilsstöðum í fimm mánuði komst hann loks inn á hjúkrunarheimili og fékk þar með þá þjónustu sem hann þarfnaðist. Sagan af föður mínum er ekki einsdæmi því fjölmargir aldraðir bíða eftir að komast í hjúkrunarrými og sumir bíða lengur en hann eftir að fá þjónustu við hæfi.
Fjöldi aldraðra einstaklinga bíður eftir að fá þjónustu sem þeir eiga fullkominn rétt á til að geta notið efri áranna með reisn. Þessi bið í óvissu er erfið og það getur tekið á andlega að eiga skyndilega hvergi heima. Því er mikilvægt að við vöknum sem samfélag og hugum að andlegri heilsu þessa mikilvæga hóps.
Andleg heilsa hjá öldruðum er sem betur fer að fá meiri athygli, þar sem hún hefur mikil áhrif á lífsgæði og velferð þeirra sem eldast. Þessi þáttur heilsunnar getur skipt sköpum fyrir sjálfstæði, félagslega þátttöku og almenna vellíðan. Því er mikilvægt að skilja hvað hefur áhrif á andlega heilsu aldraðra, hvaða áskoranir fylgja aldrinum og hvaða stuðningur er mikilvægur til að viðhalda eða bæta andlega heilsu á efri árum.
Það eru fjölmargar leiðir færar til að bæta andlega heilsu hjá öldruðum og styðja við þá til að halda góðri líðan og þátttöku í samfélaginu.
Félagsleg þátttaka
Félagsleg þátttaka hefur jákvæð áhrif á sjálfsmynd og vellíðan aldraðra. Félagasamtök, tómstundir, sjálfboðaliðastarf og skipulagðir viðburðir, sem taka mið af eldri borgurum, gefa þeim tækifæri til að vera í samskiptum við aðra og upplifa samfélagslega tengingu.
Hreyfing og heilsuefling
Regluleg hreyfing, eins og gönguferðir, léttar æfingar eða sund, hefur ekki aðeins góð áhrif á líkamlega heilsu, heldur bætir einnig andlega líðan. Líkamleg virkni dregur úr streitu og stuðlar að betri svefni, sem hefur jákvæð áhrif á andlega heilsu.
Meðferð við andlegum veikindum
Fyrir aldraða sem glíma við þunglyndi, kvíða eða önnur geðræn vandamál getur sálfræðiaðstoð, hugræn atferlismeðferð og lyfjameðferð hjálpað mikið. Meðferð vinnur á vanlíðan og stuðlar að því að fólk upplifi jákvæðari tilfinningar og meiri lífsgæði.
Hvatning til sjálfstæðis
Það er mikilvægt að aldraðir fái stuðning við að halda sjálfstæði eins lengi og unnt er. Að skapa hvata og möguleika til sjálfsumönnunar, eins og sjálfsumhirðu og heimilisrekstrar með stuðningi, hefur jákvæð áhrif á sjálfsmynd og líðan.
Hjúkrunarheimili
Þjónusta á hjúkrunarheimilum, hvort sem er dagvistun eða til varanlegrar búsetu, veitir öldruðum stuðning við nauðsynlegar athafnir. Hjúkrunarheimili veita þeim líka öryggi, þannig að þeir geti lifað lífinu með reisn, þrátt fyrir andlega og líkamlega hrörnun.
Aldraðir eiga að sjálfsögðu að geta lifað sjálfstæðu lífi á eigin heimili sem lengst en það þarf að byggja fleiri þjónustuíbúðir fyrir aldraða og við þurfum að fjölga hjúkrunarrýmum fyrir þá sem ekki geta búið lengur heima og þurfa á aukinni þjónustu að halda.
Viðreisn leggur áherslu á að stuðla að félagslegu samneyti og þátttöku aldraðra í samfélaginu til að draga úr einveru og auka lífsgæði þeirra.
Hjálpumst að við að breyta þessu til hins betra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. nóvember 2024