Viðreisn

Málefnin

Jafnréttismál

Landsþing 24. september 2016

Jafnrétti er leiðarstef í allri stefnumótun Viðreisnar. Jafnrétti í verki er ein af stóru kerfisbreytingunum sem Viðreisn beitir sér fyrir. Ísland hefur verið í fararbroddi í kynjajafnrétti á alþjóðavettvangi og við eigum að halda stöðu okkar þar. Samfélagið er  fjölbreytt og mismunandi hópar mæta ólíkum hindrunum. Áhersla er lögð á jafna stöðu og jöfn réttindi allra einstaklinga óháð kynferði, trúarbrögðum, skoðunum, uppruna, kynþætti, litarhætti, kynhneigð og stöðu að öðru leyti. Viðreisn vill vinna markvisst að því að uppræta rótgróna fordóma í samfélaginu.

Launajafnrétti í verki
Kynbundinn launamunur er óviðunandi og hann verður að uppræta. Ná verður jafnvægi í stjórnunarstöðum hjá hinu opinbera og að kynjahlutföll nái minnst 40/60 hlutfalli á næstu tveimur kjörtímabilum. Við ráðningar og skipun í störf taki nýráðningar alltaf mið af jafnréttislögum. Dómstólar falli einnig undir þessi viðmið.

Jafnrétti á vinnumarkaði er órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi. Því fylgir efnahagslegur ávinningur en misrétti er samfélögum óhagkvæmt. Beita á kynjaðri fjárlagagerð og opinberar stofnanir eiga að innleiða jafnlaunastaðal.

Viðreisn fæðingarorlofs
Endurreisa þarf fæðingarorlofskerfið og tryggja að foreldrar verði fyrir sem minnstu tekjutapi í fæðingarorlofi. Stefna Viðreisnar í fæðingarorlofsmálum byggir á rétti barna til samneytis við báða foreldra í frumbernsku og jafnri stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Til að ná þessu fram þarf jafna töku fæðingarorlofs beggja kynja og samfellu í dagvistun barna eftir að fæðingarorlofi lýkur.

Kynbundið ofbeldi er birtingarmynd kynjamisréttis
Vitund og virðing fyrir kvenfrelsi er forsenda þess að uppræta staðalímyndir um hlutverk kynjanna. Uppræta verður kynbundið ofbeldi í íslensku samfélagi með forvörnum og fræðslu. Fjármagna þarf samstillt átak stjórnvalda, fræðasamfélagsins og grasrótarsamtaka til að sinna þessu verkefni. Lögregla og ákæruvald þurfa að vera í stakk búin til að sinna þessum mikilvægu og erfiðu málum. Hrelliklám verði skilgreint í hegningarlögum og þolendum mansals þarf að veita fullnægjandi réttarvernd og stuðning.

Jafnréttissjónarmið í allri kennslu
Mikilvægt er að ná fram skilningi og hugarfarsbreytingu með kynjafræðikennslu á öllum skólastigum. Í allri kennslu á að vinna markvisst gegn staðalímyndum og kynjahyggju. Menntamálayfirvöld þurfa að vera meðvituð um forsendur kynjaðs námsvals og leita leiða til þess að stuðla að jafnri stöðu kynjanna í einstaka námsgreinum og síðar á vinnumarkaði.

Réttindi fatlaðra
Viðreisn leggur áherslu á að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem nýverið var staðfestur, verði lögfestur og fylgt eftir með aðgerðum.

Fögnum fjölbreytileikanum
Viðreisn styður réttindabaráttu hinsegin fólks og talar fyrir frelsi, mannréttindum og jafnri stöðu og vill að Ísland verði í fremstu röð varðandi réttarstöðu þess. Löggjöf verði færð til nútímalegs horfs og stutt sérstaklega við hinseginfræðslu fyrir fagstéttir hjá hinu opinbera.

Jafnrétti að leiðarljósi í utanríkismálum
Í öllu alþjóðasamstarfi á utanríkisþjónustan að styðja við jafnréttismál í samræmi við sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna. Jafnrétti og jafn aðgangur kynjanna að menntun, atvinnu, heilbrigðisþjónustu og ákvörðunum er nauðsynleg forsenda friðar, hagsældar og sjálfbærni í heiminum.

------

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið [email protected].
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.
Sara Dögg Svanhildardóttir, er formaður málefnanefndar um jafnréttismál.