Efnahagslegur stöðugleiki er forgangsmál

Megináhersla þarf að vera á stöðug ytri skilyrði og ábyrgan rekstur hins opinbera. Með stöðugleika skapast tækifæri fyrir langtíma uppbyggingu hagsældar og fjölbreytts atvinnulífs sem býður sem flestum tækifæri þar sem hæfileikar þeirra nýtast.

 

Viðreisn leggur til að Ísland geri tvíhliða samning við Evrópusambandið um samstarf í gjaldeyrismálum í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Slíkur tvíhliða samningur við Evrópusambandið yrði grunnur að fyrirkomulagi sem yrði hliðstætt gjaldeyrisfyrirkomulagi Dana, sameiginlega varið af Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu.

 

Aðild að ESB og evru, til að auka verðmætasköpun, kaupmátt og bæta lífskjör

Margháttaður ávinningur er nú þegar af samstarfi við Evrópuþjóðir með EES samningnum. Allt bendir til þess að stórauka mætti þann ábata með því að ganga að fullu inn í Evrópusambandið. Með því væri tryggður ytri stöðugleiki, lægri vextir, bætt markaðsaðgengi og aukið frelsi í viðskiptum, þjóðinni til hagsbóta. Aðild að ESB og upptaka evru skapar nýja möguleika í nýsköpun atvinnulífsins og veitir möguleika að betri aðgengi að styrkjum úr byggða- og landbúnaðarsjóðum ESB, sem munu efla byggðir og landbúnað. Aðild að ESB mun auka samkeppnishæfni fjármálafyrirtækja og atvinnulífs, efla  útflutning, hagvöxt og framleiðni og lækka matvælaverð vegna lækkunar tolla. Öll þessi breyting mun skapa forsendur  fyrir auknum kaupmætti launafólks og bættum lífskjörum til lengri tíma.

 

Aðild að ESB og upptaka evru er því eitt mikilvægasta og stærsta verkefni á sviði efnahags- sjálfstæðis- og stjórnmála hér á landi, sem myndi auka sjálfstæði, fullveldi, bæta kaupmátt og lífskjör almennings umtalsvert og varanlega í öllum byggðum landsins.

Lestu efnahagsstefnu Viðreisnar hér

 

Nýsköpun er forsenda framfara

Samkeppnishæfur gjaldmiðill er forsenda samkeppnishæfs atvinnulífs, byggða, verðmætasköpunar, kaupmáttar og lífskjara. Sprotafyrirtæki treysta á fjármagn frá erlendum fjárfestum sem vilja ekki fjárfesta í krónuhagkerfi. Mikilvægt er að nýta krafta nýsköpunar til þess að finna lausnir til að draga úr loftslagsvanda og öðrum umhverfisvanda. Nota skal hagræna hvata til að umbuna þeim fyrirtækjum sem eru græn í sínum rekstri.

Lestu atvinnustefnu Viðreisnar hér

 

Efnahagslegt jafnvægi

Sköpun verðmæta með hugviti og skynsamlegri nýtingu auðlinda til framtíðar eru nauðsynleg forsenda efnahagslegs stöðugleika, samkeppnishæfni og lífskjara sem skulu vera að minnsta kosti jafngóð og í nágrannalöndum Íslands. Efnahagslegu jafnvægi verður aðeins náð með stöðugum gjaldmiðli.

 

Nauðsynlegt er að endurskoða núverandi peningastefnu til að tryggja samkeppnishæft vaxtastig og draga úr áhrifum gengissveiflna á almenning og fyrirtæki. Þeim markmiðum verður best náð með upptöku evru.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar hér