Á Íslandi er fjölbreytt mannlíf og vill Viðreisn standa vörð um fjölbreytileikann. Tryggja skal mannréttindi og virðingu fyrir öllum. Tryggja verður að fólk á flótta og hælisleitendur hljóti mannsæmandi skjól hérlendis ásamt því að endurskoða þau búsetuúrræði sem standa þeim til boða. Fólk á flótta og hælisleitendur eiga að vera jafn velkomin og aðrir. Tryggjum réttindi til þjónustu, náms og vinnu þegar fólk kemur hingað til lands og leyfum þeim að búa sér betra líf og taka virkan þátt í samfélaginu.
Huga skal að upplýsingaöryggi og vernd persónuupplýsinga við geymslu og dreifingu gagna.
Lestu innanríkisstefnu Viðreisnar hér
Vitund og virðing fyrir kvenfrelsi og jafnrétti allra kynja er forsenda þess að uppræta staðalímyndir um hlutverk kynjanna og tryggja jafnrétti í raun á öllum sviðum samfélagsins. Hugrekki og framsýni þarf til að tryggja að Ísland verði áfram í fararbroddi á alþjóðavettvangi um jafnrétti. Áhersla er lögð á jafna stöðu og jöfn réttindi allra einstaklinga óháð kyni, aldri, búsetu, líkamlegu atgervi, fötlun, trúarbrögðum, skoðunum, uppruna, kynþætti, litarhætti, kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu og stöðu að öðru leyti. Uppræta þarf rótgróna fordóma í samfélaginu og huga sérstaklega að stöðu þeirra sem höllustum fæti standa. Samfélagið á að styðja jafnt við alla foreldra, óháð stöðu, og áhersla sé á að foreldrar og börn geti notið samvista í sanngjörnu kerfi.
Viðreisn vill byggja upp fjölþjóðlegt og opið samfélag. Brýnt er að tryggja öllum íbúum landsins jöfn tækifæri og jafnan lagalegan rétt án tillits til uppruna. Gildir þetta jafnt um vinnumarkað, borgaraleg réttindi, möguleika til náms sem og þátttöku í stjórnmálum. Hér þarf að rýmka kosningarétt, rýmka atvinnu- og dvalarréttindi fólks utan EES-svæðisins og auka rétt útlendinga sem stunda hér nám til að setjast að hér á landi þegar að námi lýkur. Fordómar og mismunun á grundvelli uppruna er því miður raunin á íslenskum vinnumarkaði. Viðreisn telur þessa mismunun ólíðandi og brýnt að ráðast til viðeigandi aðgerða gegn allri mismunun á grundvelli uppruna. Inngilding (e. inclusion) í íslenskt samfélag á að vera meginstef á öllum sviðum. Íslenskukennsla er mikilvæg grunnstoð sem öll eiga rétt á. Viðreisn leggur áherslu á mannúðlega stefnu í málefnum flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd.
Við leggjum áherslu á að fylgja samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks eftir með skýrum aðgerðum. Tryggja þarf fötluðu fólki sambærileg lífskjör og öðrum. Samfélagið á að vera þannig úr garði gert að fólk með fatlanir geti lifað eðlilegu lífi á eigin forsendum. Tryggja þarf réttindi fatlaðs fólks á öllum sviðum samfélagsins og sjá til þess að margþættum þörfum sé mætt. Þannig er jafnræðis gætt og þátttaka allra tryggð. Vinna skal að auknum atvinnutækifærum fyrir þá sem eru með skerta starfsgetu.
Lestu jafnréttisstefnu Viðreisnar hér
Ísland á að vera virkt í samstarfi þjóða á alþjóðlegum vettvangi til að efla mannréttindi, jafnrétti, frjáls og réttlát viðskipti og stuðla þannig að friði. Með þeim hætti eflum við menningu og hag Íslands sem og þjóða er styðja hliðstætt gildismat. Ísland á heima í samfélagi Evrópuþjóða.
Verkefni nútímans og framtíðarinnar krefjast þess að við sitjum ekki hjá heldur setjumst til borðs með Evrópuþjóðum og vinnum þétt saman um umhverfis- og loftslagsmál, mannréttindamál, viðskiptafrelsi og efnahagslegan stöðugleika. Þannig tryggjum við góð lífskjör á Íslandi til frambúðar. Á þeim forsendum leggur Viðreisn höfuðáherslu á að ljúka aðildarviðræðum í virku samstarfi við þjóðina. Samningur verði í kjölfarið lagður í dóm þjóðarinnar.
Ísland á að efla þátttöku sína í norrænu samstarfi og nýta samstöðu þjóða til að efla rödd okkar á alþjóðavettvangi, ekki síst með hliðsjón af markmiði flokksins um að ganga í Evrópusambandið. Sameinuð rödd Norðurlanda á þeim vettvangi yrði öflugur málsvari samnorrænna gilda um lýðræði, velferð og mannréttindi.
Mannréttindi eru óaðskiljanlegur hluti alþjóðastjórnmála en ekki einkamál sérhverrar þjóðar. Ísland skal leggja sitt af mörkum til þróunarsamvinnu, mannúðar- og neyðaraðstoðar, sem og móttöku flóttafólks. Ísland ætti að setja fordæmi, með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi, í málefnum flóttamanna- og farandfólks sem er í leit að betra lífi. Viðreisn vill auðvelda fólki utan EES að fá atvinnuleyfi og leita tækifæra á Íslandi.
Lestu utanríkisstefnu Viðreisnar hér
Virðum réttindi fatlaðs fólks til jafns við aðra. Fjarlægja á þær hindranir sem standa í vegi þess að tryggja mannréttindi og samfélagsþátttöku fatlaðs fólks. Í því skyni verður að gera ríkar kröfur um aðgengi að mannvirkjum, samgöngum og upplýsingum. Hið opinbera á að vera leiðandi í sköpun hlutastarfa fyrir fatlað fólk. Fjölga á samningum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) og tryggja gæði þjónustunnar. Viðreisn leggur áherslu á að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Lestu heilbrigðis- og velferðarstefnu Viðreisnar hér
Ein af grunnstoðum farsæls þjóðfélags er virðing fyrir mannréttindum. Þau þarf að tryggja og verja innan ramma réttarríks með traustum stofnunum.
Lestu grunnstefnu Viðreisnar hér