Stórátak í innviðafjárfestingum

Nútímavæðing innviða, í þágu samfélags, umhverfis og öryggis þarf að verða forgangsmál nú og í náinni framtíð. Í öllum byggðum skal vera aðgengi að öflugri nettengingu. Ráðast þarf í stórátak með fjárfestingum í dreifikerfi rafmagns. Hraða þarf þrífösun rafmagns í dreifbýli  sem er forsenda margvíslegrar atvinnusköpunar og notkun öflugs rafbúnaðar og orkuskipta í sveitum. Þá ber að fjárfesta vel í samgöngukerfinu öllu, þ.m.t. höfnum og flugvöllum. Horfa ber til aðkomu einkaframtaksins í slíkum fjárfestingum og útgáfu grænna skuldabréfa í verkefnum sem stuðla að vistvænum samgöngum. Meta skal þjóðhagslega hagkvæmni innviðafjárfestinga og skulu allar stórar innviðaframkvæmdir ráðast af félagshagfræðilegu mati.

 

Einfalda þarf og straumlínulaga stjórnsýslu í málefnum innviða. Taka skal upp beina gjaldtöku af vegamannvirkjum í stað núverandi gjaldstofna og láta slíka gjaldtöku taka mið, m.a. af umhverfisáhrifum og álagi á vegakerfið. Hraða þarf orkuskiptum í samgöngum og ekki einskorða þau við bíla, heldur einnig skipa- og flugvélaflota landsins.

 

Ákveða þarf og ráðast í framkvæmdir vegna nýrra lausna á flugsamgöngum til og frá höfuðborgarsvæðinu.

 

Borgarlína og þjóðvegastokkar á höfuðborgarsvæðinu, ásamt aðskilnaði akstursstefna á þjóðvegum við höfuðborgarsvæðið verði sett í forgang.

 

Hvítbók í byggðamálum gerir góða grein fyrir hvað þarf að gera til að snúa við neikvæðri byggðaþróun á Íslandi. Við styðjum að verkefnum sem þar eru sett fram sé forgangsraðað,  þau fjármögnuð og framkvæmd í nánu samstarfi við hagsmunaaðila.

Lestu innanríkisstefnu Viðreisnar hér

 

Orkuskipti

Stuðlað verði að hröðum orkuskiptum á öllum sviðum. Öflugasta og skilvirkasta verkfæri stjórnvalda til þess eru hagrænir hvatar á borð við kolefnisgjald sem leggist á alla losun og græn áhersla í skipulagsmálum. Viðreisn leggur áherslu á tekjuhlutleysi í stað aukinnar skattheimtu þannig að kolefnisgjöldum verði mætt með samsvarandi lækkun á öðrum sköttum og gjöldum. Þannig verði hægt að ná mikilvægri sátt um loftslagsaðgerðir og tryggja að þeir borgi sem mengi.

 

Til að orkuskipti geti orðið þarf að tryggja nægt framboð endurnýjanlegrar orku og öfluga innviði. Samhliða orkuskiptum er nauðsynlegt að auka fjölbreytni í samgöngum og nýta hagræna hvata til að styðja við virka ferðamáta og almenningssamgöngur.

 

Viðreisn vill að Ísland verði kolefnishlutlaust og laust við jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Því ætti að banna leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis í íslenskri lögsögu. Nýskráningu á bensín- og díselbílum verið hætt árið 2025. Þá verði áhersla lögð á að draga úr umhverfisáhrifum byggingariðnaðarins og að auka hlutfall umhverfisvottaðra bygginga. Þá verði hugað að minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og fiskeldi, m.a. með því að efla starfsemi í lægri þrepum fæðukeðjunnar. Sett verði markmið um að ná 50% hlutdeild endurnýjanlegrar orku í skipum fyrir 2030.

Lestu umhverfis- og auðlindastefnu Viðreisnar hér

 

Innviðir fyrir atvinnuuppbyggingu um allt land

Bæta þarf samgöngur til að stækka atvinnusvæði og draga þannig úr áhrifum breyttra atvinnuhátta. Fiskeldi er gífurleg lyftistöng og mikilvægt að byggja það áfram upp sem sterka atvinnugrein á þeim svæðum sem nú þegar hafa fengið tilskilin leyfi. Huga verður að umhverfisáhrifum, læra af reynslu annarra þjóða og móta skýrt og sterkt regluverk í kringum starfsemina.

 

Uppbygging ferðaþjónustunnar að nýju verður að byggja á faglegum grunni og skýrri framtíðarsýn til að tryggja sjálfbærni greinarinnar til lengri tíma. Fjárfesta þarf í innviðum á ferðamannastöðum um allt land til verndar umhverfi og náttúru og tryggja jafnari dreifingu ferðamanna um landið. Á svæðum sem heyra undir hið opinbera verði innheimta gjalda samræmd. Ríkisstjórnin skal setja heildstæða ferðaþjónustustefnu til 5 ára í senn.

 

Viðreisn vill að litið sé til nýrra og nútímalegra lausna við að skapa ný störf og tækifæri. Uppbygging fjarvinnukjarna víða um land leikur þar lykilhlutverk. Hið opinbera á að styðja við þá um allt land og tryggja að þeir skili störfum til byggðanna en verði ekki til þess að þau glatist. Samstarf ríkis og sveitarfélaga ásamt öflugri grunnþjónusta í heimabyggð skipta þar höfuðmáli. Síðast en ekki síst þarf að huga sérstaklega að stuðningi við menningartengda starfsemi um allt land.

Lestu atvinnustefnu Viðreisnar hér

 

Uppfærum menntun

Menntastefna allra skólastiga þarf að endurspegla mikilvægi stafrænnar færni og þekkingu til að búa og starfa í nútímasamfélagi. Aðgengi að stafrænni tækni er brýnt jafnréttismál og grunnur þess að öll hafi jafnt aðgengi að þjónustu. Stafræn færni í sí- og endurmenntun er lykill umbreytingar starfa með fjórðu iðnbyltingunni.

Lestu mennta-, menningar-, félags- og tómstundastefnu Viðreisnar hér

 

Bætum aðgengi fyrir alla

Virðum réttindi fatlaðs fólks til jafns við aðra. Fjarlægja á þær hindranir sem standa í vegi þess að tryggja mannréttindi og samfélagsþátttöku fatlaðs fólks. Í því skyni verður  að gera ríkar kröfur um aðgengi að mannvirkjum, samgöngum og upplýsingum.

Lestu heilbrigðis- og velferðarstefnu Viðreisnar hér

 

Umhverfi

Við styðjum vistvænar samgöngur og eflingu almenningssamgangna og tölum fyrir kolefnishlutleysi. Við styðjum við markmið Parísarsáttmálans í loftslagsmálum og hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Einfalda þarf ferla í skipulagsmálum til að flýta uppbyggingu íbúða og atvinnuhúsnæðis. Við hönnun og skipulag skal unnið eftir hugmyndafræði algildrar hönnunar og tryggja að ný hverfi og mannvirki séu aðgengileg öllum.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar í sveitarstjórnum hér