Hvers vegna Viðreisn?

Þegar ríkisstjórnin fékk loks hvíldina kom það í sjálfu sér ekki svo mjög á óvart. Rifrildið á stjórnarheimilinu hafði nánast allt sumarið verið hávært og hálfneyðarlegt að fylgjast með. Það má kannski fullyrða að flestir þeirra sem höfðu gefið sér tíma til að fylgjast með daglegum klögumálum og brigslyrðum urðu fegnir að þurfa ekki að hlýða lengur á neikvæð skeyti sem flugu á milli stjórnarflokkanna allt sumarið, sem reyndar kom aldrei, en það er önnur saga.

Stjórnmálaflokkar á Íslandi standa allir fyrir sínu með einum eða öðrum hætt, en eins og við vitum er flokkamynstrið mjög breytt frá því þegar undirritaður var að vaxa úr grasi. Þá var það fjórflokkurinn sem réð stjórn landsmála en tilraunir til að koma fimmta flokknum á þing runnu gjarnan út í sandinn eftir eitt kjörtímabil eða svo. En nú er öldin önnur og á síðasta þingi sátu átta mismunandi flokkar, hver með sína stefnu, við Austurvöll og kann það kerfi að endurtaka sig þótt ýmsir eigi á hættu að ná ekki tilskildum atkvæðafjölda til að komast aftur á þing.

En ríkisstjórn þriggja mjög ólíkra flokka sprakk vegna óþols, enda var það kannski ekki sanngjarnt gagnvart kjósendum að flokkarnir þrír sem sátu hér fram á haust mynduðu bandalag oft þvert á stefnur flokkanna. Til dæmis var það kyndugt að sjálfur forsætisráðherrann, sem fór fyrir flokki sem að nafninu til hefur verið andsnúinn NATO, skyldi vera jafn tíður gestur á leiðtogafundum með kollegum sínum í varnarsamstarfinu sem kennt er við Atlantshafið. Stærsti flokkurinn fór þá með fjármálaráðuneytið sem hefur því miður safnað skuldum svo að vaxtabyrðin er núna verulega íþyngjandi fyrir ríkissjóð. Upp á þetta var skrifað og kvittað af flokknum sem spurði einfaldlega, í stað þess að setja fram stefnumál, „er ekki bara best að kjósa okkur?“ Þá flæktust „útlendingamálin“ fyrir flokknum, enda gjörólík sjónarmið í þeim efnum innan flokkanna. Til þess var svo tekið að stjórnin var nokkrum sinnum við það að hvellspringa út af veiðum á hvölum.

Þetta þekkjum við öll og þarf ekki að fara fleiri orðum um það. En þá er komið að þingkosningum, sem hleypa óneitanlega auknu lífi í þennan dimmasta tíma ársins, þótt vitaskuld megi taka undir sjónarmið að heppilegra væri að kjósa á vorin þegar tíðin er betri.

Undirritaður hefur kosið samviskusamlega áratugum saman, já þetta tínist til þegar að er gáð. Þar hefur oft verið úr vöndu að ráða, oftast leggja flokkarnir upp með góð og gild stefnumál og mjög svo frambærilegt fólk til þingstarfa. En hvað nú, þegar úrvalið hefur aldrei verið meira?

Þar hlýtur brýnasta verkefnið að vera að taka efnahagsmálin fastari tökum en síðustu misseri. Það nægir ekki bara að benda á Seðlabankann og harma okurvextina sem bitna á íslenskum heimilum. Vissulega er það mjög jákvætt að vextir fari loks lækkandi, en það verður að ná verðbólgunni niður til langframa. Við Íslendingar verðum að finna leið að meiri stöðugleika, ekki síst fyrir heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki. Það verður að finna leiðir til þess að ný harðdugleg aldamótakynslóð eigi möguleika á að koma sér upp þaki yfir höfuðið óháð því hvort að baki búi fjársterkir stuðningsmenn, það er að segja ríkir foreldrar.

Þá eru fleiri vandamál á ferðinni en fjármálin, þótt vissulega geti verið tengsl þar á milli. Í stuttu máli er augljóst að fjöldi barna og ungmenna á við veruleg vandamál að stríða sem stundum eru dauðans alvara. Fíknisjúkdómur herja á unga fólkið í auknum mæli, vanlíðan eykst með hverju misserinu, samfélagsmiðlar og sá skjáþrældómur sem þeim fylgir eykst jafnt og þétt. Drengirnir okkar sem ættu að vera í íþróttum eða öðru skemmtilegu tómstundarstarfi eru farnir að ganga með hnífa í helgargalskapnum niðri í miðbæ og eru hættir að lesa sér til gagns og gamans. Það er stundum óbærilegt að lesa um dauðsföll, manndráp og aðra voðalega atburði sem við foreldrar skiljum ekkert í. Setja verður geðheilbrigðismál ungmenna í öndvegi með aðkomu sérfræðinga og með stuðningi, upplýsingagjöf og opinberri umræðu um þessi viðkvæmu en mjög svo mikilvægu mál. Það verður einfaldlega að fjármagna þennan málaflokk.

Það má vitaskuld rífast út af fjárlögum hverju sinni og setja fram skynsamleg rök fyrir því að hnika til áherslum í heilbrigðiskerfinu, menntamálum, öryggismálum og svo framvegis, en ég tek undir með stefnu Viðreisnar að aldrei hefur verið brýnna að forgangsraða og fjármagna málaflokka er lúta að geðheilbrigði heillar kynslóðar.

Þess vegna styð ég Viðreisn í komandi alþingiskosningum og hef tekið að mér að sitja í áttunda sæti í Reykjavík suður fyrir flokkinn. Ég hef mikla trú á að mjög svo frambærilegt fólk nái kjöri til Alþingis fyrir hina ýmsu flokka, þótt ég sé reyndar fjarri því að keppa um slíkt. Í Reykjavík suður teflir Viðreisn fram mjög öflugum frambjóðendum sem ég hef fulla trú á að eigi eftir að skila framúrskarandi verki við Austurvöll á komandi þingi.

Það er kominn tími á breytingar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. nóvember 2024.