Höfnum allri mismunun og byggjum upp réttlátt fjölmenningarsamfélag

Viðreisn vill byggja upp fjölþjóðlegt og opið samfélag. Brýnt er að tryggja öllum íbúum landsins jöfn tækifæri og jafnan lagalegan rétt án tillits til uppruna. Gildir þetta jafnt um vinnumarkað, borgaraleg réttindi, möguleika til náms sem og þátttöku í stjórnmálum. Hér þarf að rýmka kosningarétt, rýmka atvinnu- og dvalarréttindi fólks utan EES-svæðisins og auka rétt útlendinga sem stunda hér nám til að setjast að hér á landi þegar að námi lýkur. Fordómar og mismunun á grundvelli uppruna er því miður raunin á íslenskum vinnumarkaði. Viðreisn telur þessa mismunun ólíðandi og brýnt að ráðast til viðeigandi aðgerða gegn allri mismunun á grundvelli uppruna. Inngilding (e. inclusion) í íslenskt samfélag á að vera meginstef á öllum sviðum. Íslenskukennsla er mikilvæg grunnstoð sem öll eiga rétt á. Viðreisn leggur áherslu á mannúðlega stefnu í málefnum flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd.

 

Fólk af erlendum uppruna auðgar íslenskt samfélag og atvinnulíf

Viðreisn leggur áherslu á að samin verði heildstæð aðgerðaráætlun í málefnum fólks af erlendum uppruna sem hefur annað móðurmál en íslensku. Skapa þarf aðstæður til að taka á móti fólki af erlendum uppruna með því að rýmka rétt þeirra til að setjast hér að, t.d. hafi það stundað hér nám. Tryggja þarf að þau sem hafa fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn fái viðeigandi tækifæri og stuðning. Þannig öðlast þau jafnari forsendur til náms og á vinnumarkaði. Gera þarf bragarbót á því að meta menntun erlendis frá og tryggja aðgengi fólks af erlendum uppruna að raunfærnimati svo að þeirra þekking og hæfni nýtist þeim og samfélaginu sem best.

 

Menntun fyrir öll – Nám alla ævi

Öflugt menntakerfi byggir á framúrskarandi menntun með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og öfluga félagsfærni og tekur tillit til þeirra öru breytinga sem samfélagið tekur. Aðgengi að námi, skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri skal vera jafnt með tilliti til kynja, kynhneigðar, fötlunar, trúarbragða, búsetu, efnahags eða annarrar stöðu.

 

Menntun er undirstaða jafnréttis, tækifæra og velferðar í samfélagi okkar og er um leið forsenda framþróunar. Við viljum tryggja einstaklingum nám við hæfi með tilliti til ólíkrar færni, fötlunar, trúarbragða, kynhneigðar, búsetu eða annarrar stöðu. Nám fer fram alla ævi og er því mikilvægt að byggja brýr milli allra skólastiga og tryggja frelsi einstaklinga til að fara á sinn hátt í gegnum menntakerfið.

 

Stoðþjónusta innan menntakerfis er nauðsynleg nemendum og því vill Viðreisn tryggja aðgengi að sálfræðiþjónustu og náms- og starfsráðgjöf á öllum skólastigum í fjölmenningarlegu skólaumhverfi.

 

Öll börn og ungmenni sem ekki hafa íslensku að móðurmáli skulu fá stuðning og eftirfylgni til að þau hafi jafnar forsendur til náms í íslenskum skólum.

Öflugt menningar- íþrótta- og tómstundastarf óháð efnahag

Tryggja skal jafnt aðgengi barna, óháð efnahag, uppruna, getu og búsetu, að skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri. Viðreisn vill stuðla að uppbyggingu á félags- og tómstundastarfi um land allt. Tryggja skal jafnt aðgengi barna, óháð efnahag, uppruna, getu og búsetu, að skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri. Slíkt getur af sér víðsýna einstaklinga með sterka sjálfsmynd og hæfni til að takast á við ný og óþekkt störf framtíðar.

 

Tryggja þarf að skipulagt íþróttastarf hafi skýrar jafnréttisáætlanir og að þátttakendum sé ekki mismunað á grundvelli kyns, kynhneigðar, uppruna eða ólíkrar getu.

Lestu mennta-, menningar-, félags- og tómstundastefnu Viðreisnar hér

 

Kynbundið ofbeldi er ólíðandi

Kynbundið ofbeldi skal uppræta með opinni umræðu, ásamt forvörnum og fræðslu. Lögregla, ákæruvald og dómstólar þurfa að vera í stakk búin til að sinna þessum mikilvægu og viðkvæmu málum og þjónusta þarf að vera til staðar fyrir þolendur um land allt. Brýnt er að tryggja þolendum ofbeldis nauðsynlegan stuðning og þjónustu. Mikilvægt er að styrkja réttarstöðu brotaþola og efla traust þeirra á kerfinu, veita þeim aðild í sakamálum og skerpa hlutverk réttargæslumanna. Auka þarf aðgengi þeirra sem beita ofbeldi að úrræðum til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi ofbeldi. Þá þarf að veita þolendum mansals fullnægjandi réttarvernd og stuðning.

 

Kynbundið ofbeldi er kerfisbundið ofbeldi. Kerfisbundið ofbeldi gegn hinum ýmsu hópum samfélagsins er staðreynd. Hafa þarf minnihlutahópa og fólk af erlendum uppruna sérstaklega í huga þegar lagðar eru fram úrbætur á kerfinu.

Lestu jafnréttisstefnu Viðreisnar hér

 

Mannréttindi eru grundvöllur fjölbreytts mannlífs

Á Íslandi er fjölbreytt mannlíf og vill Viðreisn standa vörð um fjölbreytileikann. Tryggja skal mannréttindi og virðingu fyrir öllum. Tryggja verður að fólk á flótta og hælisleitendur hljóti mannsæmandi skjól hérlendis ásamt því að endurskoða þau búsetuúrræði sem standa þeim til boða. Fólk á flótta og hælisleitendur eiga að vera jafn velkomin og aðrir. Tryggjum réttindi til þjónustu, náms og vinnu þegar fólk kemur hingað til lands og leyfum þeim að búa sér betra líf og taka virkan þátt í samfélaginu.

Lestu innanríkisstefnu Viðreisnar hér

 

Ísland á að setja fordæmi í málefnum flóttamanna

Mannréttindi eru óaðskiljanlegur hluti alþjóðastjórnmála en ekki einkamál sérhverrar þjóðar. Ísland skal leggja sitt af mörkum til þróunarsamvinnu, mannúðar- og neyðaraðstoðar, sem og móttöku flóttafólks. Ísland ætti að setja fordæmi, með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi, í málefnum flóttamanna- og farandfólks sem er í leit að betra lífi. Viðreisn vill auðvelda fólki utan EES að fá atvinnuleyfi og leita tækifæra á Íslandi.

Lestu utanríkisstefnu Viðreisnar hér

 

Fræðslumál

Styðja skal sérstaklega við börn með ólíka færni og börn sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.

 

Menning og íþróttir

Sveitarfélög styðji við heilsueflingu og lýðheilsu í sinni víðustu mynd. Við styðjum að börn geti valið sér frístund við sitt hæfi í gegnum frístundastyrki. Huga þarf sérstaklega að stöðu barna af erlendum uppruna.

 

Fjölbreytni og alþjóðasamstarf

Við vinnum að jafnrétti og gegn hvers kyns fordómum og ofbeldi. Við styðjum fjölbreytni mannlífs, vinnum að því að móta jákvæð viðhorf til fjölmenningar og til þess byggja brýr milli menningarheima. Þjónusta sveitarfélaga taki mið af fjölbreyttum bakgrunni íbúa. Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á ensku og fleiri tungumálum. Stutt er við móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna. Störf á vegum sveitarfélaga skulu standa öllum til boða og unnið gegn óeðlilegum hindrunum á vinnumarkaði. Við styðjum virka þátttöku í alþjóðlegu samstarfi sveitarfélaga og sveitarstjórnarfólks.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar í sveitarstjórnum hér

 

Við fögnum fjölbreytileikanum og gætum þess að enginn gjaldi fyrir að tilheyra jaðarhópi.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar hér