Mennta-, menningar-, félags- og tómstundamál

Öflugt menntakerfi byggir á framúrskarandi menntun með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og öfluga félagsfærni og tekur tillit til örra breytinga samfélagsins. Aðgengi að námi, skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri skal vera jafnt með tilliti til kynja, kynvitundar, kynhneigðar, þjóðernis, fötlunar, trúarbragða, búsetu, efnahags eða annarrar stöðu. Öll börn og ungmenni sem ekki hafa íslensku að móðurmáli skulu fá stuðning og eftirfylgni til að þau hafi jafnar forsendur til náms.

 

  • Menntun fyrir öll – nám alla ævi
  • Hagfellt starfsumhverfi skóla leiðir til öflugs faglegs starfs
  • Brúum umönnunarbilið
  • Öflugt menningar- íþrótta- og tómstundastarf óháð efnahag
  • Kröftugt menningarstarf um allt land

 

Landsþing 11. febrúar 2023

Menntun fyrir öll – nám alla ævi

Við uppbyggingu öflugs menntakerfis á að vinna eftir fjórða heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna sem segir: „Tryggja skal jafnt aðgengi barna, óháð efnahag, að skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri.

 

Menntun er undirstaða jafnréttis, tækifæra og velferðar í samfélagi okkar og er um leið forsenda framþróunar. Við viljum tryggja einstaklingum nám við hæfi með tilliti til ólíkrar færni, fötlunar, trúarbragða, kynvitundar, kynhneigðar, búsetu, þjóðernis, aldurs eða annarrar stöðu. Nám fer fram alla ævi og því er mikilvægt að byggja brýr milli allra skólastiga og tryggja frelsi einstaklinga til að stunda nám sem hentar hverjum og einum. Viðreisn leggur jafnt vægi á bók-, verk-, iðn- og listnám á öllum skólastigum með fjölbreyttu rekstrarformi og sveigjanlegu þrepaskiptu námi sem leiðir til viðurkenningar á vinnumarkaði þar sem þörfum einstaklinga er mætt á öllum skólastigum.

 

Aukið val samhliða fjölbreyttum náms- og kennsluháttum gefur nemendum á öllum skólastigum kost á fræðslu við hæfi þar sem þeir fái notið sín og vaxið. Sérstaklega skal styðja við nemendur með ólíka færni á öllum skólastigum og fjölga námsframboði á efri skólastigum. Markmið alls náms, á öllum skólastigum verði að styrkja sjálfsmynd einstaklinga og vellíðan barna.

 

Menntastefna allra skólastiga þarf að endurspegla mikilvægi stafrænnar færni og þekkingar til að búa og starfa í nútímasamfélagi. Í þessari vegferð leggur Viðreisn áherslu á átta gerðir af lykilhæfni sem Sameinuðu þjóðirnar hafa skilgreint til árangursríkrar vinnu í átt að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, svo sem að hæfni til að þekkja sjálfan sig, hugsa kerfislægt og þróa með sér gagnrýna hugsun. Aðgengi að stafrænni tækni er brýnt jafnréttismál og grunnur þess að öll hafi jafnt aðgengi að þjónustu. Stafræn færni í sí- og endurmenntun er forsenda þess að Ísland geti tekist á við tækniframfarir og þær breytingar sem þær munu hafa í för með sér.

 

Viðreisn leggur áherslu á að efla raunfærnimat á framhaldsskólastigi, háskólastigi og á móti viðmiðum starfa í atvinnulífinu. Skilgreina þarf námslok innan framhaldsfræðslunnar líkt og á öðrum skólastigum og efla enn frekar framhaldsfræðslu til að koma til móts við einstaklinga sem hafa ekki lokið formlegu námi.

 

Námslán og skólagjöld taki mið af því að öll hafi jöfn tækifæri til framhalds- og háskólanáms, óháð efnahag og búsetu. Viðreisn vill efla enn frekar styrkja- og lágvaxtalánakerfi námslána. Stefna ætti að blönduðu styrkja- og lánakerfi, þar sem námsmenn hafi þó kost á að nýta eingöngu styrkinn. Viðreisn vill afnema frítekjumark námslána Menntasjóðs námsmanna og telur rétt að grunnframfærsla námslána taki mið af grunnviðmiði neysluviðmiðs félagsmálaráðuneytis, uppfært miðað við vísitölu neysluverðs, að viðbættum húsnæðiskostnaði og að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmanna og búsetu. Umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem hafa hlotið dvalarleyfi á Íslandi, skulu jafnframt eiga kost á námslánum.

 

Hagfellt starfsumhverfi menntastofnana leiðir til öflugs faglegs starfs

Búa þarf kennurum og öðru starfsfólki gott starfsumhverfi á öllum skólastigum. Leggja skal áherslu á starfsþróun, markvissa faglega endurgjöf, tæknivætt starfsumhverfi og samþætta stoðþjónustu. Sérstaklega skal veita kennurum tækifæri til að þróa getu sína til að miðla þekkingu með stafrænni tækni. Leggja skal áherslu á þverfaglegt samstarf innan skóla til að mæta þörfum nemenda með öflugu teymissamstarfi fagfólks á sviðum velferðar, heilbrigðis og menntastofnanna, líkt og þroskaþjálfa, stuðningsfulltrúa og talmeinafræðinga. Stoðþjónusta innan menntakerfis er nauðsynleg nemendum og því vill Viðreisn tryggja gott aðgengi að sálfræðiþjónustu og náms- og starfsráðgjöf á öllum skólastigum.

Brúum umönnunarbilið

Leikskólinn er fyrsta skólastigið og leggja þarf áherslu á að gera starfsaðstæður innan leikskóla eftirsóknarverðar til að fjölga starfsfólki til að takast á við mönnunarvandann. Auka þarf sveigjanleika í menntun starfsfólks. Brúa þarf bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla enn frekar. Viðreisn telur að fjölbreytt rekstrarform á leikskólastigi sé jákvætt fyrir skólastigið sem og fyrir börn og foreldra að velja það sem hentar þeim best.

 

Öflugt íþrótta- og tómstundastarf óháð efnahag

Tryggja skal jafnt aðgengi barna, óháð efnahag, uppruna, getu og búsetu, að skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri. Viðreisn vill leita allra leiða til að fá börn og unglinga af erlendu uppruna til þátttöku í félags- og tómstundastarfi. Viðreisn vill stuðla að uppbyggingu á félags- og tómstundastarfi um land allt. Tryggja skal jafnt aðgengi barna, óháð efnahag, uppruna, getu og búsetu, að skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri. Slíkt getur af sér víðsýna einstaklinga með sterka sjálfsmynd og hæfni til að takast á við ný og óþekkt störf framtíðar.

 

Viðreisn vill stefna að heilsueflandi samfélagi fyrir alla aldurshópa. Félags-, íþrótta- og tómstundastarf, fyrir börn jafnt sem fullorðna, stuðlar að aukinni félagsfærni og lýðræðisvitund, hefur forvarnargildi og bætir heilsu og vellíðan. Með styttingu vinnuvikunnar gefst fólki á öllum aldri aukinn tími til að rækta tómstundir sínar.

 

Tryggja þarf að skipulagt íþróttastarf hafi skýrar jafnréttisáætlanir og að þátttakendum sé ekki mismunað á grundvelli kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar, uppruna eða ólíkrar getu.

 

Tryggja skal sérsamböndum markvissan stuðning og betri aðstöðu til að hlúa að afreksfólki og þjálfa það. Fyrirmyndir á sviði afreksíþrótta eru ómetanlegar fyrir allt forvarnarstarf og uppbyggingu íþrótta- og æskulýðsmála. Alþingi hefur samþykkt tillögu Viðreisnar um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sveitarfélögin. Kveikja tillögunnar var sú staðreynd að síðastliðinn áratug hefur íslenskt afreksíþróttafólk reglulega vakið athygli á slæmri fjárhags- og réttindastöðu sinni. Fylgja þarf samþykkt tillögunnar eftir og tryggja að afreksíþróttafólki verði búin umgjörð sem sómi er að.  Tryggt verði aukið fjármagn í Afrekssjóð ÍSÍ sem að renni í meira mæli til yngri landsliða og afreksfólks óháð kyni.

Kröftugt menningarstarf um allt land

Öflugt menningarstarf um allt land er forsenda blómlegrar byggðar. Við eflingu menningarstarfs skal horfa til efnahagslegrar þýðingar menningarstarfsemi og skapandi greina, sem verða sífellt mikilvægari hluti atvinnulífs og verðmætasköpunar. Endurskoða þarf menningartengda sjóði, þ.e. launa-, rannsókna- og verkefnasjóði með það fyrir augum að efla þá enn frekar og tryggja fagleg og gagnsæ vinnubrögð við úthlutun.

 

Frjálsir og óháðir fjölmiðlar eru hornsteinn lýðræðisins. Einkareknir fjölmiðlar og almannaútvarp hafa menningar- og lýðræðislegu hlutverki að gegna. Nauðsynlegt er að huga að samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla og stuðningi hins opinbera, sérstaklega við innlenda dagskrárgerð. Veru RÚV á auglýsingamarkaði þarf að endurskoða með tilliti til stöðu einkarekinna fjölmiðla. Viðreisn telur að erlendir miðlar sem auglýsa á Íslandi, svo sem Facebook og Google, skuli greiða skatta til íslenska ríkisins, til jafns við aðra auglýsingamiðla.

 

——

 

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið vidreisn@vidreisn.is.

Flokkar
Málefnin