Jón Óskar Sólnes

Ég er fjölskyldumaður úr Vesturbænum sem hef komið víða við. Ég á tvær uppkomnar dætur Salvöru myndlistakonu og Kötlu kvikmyndagerðarmann. Þá skal líka telja drengina mína Sturlu og Hjalta sem eru í LHÍ annars vegar og MR hins vegar. Ekki má heldur gleyma hefðardömunni Míu, en kisan sú er nú orðin nokkuð roskin og stafar fuglunum í hverfinu ekki lengur ógn af henni, sem betur fer. Eins og svo margir aðrir Íslendingar finnst okkur gaman að leggja land undir fót saman og reynum að ná að minnsta kosti einhverjum sumarleyfisdögum, á hverju ári. Það tekst þó ekki alltaf því allir eru jafnan eitthvað að sýsla, stundum hver í sínu landi. Konan mín vinnur í Utanríkisráðuneytinu og höfum við vegna starfa hennar dvalið erlendis nokkrum sinnum. Auk þess hef ég starfað á alþjóðavettvangi við friðargæslu og mannúðarmál, meðal annars í Bosníu og á Srí Lanka. Ég hef líka unnið spennandi störf hjá flottum fyrirtækjum eins og Össuri og Kaupþingi sáluga. Ég starfaði um árabil sem fastafulltrúi fyrir Samtök atvinnulífsins í Brússel og ef haldið er ennþá aftar í tíma munu elstu menn muna að ég vann sem fréttamaður á RÚV í rúman áratug, þar sem ég fjallaði mikið um fyrstu ár EES samningsins, þegar hann var að slíta barnsskónum.