Viðreisn húsnæðismála

Meira en helmingur ungs fólks á aldrinum 18-24 ára og um einn af hverjum fimm á aldrinum 25-29 ára bjó í foreldrahúsum árið 2021 samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofu Íslands.

Á sama tíma voru stýrivextir Seðlabanka Íslands 2%. Stýrivextir hækkuðu svo hratt til haustsins 2023 þegar þeir voru orðnir 9,25% og voru yfir 9% í meira en ár. Enn eru stýrivextir ógnarháir og standa nú í 8,5%.

Ég hef undanfarið haft tækifæri til að hlusta á ungt fólk þegar við frambjóðendur Viðreisnar höfum staðið í verslunarmiðstöðum og spjallað við fólk á förnum vegi. Mörg hafa nefnt að vextir séu of háir og þau geti ekki keypt sér eigin íbúð. Ekki hjálpar verðbólgan til þar sem æ minna verður eftir í buddunni um hver mánaðamót. Það sama kemur fram í samtölum við foreldra þessa fólks. Fólk finnur til vanmáttar gagnvart húsnæðismarkaði sem það upplifir vinna gegn sér en ekki fyrir sig.

Hvað er til ráða? Það gefur auga leið að það er ómögulegt fyrir ungt fólk að leggja fyrir til fasteignakaupa þegar búa þarf við þann óstöðugleika að stýrivextir fari úr 2% í 9,25% á um tveimur árum og verðbólga úr 5% í 10%. Það er mikilvægt að skapa fyrirsjáanlegt umhverfi og stöðugleika þannig að ungt fólk hafi tækifæri til þess að leggja fyrir í sparnað til íbúðakaupa, fjárfesta í húsnæði og hafi getu til að greiða af húsnæðisláni. Það verður að skapa fyrirsjáanlegt umhverfi og jafnvægi þannig að húsbyggjendur geti viðhaldið stöðugu framboði af íbúðum fyrir fólk.

Viðreisn ætlar að breyta þessu. Við ætlum að leggja grunn að stöðugleika með því að ná jafnvægi í fjármál ríkisins, einfalda regluverk hvað varðar nýbyggingar og gera ungu fólki kleift að fjárfesta í sinni fyrstu íbúð.

Greinin birtist fyrst á Vísi 27. nóvember 2024